13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

109. mál, lífeyrismál sjómanna

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 3. þm. Reykv., þeirri sem hér er til umr. og er beint til sjútvrh., tel ég rétt að gera grein fyrir eða skýra frá afskiptum fjmrn. af þessu máli. Ég tel það best gert með því að lesa hér upp greinargerð nefndar er fjallaði um málið og raunar undirstrikar í hvers konar flækju það er. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp plaggið, en það er dags. 6. mars 1984 og stílað til fjmrh. og hljóðar svo:

„Með bréfi dags. 6. des. 1982 vorum við undirritaðir skipaðir í nefnd af Ragnari Arnalds, þáv. fjmrh., til að fjalla um lífeyrismál sjómanna.

Nefndin hefur á þrem fundum rætt um með hvaða hætti lífeyrismál sjómanna gætu staðið undir þeim kostnaðarauka sem hlýst af lækkun á ellilífeyrisaldri sjómanna er ákveðin var með lögum nr. 48 frá 29. maí 1981. Nefndin hefur einnig rætt um þann vanda sem upp er kominn í öðrum sjóðum, sem hafa sjómenn innan sinna vébanda, svo og þá erfiðleika sem upp gætu komið vegna flutnings á réttindum til sjóðsins.

Eigi lögin um Lífeyrissjóð sjómanna að standa óbreytt í framtíðinni er varla nema um tvær leiðir að ræða til að afla fjár til að standa straum af hinum aukna kostnaði. Önnur er sú að stjórnvöld beri ábyrgð á lagasetningunni og tryggi það fjármagn sem til þarf, eins og þau hafa raunar gert með því að útdeila fé úr gengismunarsjóði til Lífeyrissjóðs sjómanna og SAL-sjóða sem hafa sjómenn innan sinna vébanda. Hin leiðin er sú að staðið verði undir auknum kostnaði með verulegri hækkun á iðgjöldum.

Ekki hefur náðst samstaða í nefndinni um málið. Formaður nefndarinnar, Höskuldur Jónsson, hefur lýst því yfir að ríkissjóður hafi ekki í hyggju að bera þann kostnað sem breytingin hefur í för með sér. Fulltrúar samtaka atvinnurekenda hafa sérstaklega tekið fram að engin vilyrði hafi verið gefin af hálfu sambands þeirra um að atvinnurekendur standi undir umræddum kostnaði með hærri iðgjöldum af þeirra hálfu. Fulltrúar launþega ítreka að sjómannasamtökin hafi í viðræðum við ríkisvaldið alltaf haldið þeirri skoðun fram að ríkissjóður eigi að greiða kostnaðinn og vísa í því sambandi til greinargerðar sinnar um málið sem fylgir bréfi þessu.

Með tilvísun til framanritaðs er ljóst að frekara starf nefndarinnar skilar ekki árangri á meðan afstaða stjórnvalda er óbreytt. Nefndarmenn leggja áherslu á að Alþingi samþykkti breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna samhljóða. Það hlýtur því að vera hlutverk Alþingis að sjá til þess að þessi mál verði færð til þess vegar að framkvæmanleg séu. Allur dráttur á málinu er aðeins til þess fallinn að gera það erfiðara úrlausnar.

Virðingarfyllst,

Höskuldur Jónsson

Bolli Héðinsson

Guðjón Ármann Einarsson

Guðmundur Hallvarðsson

Hermann Þorsteinsson

Jóhannes Sigurgeirsson

Rafn Magnússon.“

Ég tek þátt í þessum umr. til að upplýsa hvað fram kom frá nefndarmönnum og hef kosið þá leið að láta þá sjálfa skýra málið eins og það stendur í dag og vísa til bréfs þeirra.