19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6848 í B-deild Alþingistíðinda. (6155)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Það hafa ýmsir hv. stjórnarandstöðuþm. kvartað mjög undanfarið yfir tímaleysi og þó hafa þeir nú uppi allstífan málflutning um ýmis mál, sérstaklega þó auðvitað í hv. Nd. Meðal þeirra mála sem þeir hafa þæft þar allmjög eru þessir svokölluðu þríburar. Þar minnir málflutningurinn mig einna mest á lastarann sem líkaði ei neitt og fordæmdi skóginn ef hann fann eitt fölnað laufblað. Ég segi ekki að ekki megi finna eitt og eitt fölnað laufblað í þeim málum sem að okkur hafa sópast nú undanfarið af borði hæstv. ríkisstj. en mér finnst þó að menn megi alls ekki missa sjónar á grænum trjám þar inni á milli. Meðal hinna grænu trjáa lít ég þetta frv. vera sem hér liggur fyrir.

Í málflutningi stjórnarandstæðinga hafa þeir nánast alltaf flutt allir sömu ræðuna um þessi þrjú mál, þ. e. Byggðastofnun, Framkvæmdasjóð og þróunarfélagið. Uppáhaldsslagorðið hefur verið að hér sé að fæðast þríhöfða þurs þar sem höfuðin þrjú spretti út úr búk Framkvæmdastofnunarinnar þegar hún er gerð höfðinu styttri. Þeir hafa svo sem mátt gamna sér við þetta í Nd. undanfarna daga, en ég vona að menn ruglist ekki hér í ríminu af þeim sökum.

Sannleikurinn er auðvitað sá, að hér er verið að fleyga Framkvæmdastofnunina niður í tiltekna búta með ákveðin hlutverk atmörkuð og skilgreind, en á það hefur nokkuð skort. Þetta á við um Framkvæmdasjóð, sem nú er eingöngu ætlað það hlutverk að umgangast tæknilega þær lántökur sem Alþingi hefur ákveðið að sjóðir og aðrir aðilar megi taka á ári hverju, og að Byggðastofnun, sem rædd var hér um daginn og verður væntanlega rædd hér síðar í kvöld, hafi það hlutverk að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Í mínum huga er það engan veginn víst að þessi tvö brot úr Framkvæmdastofnun haldi áfram að vera til um aldur og ævi. Það er alls ekki ólíklegt að verkefnum þeirra verði fundinn betri staður. Eitt er víst að Byggðasjóði og Framkvæmdastofnun varð að breyta ef þau áttu að geta komið að því gagni sem þeim var ætlað.

Við höfum nú í vetur og vor margoft heyrt það og sannreynt að lífskjör úti á landsbyggðinni eru mun lakari en hér suðvestanlands, að fasteignaverð er mun lægra, að laun eru að jafnaði lægri fyrir sams konar vinnu, að vöruverð er hærra og að fólk heldur áfram að flytja suður. Allt þetta hefur gerst þrátt fyrir tilveru Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar sem átti að veita og hefur veitt milljörðum króna til að jafna aðstöðumun fólks eftir búsetu. Það hefur mistekist og jafnvel þó að féð hefði verið mun meira hefði það mistekist. Það er mín skoðun. Hagkvæmni hefur ekki verið gætt í fjárúthlutunum og það er þess vegna sem þetta hefur mistekist.

Byggðastefnan er nú orðið hálfgert skammaryrði. Fólk úti á landi kann engan veginn að meta það að vera skilið eftir með atvinnutæki sem ekki er nokkur leið að reka, með verðlaus íbúðarhús, með lágar tekjur og sviknar vonir. Þéttbýlisfólkið bendir á þessi sömu fyrirtæki sem dæmi um bruðl og sukk stjórnmálamanna. Þessu varð að linna og ég tel að hér sé byrjunin.

Annars ætlaði ég aðallega að tala hér um þróunarfélagið svokallaða eða frv. til l. um þátttöku ríkis í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi og heimildir annarra til þátttöku í félaginu. Hvað sem stjórnarandstæðingar nú segja, þá er hér á ferðinni merkilegt nýmæli sem mælist vel fyrir og margir binda miklar vonir við. Við höfum að vísu séð það á lánsfjárlögum að búið er að eyrnamerkja óþarflega mikið af því fé sem til þróunarfélagsins átti að renna. En allt er það þó ætlað til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ég hef kynnst nokkuð einni hlið þessa máls, þeirri sem snýr að úthlutun fjár til rannsókna og tilrauna, hinum svokallaða rannsóknasjóði sem í verða um 50 millj. kr. Auðvitað segist ýmsir yfirboðsmenn að þetta sé allt of lítið.

