19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6817 í B-deild Alþingistíðinda. (6122)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Það er hverju orði sannara að ég gaf engin ákveðin svör um það og sagði að hér væru mörg mál á dagskrá og það væri ekki neinn ákveðinn tími um það hvenær hvert þeirra kæmi til umr. En þetta mál verður þá ekki tekið fyrir í bili. Þess sýnist ekki kostur. En ég vona hins vegar að þær umr. sem hér hafa farið fram sýni að það er full ástæða til að minna hv. þdm. á þingskyldur sínar og þá kannske ekki síst hæstv. ráðh.

En ég geri ráð fyrir að það eigi sama við um 8. dagskrármálið, að það sé ekki heppilegt að þurfa að taka það fyrir þegar hæstv. menntmrh. er ekki viðstaddur. En frá forseta hálfu er ekkert sem bannar það ef ekki eru á því aðrir meinbugir. Og þannig stendur á um 1. dagskrármálið, sem margir hafa nú óskað eftir að kæmi til umr. og er sjálfsagt að gera, áfengislög, að þess er ekki kostur á þessari stundu að taka það mál fyrir vegna fjarvista tiltekinna manna og reyndar fjarvista með leyfi forseta.