15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Það er auðvitað sjálfsagt fyrir forseta að taka vel réttmætum aths. um þingsköp og fundarstjórn. En ég verð nú að segja í þessu tilfelli að forseti getur því miður ekki tekið þeim leiðbeiningum sem fram hafa komið, nú síðast mjög hóflega fram bornar af hv. 3. þm. Reykn. Sannleikurinn er sá, að það sem við erum hér að gera er að leyfa tilteknum þm. að ræða hér mál utan dagskrár. Tveir hv. þm. áttu tal við mig löngu áður en fundur hófst nú í dag um að þeir óskuðu eftir því að taka til máls utan dagskrár. Það varð niðurstaða mín að þeim skyldi þetta heimilt, enda var haft samband við viðkomandi ráðh. um þetta og þeir voru því samþykkir að þessi mál skyldu rædd. Niðurstaða mín var sú, eins og fram kom mjög skýrt þegar ég skýrði þessi mál hér í upphafi, að til þess væri ætlast að báðir þessir málshefjendur gætu tekið til máls mjög snemma á fundartímanum. Við það hef ég reynt að standa og mun gera.

Næstur á mælendaskrá er nú hæstv. fjmrh. og mun hann að sjálfsögðu taka til máls hér fljótlega, en ég skal áður veita hv. 3. þm. Reykn. orðið um þingsköp. En sem sagt, þetta er afstaða forseta og það er fjarri því að það hafi verið hugmynd forseta að svipta þá orðinu, sem hér hafa um það beðið. Þetta er á misskilningi byggt og það er líka misskilningur að forseti hafi í nokkru hagað fundarstjórn óeðlilega í þessu tilfelli. En ég skal gefa hv. 3. þm. Reykn. orðið um þingsköp.