Það var þegar í byrjun janúar sem Rannsóknaráði var falið með bréfi frá hæstv. menntmrh. að gera tillögur um úthlutun þessa fjár. Í svarbréfi ráðsins eða framkvæmdanefndar ráðsins til menntmrh. segir m. a.. með leyfi forseta:

„Framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs vill hér með lýsa ánægju sinni með að samþykkt þessi hefur verið gerð. Ráðið hefur lengi bent á nauðsyn þess að slíkt fé yrði til reiðu í einstök rannsóknaverkefni að undangengnu mati á umsóknum þar um. Var þetta m. a. einn af hornsteinum langtímaáætlunar ráðsins 1982–1987. Framkvæmdanefndin er sannfærð um að samþykkt þess geti haft mikilsverð hvetjandi áhrif á rannsóknastarfsemi í landinu verði áframhald á slíkum fjárráðstöfunum.“

Þetta eru mjög sterk jákvæð ummæli og faglega grunduð en ekki pólitískt. Ráðið gerði síðan tillögu um úthlutun sem síðar var samþykkt af ríkisstj. Ég vildi hér, með leyfi forseta, geta nokkurra atriða úr þeim reglum. Þær munu sýna að við þetta fyrirkomulag eru bundnar miklar vonir og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þær rætist þar sem vandað hefur verið til undirbúnings.

Rannsóknaráð hefur kvatt til sérstaka matsnefnd til þess að gefa efnislegar og faglegar umsagnir um umsóknir og meta þær til forgangs fyrir úthlutun. Nefndarmenn verða þrír en þeir skulu kveðja sér til aðstoðar a. m. k. tvo sérfróða menn til að gefa faglega umsögn um einstakar umsóknir. Heimilt verður að leita til erlendra aðila ef þörf krefur. Í nefndina verða valdir menn með eftirfarandi hæfileika: Einn með tengsl við atvinnulíf og góða stjórnunarlega reynslu og sýn til þróunar atvinnulífsins. Einn starfandi vísindamaður er njóti viðurkenningar fyrir vísindastörf sín á sviði grundvallarvísinda. Og svo í þriðja lagi einn með viðskiptalega reynslu og þekkingu á markaðsmálum.

Tillögur eru um að fé þessu verði varið til fárra verkefna á afmörkuðum sviðum þar sem sóst er eftir umtalsverðum árangri fremur en til smáverkefna á mörgum sviðum. Fé á þessu ári, 1985, verði varið sérstaklega til verkefna á nýjum og álitlegum tæknisviðum. Sérstök áhersla verði lögð á í fyrsta lagi fiskeldi. þá upplýsinga- og tölvutækni. líf- og lífefnatækni. nýtingu orku til nýrrar eða bættrar framleiðslu, undirstöðugreinar matvælatækni og framleiðni- eða gæðaaukandi tækni.

Varðandi mat á verkefnum leggur Rannsóknaráð til að það byggist á líklegri gagnsemi verksins. gildi fyrir framvindu tækniþekkingar eða þróunar atvinnugreinar, möguleikum á hagnýtingu á niðurstöðum hérlendis, hæfni rannsóknarmanna eða umsækjenda og líkindum fyrir árangri. Og síðan að forgangs að öðru jöfnu njóti verkefni þar sem samvinna fyrirtækja og stofnana er mikilvægur þáttur og þar sem fyrirtækin leggja umtalsverða fjármuni af mörkum til verkefnisins og þar sem líkindi eru fyrir skjótum eða umtalsverðum árangri. Síðan er getið í tillögum Rannsóknaráðs um hverjir geti sótt um þessa styrki. Þar er lagt til að um styrk geti sótt einstaklingar, stofnanir eða fyrirtæki ein eða sameiginlega og sé þá getið um deilingu verkefna, kostnaðar. ábyrgðar og þess háttar.

Eins og áður sagði er lagt til að fé þessu verði aðallega varið til rannsókna- og tilraunastarfsemi sem líkleg er til að hafa gildi fyrir nýsköpun í atvinnulífinu á næstu árum. en einnig til verkefna er miði að uppbyggingu og færni á tilteknum sviðum ef til lengri tíma er litið. Stuðningur yrði fyrst og fremst við verkefni sem að jafnaði féllu ekki undir vöruþróun á vegum fyrirtækja sem njóta stuðnings annarra sjóða. Þó geta komið til greina verkefni sem njóta stuðnings annarra sjóða ef þau hafa umtalsvert gildi til að skapa nýja þekkingu.

Um hlutverk þróunarfélagsins að öðru leyti hefur þegar verið rætt sitthvað hér í þinginu, m. a. í framsögu hv. formanns fjh.- og viðskn. hér áðan. Ýmsir andstæðingar hafa auðvitað reynt að gera lítið úr og spá illa og látið ganga um það illa fordóma. Mín hugmynd með því að koma hér í þennan ræðustól var fyrst og fremst sú að reyna að sýna hv. þdm. fram á það að reynt hefði verið hér að láta a. m. k. rannsóknarféð, sem ætlað er, koma að sem bestum notum. Ef hliðstæð vinnubrögð verða viðhöfð við aðra þætti sem fara eiga fram af hálfu þróunarfélagsins mun árangur ekki láta á sér standa.

Um brtt. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. er það að segja, að menn gætu fallist á sumar þeirra, en ég óttast að allar breytingar á frv. nú stefni málinu í hættu vegna tímaskorts, ekki síst vegna þess að tillögur svipaðs efnis hafa verið ræddar í hv. Nd. en ekki náð fram að ganga.

— [Fundarhlé.]