15.11.1984
Sameinað þing: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

11. mál, lækkun á gjaldtöku fyrir lyfja- og lækniskostnað

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi fullum stuðningi Kvennalistans við þessa till. þm. Alþfl. sem hér er til umr. Fyrsta gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 59/1983 hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita, til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.“

Þetta er metnaðarfull lagagrein og andi hennar lýsir réttlæti og umhyggjusemi. En sparnaðaraðgerðir ríkisstj. á þessu sviði hafa skapað mörgum þær aðstæður að þessi lagagrein verður fjarstæðukennd og það sem verra er, afleiðingar þessara aðgerða stríða gegn anda laganna. Sá hækkandi kostnaður sem ríkisstj. fyrirskipaði að lagður skyldi á læknishjálp, lyf og rannsóknir dregur fólk í dilka hvað varðar getu til að greiða fyrir slíka þjónustu og þar með að njóta hennar. Það fer ekki alltaf saman þörfin fyrir slíka þjónustu og getan til að greiða fyrir hana, sérstaklega á þessum dögum kjaraskerðinga og lágra launa.

Gjald fyrir komu til sérfræðings var hækkað úr 100 kr. í 270 kr., rannsókn á rannsóknastofu hækkaði úr 100 kr. í 270 kr., innlend sérlyf úr 50 í 120 kr. og erlend sérlyf úr 100 kr. í 240 kr. Þá hækkaði einnig hlutur sjúklings í ferðakostnaði um helming.

Fyrir þann sem aðeins stöku sinnum þarf á slíkri þjónustu að halda eru þetta upphæðir sem litlu skipta. Öðru máli gegnir um þá sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum, sem krefjast stöðugs eftirlits, lyfjameðferðar eða ítrekaðra rannsókna, eða þá sem haldnir eru illkynja sjúkdómum og þurfa e.t.v. að reyna mörg mismunandi lyf til að finna þau sem best henta til að halda í skefjum eða lækna sjúkdóminn og eyða verkjum, eða lítil börn sem fá þrálátar eyrnabólgur fyrstu árin og eiga e.t.v. einstæða móður að einasta bakhjalli.

Ótal dæmi mætti nefna um einstaklinga og hópa sem hafa brýna þörf fyrir þá full komnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita, eins og segir í lögum um heilbrigðisþjónustu, en hafa enga möguleika vegna lágra launa til að standa undir þeim kostnaði sem krafist er. Sá andi sem kemur fram í þeirri lagagrein sem áður var vitnað til lýsir einmitt skilningi á því hve aðstæður manna í veikindum eru misjafnar en þörf allra jafnbrýn fyrir úrlausn. Ýmsar rannsóknir og lækningaaðgerðir eru þess eðlis að þær krefjast ekki sjúkrahúslegu meðan á þeim stendur. Margir sjúklingar, sem þarfnast þeirra, hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða þann kostnað sem af þeim hlýst. Þetta ástand mun óhjákvæmilega hvetja til þess að fleiri sjúklingar verði lagðir inn á sjúkrahús, af mannúð fremur en nauðsyn. Þannig bakar ríkisstj. sér meiri kostnað en ætlað var, þegar til lengri tíma er litið, með því að sýna þessa ófyrirleitni. Sú breyting sem nú hefur verið gerð á kostnaðarhlut sjúklinga við læknisþjónustu er tilraun til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Hún er lítilvæg til að þyngja þá pyngju, en bitnar mest og verst á þeim sem minna mega sín og standa höllum fæti. Getur það verið að raunveruleiki þessa fólks eigi ekki greiðan aðgang að og skili sér ekki að stefnumótun og fjárlagagerð ríkisstj.?

