13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

141. mál, útgjaldaauki ríkissjóðs vegna kjarasamninga

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. mjög svo fróðlegar upplýsingar og þarfar. Þær eru gott innlegg í þá umræðu sem fram mun fara, bæði innan launþegahreyfingarinnar og meðal stjórnmálamanna og hv. alþm., um spurninguna: Hvað þarf að gera til þess að tryggja að þær kjarabætur, sem opinberir starfsmenn og annað erfiðisvinnufólk á Íslandi áunnu sér, leiði ekki til vaxandi verðbólgu heldur tryggi viðvarandi kaupmátt?

Skv. þessum upplýsingum er meðalhækkun launa að því er varðar opinbera starfsmenn um 16.3% á árinu 1985 miðað við óbreytta samninga, ekki forsendur fjárlaga, að gefnum ákveðnum forsendum um sérkjarasamninga, vaktaálag, persónuuppbót o.s.frv. Þetta þýðir á árinu 1985 955 millj. kr. útgjaldaauka fyrir utan tengdan útgjaldaauka vegna lífeyrisgreiðslna, daggjalda o.s.frv. Þessi upphæð er því rúmur milljarður kr. Þar á móti kemur að niður féllu í launagreiðslum ríkissjóðs 125 millj. vegna verkfallsins. Í stórum dráttum mætti þess vegna ætla að útgjaldaauki ríkissjóðs af þessum sökum væri um 1 milljarður kr. og kannske rúmlega það.

En þá er eftir að svara þriðju spurningunni sem var ekki síst áhugaverð, hæstv. fjmrh. Þá var spurt: Hversu stór hluti útgjalda ríkissjóðs (skv. spurningu 2) má ætla að skili sér aftur í ríkissjóð í formi beinna og óbeinna skatta ef tekið er tillit til margfeldisáhrifa aukinnar neyslu? Þetta var kannske kjarni spurningarinnar, sem ég vildi fá hæstv. fjmrh. til þess að leggja mat á, vegna þess að ef brúttótekjuaukinn væri rúmur milljarður er enginn vafi á því að verulegur hluti þess útgjaldaauka skilar sér beint í ríkissjóð aftur. Í fyrsta lagi má gera ráð fyrir því að hækkuð laun leiði til aukinnar neyslu — og hver er helsti tekjustofn ríkissjóðs? Það er söluskattur, það er vörugjald, það eru aðflutningsgjöld. Ég rifja upp að talað hefur verið um dálítinn bata í ríkisfjármálum vegna aukinna tekna. Af hverju stafar það? Það stafar af því að það er innflutningsæði vegna ódýrs innflutnings á vitlausu gengi. Sem þýðir hvað? Sem þýðir það að ríkissjóður hefur verið að fá meiri og meiri tekjur af innflutningi, ekki síst t.d. af mjög svo ríflegum bílainnflutningi lúxusstéttarinnar í landinu. Það er þetta sem er kjarni málsins. Spurningin er: Hvað mun stór hluti af þessum útgjaldaauka leita beint til ríkissjóðs aftur í formi óbeinna skatta sem ríkissjóður leggur á neyslu landsmanna?

Í annan stað er eftir að vita hver er stefna ríkisstj. eins og fyrri daginn. Það er búið að lýsa yfir að fresta verði stefnuræðu á meðan verið er að leita að henni. En hver verður stefna ríkisstj.? Stendur kannske ekki til hjá hæstv. ríkisstj. að bæta sér upp tekjumissi vegna niðurfellingar á þriðjungi af tekjuskatti með auknum sköttum? Stendur kannske til að leggja á aukna óbeina skatta? Á kannske að hækka söluskatt, þetta tekjuöflunartæki ríkissjóðs sem er svo hriplekt að það leka út um það margir milljarðar? Minni ég þar á umr. okkar fyrir nokkrum dögum. Það væri fróðlegt að heyra það.

Ég held að þessi útgjaldaauki sé smámál fyrir ríkissjóð. Þetta er hins vegar stórmál fyrir framleiðsluatvinnuvegina. Vandi þeirra er allt annars eðlis, jafnvel þótt árið í ár reynist fimmta besta aflaár Íslandssögunnar sem nú bendir allt til, og sannar það að ég fór með réttar tölur í deilum mínum við hv. þm. Halldór Blöndal um aflabrögð hér fyrstu níu mánuði ársins. Jafnvel þótt aflabrögð yrðu að stórum hluta betri bjargar það ekki hag sjávarútvegsins. Af hverju? Það er vegna þess að hluti hans er sokkinn í skuldir. Hvenær gerðist það? Það gerðist í sjávarútvegsráðherratíð hæstv. núv. forsrh. Þau vandamál verða ekki leyst nema með sérstökum aðgerðum og ég get fallist á það.

Ég er að beina máli mínu hér, herra forseti, beinlínis að kjarna málsins sem er greiðslugeta atvinnuveganna án verðbólguhættu. Vandinn er þar fólginn í framleiðsluatvinnuvegunum, samkeppnisatvinnuvegunum, vegna þess að ríkisstj. hefur brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja atvinnuvegunum rekstrargrundvöll og leysa grunnvandamál úr óstjórnartíð fyrirrennara sinna. En að því er varðar ríkissjóð sé ég ekki að þetta sé nokkurt mál vegna þess að það er alveg augljóst mál að skv. hagfræðiformúlu þeirra fjármálaráðuneytismanna og Þjóðhagsstofnunarmanna fer a.m.k. helmingurinn af þessum útgjaldaauka beint í ríkissjóð aftur á árinu.