13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

108. mál, skipti eða sala aflakvóta

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Skv. reglugerðum um stjórn botnfiskveiða 1984 er heimilt að færa aflakvóta í heilu lagi eða að hluta milli skipa með fernum hætti:

1. Færa má aflakvóta milli skipa í eigu sömu útgerðar.

2. Færa má aflakvóta milli skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð.

3. Færa má aflakvóta milli skipa, sem ekki eru gerð út

frá sömu verstöð, enda sé um jöfn skipti að ræða.

4. Færa má aflakvóta milli skipa, sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð, án þess að skipti á aflakvótum eigi sér stað, að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð og að fengnu samþykki sjútvrn.

Heimildir þessar til að færa aflakvóta milli skipa þóttu nauðsynlegar þegar reglur um kvótaskiptingu botnfiskaflans 1984 voru settar, þar sem kvótar einstakra fiskiskipa ráðast af veiðum þeirra undangengin þrjú ár. Kvótareglurnar binda því einstök skip talsvert í fortíð sinni og því er svigrúm þeirra til að mæta nýjum kringumstæðum, eins og breyttum útgerðarháttum eða annarri aflasamsetningu, takmarkað. Í slíkum tilvikum hjálpa heimildir til færslu á kvótum upp á sakirnar og gera kleift að koma á hagræðingu í rekstri skipa, sérstaklega hjá þeim útgerðum sem eiga mörg skip, sem sum hver fá e.t.v. lítinn kvóta, sem vart borgar sig að hefja veiðar á.

Fram til þessa hefur rn. heimilað 169 færslur á aflakvóta milli skipa. Þessar færslur skiptast milli áðurnefndra heimilda eins og hér segir:

a) Milli skipa í eigu sömu útgerðar 51 færsla. Magn fisks, sem fært hefur verið, er 8821 tonn.

b) Milli skipa, sem gerð eru út frá sömu verstöð, 97 færslur. Magn fisks, sem fært hefur verið, 8323 tonn.

c) Milli skipa á grundvelli jafnra skipta fimm færslur. Magn fisks, sem fært hefur verið, 497 tonn.

d) Milli skipa að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags á viðkomandi stað 16 færslur. Magn fisks, sem fært hefur verið, er 1902 tonn.

Ég vil taka það fram að þessar tölur eru fram að þeim tíma að verkfall opinberra starfsmanna hófst, en upplýsingamiðlun öll tafðist mikið við það og vantar enn þá allar aflatölur frá Fiskifélaginu bæði fyrir september- og októbermánuð.

Í 12 tilvikum hafa aflakvótar verið færðir í heilu lagi milli skipa. Í langflestum tilvikum er um að ræða tiltölulega litla kvóta loðnubáta sem ekki hafa farið til botnfiskveiða. Í 10 tilvikum er um jöfn skipti að ræða milli báta og eru 6 tilvik innan sömu verstöðvar. Magn fisks, sem heimilað hefur verið að færa, er því alls u.þ.b. 19543 tonn sem skiptist þannig: Þorskur 9698 tonn, ýsa 2217 tonn, ufsi 2601 tonn, karfi 2464 tonn, skarkoli 720 tonn, grálúða 876 tonn, steinbítur 965 tonn.

Varðandi seinni hluta fsp. 2., 3. og 4. lið, má segja að allar þessar færslur eru í eðli sínu viðskipti, en hvort peningar eða önnur verðmæti koma þar við sögu vil ég ekki um segja. Að sjálfsögðu hefur það komið fram í umræðum, en það var ekki talið í okkar verkahring í sjútvrn. að fylgjast með slíku. Að sjálfsögðu telja þeir aðilar, sem t.d. hafa ákveðið að leggja sínum skipum, að þeim beri að fá eitthvað upp í fastan kostnað viðkomandi skips og hafa þar af leiðandi farið fram á það að sá, sem aflann fær, taki þátt í þeim kostnaði. Ég get ekkert um það sagt, sem hér er spurt um, á hvaða verði tonnið af þorski gengur í slíkum viðskiptum. Í öllum tilvikum sem færslur hafa verið heimilaðar hefur rn. farið eftir settum reglum og fram til þessa hefur ekkert komið fram sem bendir til að rannsóknar sé þörf í málinu.

Um hlutdeild sjómanna úr fiski, sem færður er, er það að segja að hann verður að sjálfsögðu ekki veiddur án þeirra þátttöku þannig að þeir koma til með að fá sinn hlut þegar þessi fiskur veiðist.