Við höfum heyrt svo ótalmörg dæmi um afleiðingar þeirrar stefnu sem hér um ræðir, þótt svo virðist sem sumir kjósi að loka eyrum og augum. Það er eins og hún hugsi ekki, stjórnarandstaðan sagði hæstv. heilbrmrh. hér áðan, og fólst greinilega í þeim orðum að eitthvað væri þeim nú öðruvísi farið á stjórnarheimilinu. Það er sem sagt hugsun á bak við það að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur á þann hátt sem við erum hér að tala um. Á sama tíma er skilningurinn og samúðin í lagi þegar byggja þarf sundlaug við embættisbústaði í útlöndum, greiða reikninga fyrir veislur og ferðalög á vegum hins opinbera og hvern þann kostnað sem hlýst af þátttöku í opinberu lífi.

Að öllum líkindum vildi enginn sem nú situr í ríkisstj. kannast við það að hafa komið gömlu fólki til að gráta í lyfjabúðum vegna auraleysis. Ef þeir væru þarna viðstaddir væri þeim miklu fremur trúandi til að taka budduna sína og borga fyrir gömlu manneskjuna svo hún gæti fengið lyfin sín og hætt að gráta. Það er einmitt hið sama sem ríkissjóður þarf að gera. Það er ekki nóg að beita áræði og festu við að reikna efnahagsdæmið ef mannúð og réttlætiskennd skortir.

Eins og hér hefur áður verið drepið á í dag stefnir heilsuvernd nútímans og framtíðarinnar sífellt meira frá því að vera viðgerðaþjónusta í þá átt að koma í veg fyrir sjúkdóma með fyrirhyggju og heilsusamlegu líferni. Slík heilsuvernd fjárfestir í lengra lífi og meiri vellíðan auk þess sem mikil útgjöld munu sparast við dýra heilbrigðisþjónustu sem leitast við að bæta úr orðnum skaða. Nægir þar að nefna slysavarnir sem dæmi, þar sem fljótt og vel má spara bæði mannslíf og miklar fjárhæðir. Enn fremur má nefna þann mikla ávinning sem verður í auknum vinnuafköstum vegna færri veikindadaga. Þessi tegund heilsuverndar krefst skilnings og áhuga almennings til virkrar þátttöku í eigin heilsugæslu.

Sú stefna sem nú hefur verið tekin með því að hækka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðisþjónustu stuðlar að því að letja þorra fólks og fæla frá því að leita læknis þar til of seint er e.t.v. að beita virkri heilsuvernd. Þetta yrði stórt skref aftur á bak og mundi valda ómetanlegu tjóni á því uppbyggingarstarfi sem þegar hefur verið unnið á þessu sviði.

Heilbrigðis- og tryggingakerfið er vissulega stór útgjaldaliður í fjármálum ríkisins og sjálfsagt er að leita þar sparnaðar eins og annars staðar. Þannig mætti ná eðlilegum og varanlegum sparnaði með aukinni fyrirbyggjandi heilsuvernd, heilbrigðisfræðslu og rekstrarlegri hagkvæmni án þess að neytandinn, sjúklingurinn bíði tjón af. Sú leið að láta sparnaðaraðgerðir bitna verst á þeim sem þurfa mest á læknishjálp að halda er þó aldrei réttlætanleg, eins og allir heiðvirðir menn hljóta að sjá. Jafnframt má benda á það að væntanlega fást stærri fúlgur í ríkissjóð úr fylgsnum skattsvikara en þeir fáu aurar sem fást hjá veiku fólki. Það er ekki að ófyrirsynju að fjölmörg sjúklingasamtök hafa mótmælt sparnaðaraðgerðum ríkisstj. og að sameiginlegur fundur stjórna læknaráða Borgarspítalans, Landakotsspítala og Landspítala hefur varað við afleiðingum þeirra í rekstri spítalanna. Þessir aðilar finna glöggt fyrir því að þessar aðgerðir bitna fyrst og fremst á sjúklingum. Sú spurning er áleitin þessa dagana hvort við séum á leið út úr tímabundnu velferðarþjóðfélagi inn í frumskóginn þar sem lögmál hinna sterku, kappsömu og efnuðu er einrátt.