19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6833 í B-deild Alþingistíðinda. (6135)

533. mál, breytt nýting útvarpshúss

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Eiður Guðnason flytjum hér lítið mál en þó kannske dálítið athyglisvert. Svipað mál var að vísu flutt í fyrravor á þingi, en þá ekki útrætt. Það var með öðrum hætti: Það var gert ráð fyrir því að hvorki hljóðvarp né sjónvarp flytti í þetta hús, heldur yrðu gerðar ráðstafanir til að hagnýta það með öðrum hætti. En nú höfum við flutt till. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því hvernig hagfelldast sé að nýta þann hluta hins nýja útvarpshúss við Hvassaleiti sem ætlaður hefur verið sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins. Skal athuguninni hraðað svo sem kostur er. Gengið er út frá því að starfsemi sjónvarps verði áfram í núverandi húsakynnum við Laugaveg.“

Það er ljóst að Ríkisútvarpið býr við þröngan húsakost. þ. e. hljóðvarpið, og nauðsynlegt að bæta þar um. Þessi gamla og virðulega stofnun þarf auðvitað að hafa góðan aðbúnað og ekkert við því að segja að bæta þann húsakost þó að allt of mikið hafi verið í lagt í því nýja útvarpshúsi sem risið er. Ég held að útvarpið hefði verið betur komið í miklu minna og geðfelldara húsnæði en því sem þarna er að rísa, þessu bákni. Við flm. gerum ekki ráð fyrir því að sá flutningur verði hindraður úr því sem komið er. Hins vegar teljum við að sjónvarpið eigi að vera áfram í húsakynnum sínum við Laugaveg þar sem vel er að því búið og þar eru held ég nokkrir stækkunarmöguleikar sem gera það kleift að bæta enn starfsaðstöðuna, sem mundi geta nægt um alllangt skeið, og þannig mætti spara stórfé.

Á fundi í menntmn. ekki alls fyrir löngu kom fjármálastjóri Ríkisútvarps, Hörður Vilhjálmsson, og gerði glögga grein fyrir starfsemi útvarps og sjónvarps og gaf upplýsingar um kostnað við þetta nýja hús sem ég hugsa að hv. þdm. þyki fróðlegt að kynnast. Ég held að ég hafi ritað það rétt niður að miðað við verðlag í febrúar 1985 mundi þessi bygging kosta 661.6 millj. kr. þegar hún væri fullfrágengin. Þá hefði hins vegar ekki verið tekið tillit til kostnaðar við flutning á tækjum og því tjóni sem óhjákvæmilega yrði á tækjum, ekki síst sjónvarpsins, sem yrðu sjálfsagt meira og minna ónýt. bæði kaplar og tæki, ef farið yrði að flytja starfsemina í nýtt hús. Þó er talið að um helmingur af búnaði útvarpsins í heild mundi geta nýst þó að um flutning yrði að ræða.

Til viðbótar þessum fjárhæðum er þess að geta að til að unnt sé að flytja sjónvarpið, en hafa samt sjónvarpsútsendingar á meðan á þeim tilfæringum stendur, mundi þurfa að kaupa bíl, sjónvarpsbíl, sem mundi kosta 30 millj. Ég hygg að það sé án aðflutningsgjalda. Það tæki mundi auðvitað geta nýst sjónvarpinu áfram til töku utan sjónvarpssalar svo að það er kannske ekki neitt meginmál.

En það er ekki unnt annað en að greina frá ekki bara kostnaði við þetta hús heldur líka stærð þess, en það er 15 800 fermetrar. Þetta er þó aðeins lítill hluti þess húss sem fyrirhugað hefur verið að byggja, en lóðin er hvorki meira né minna en 5.6 hektarar. Hún er auðvitað ekki ónýt og má byggja á henni önnur hús. Engu að síður er ljóst að þarna hefur verið ráðist í stórvirki sem er í engu samræmi við umsvif í okkar litla þjóðfélagi. En það er búið og gert og þá er að reyna að bæta úr því sem mest stingur í augu.

Þá er það fyrirbæri, sem ég vissi nú ekki hvað hét, ég hef labbað um það nokkrum sinnum, og það er æðistórt, en það er gífurlegur salur sem ég hélt að væri á stærð við Laugardalsvöll, en viðmælandi okkar í hv. menntmn. sagði að hann væri miklu stærri. Þetta er kjallari, kallaður leiðslukjallari. Ég sé ekki betur en að þar sé full lofthæð o. s. frv. Þar á víst ekkert að vera nema rafleiðslur, einhverjir kaplar og loftræstingartæki. Eins og ég sagði hef ég æði oft labbað inn í þetta hús af því ég hef furðað mig á hvað þar væri að gerast og með góðum, öldnum og virðulegum fyrrverandi þm. labbaði ég þarna um að leita að Rás 2, en við fundum hana ekki. Við fórum upp um hæðir og mældum þar út með skrefum og fundum út að þær mundu vera æðimargar íbúðirnar sem þar mættu vera. Það er samt upplýst að Rás 2 muni nota, þegar hún að fullu er komin í gang, um 400 fermetra af þeim 15 800 sem þarna eru til staðar.

Bílastæði eru þarna auðvitað mikil og inni í húsinu líka.

Ég skal ekkert segja meira um þessa byggingu, aðeins skora á hv. þdm. að gera sér ferð og skoða hvað þarna er um að ræða.

Ég veit svo sem ekki hvernig hagkvæmast yrði að hagnýta þann hluta sem hugsaður hefur verið fyrir sjónvarp eða þennan svokallaða leiðslukjallara en vafalaust má finna einhverja leið til að hagnýta hann betur en með því að flytja þessa starfsemi alla í þetta gímald því að ljóst er að rekstur þessa húss hlýtur að vera gífurlega dýr til viðbótar rekstrarkostnaði núverandi húsnæðis útvarpsins. Það er ljóst að menn vilja reyna að spara og gasa ekki áfram í fjárfestingum með sama hætti og gert hefur verið nú um alllangt skeið. Ég tel þess vegna alveg fullvíst að allir geti verið sammála um að staldra þarna aðeins við og huga að því hvernig best yrði búið að útvarpi og sjónvarpi. Það er alveg áreiðanlegt að það er ekki betur eða manneskjulegar búið að sjónvarpi í þessu nýja húsi en er í núverandi húsi fyrir utan hinn gífurlega kostnað, bæði í sambandi við byggingar og svo eins reksturinn, ef starfsemin yrði þarna öll.

Mér skilst að miðað við þann kostnað sem áætlaður er, 661.6 millj. sem vafalaust er of lágt áætlað eins og við þekkjum, allt fer fram úr áætlun í þessu landi, væru það æðimörg hundruð íbúða sem þetta allt saman kostar. Og hér er eða hefur a. m. k. verið skortur á íbúðum, ekki bara á þessu svæði heldur líka sums staðar úti á landi því að það er ekki flutt í eins ríkum mæli utan af landsbyggðinni hingað suður og menn ætla. Það er víða húsnæðisskortur annars staðar á landinu. Það er sjálfsagt ekki þægilegt að koma fyrir íbúðum þarna úr þessu. Það hefði verið hægt fyrir ári að breyta a. m. k. einni eða tveim hæðum í smáíbúðir. Þær hefðu kannske verið eitt eða tvö hundruð. En kostnaðurinn er sýnilega á því bili sem það mundi kosta að byggja þrjú, fjögur eða fimm hundruð íbúðir. En þetta er nú kannske útúrdúr.

Ég legg til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.