19.11.1984
Neðri deild: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

136. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég ætla ekki undir þessum dagskrárlið að fara út í almennar umræður um atvinnuástand í Norðurl. e. Ég vil þó geta þess að í þeim efnum trúi ég því að margt smátt geri eitt stórt. Hér er kannske eitt af þessu smáa á ferðinni sem með öðru og í fyllingu tímans getur átt drjúgan þátt í að efla atvinnulíf hvort sem það er á Norðurl. e. eða annars staðar.

Ég vil vegna orða hv. 4. landsk. þm. Guðmundar Einarssonar vekja athygli hans á því að í frv. þessu er ekki talað um stofnun, heldur um rannsóknastofu. Á þessu má gera nokkurn greinarmun. Það er ekki verið að flytja hér till. um mjög stóra stofnun og mikið af steinsteypu, heldur fyrst og fremst talað um rannsóknaaðstöðu sem hafi þó yfir sér það stjórnunarform sem einkennir aðrar rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Ég hef þegar skýrt hvers vegna ég tel heppilegast að standa svo að málum frá byrjun.

Í tilefni af orðum hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og Guðmundar Einarssonar vil ég vekja athygli á því að menn kunna að segja sem svo að ekki sé tímabært á þessu stigi málsins að hefja starfsemi af þessu tagi á einum stað og í einni stofnun. Og menn kunna að telja skynsamlegra að verja nokkru fé-og ekki er ég í sjálfu sér mótfallinn því — til slíkrar starfsemi í hinum ýmsu stofnunum. En þá vek ég athygli á því að ég þykist glöggt sjá hvað verður um þá hugmynd að byggja þessa rannsóknastofu norður á Akureyri og gera Akureyri að miðstöð þessarar starfsemi ætli menn að láta eins og tíu ár eða fimmtán líða áður en hugmyndinni verður hreyft að nýju. Á sama tíma verður vonandi auknu fé varið til þessarar starfsemi og hún hleður utan á sig hvar sem hún verður ástunduð. Þá þykist ég glöggt sjá að ekki þýði að koma á hv. Alþingi og gera þá tillögu um að flytja þessa tegund starfsemi norður yfir heiðar. Þá verður við ýmiss konar erfiðleika að etja í því sambandi sem ekki eru fyrir hendi ef menn grípa tækifærin þegar þau gefast, þegar þarf að byggja upp nýja tegund starfsemi sem hvergi er fyrir. Menn reka sig á margháttuð vandamál, m.a. mannlegs eðlis, ef taka á upp starfsemi, sem þegar er komin á fót á einum stað, og flytja hana annað. Þess vegna held ég að það sé þeim mun mikilvægara að menn láti ekki lönd og leið þau tækifæri sem enn gefast til að byggja upp nýja starfsemi sem á að fara af stað úti á landi, ef menn á annað borð meina eitthvað með tali sínu um jafnvægi í byggð landsins og flutningi á opinberum stofnunum út um land. Það er margfalt auðveldara viðfangs að byggja upp nýja starfsemi en flytja aðra sem þegar er komin á fót. Á það vil ég leggja ríka áherslu í þessu sambandi.

Þar með er ég ekki að segja að ekki skuli stutt vel við bakið á þeim stofnunum og þeim mönnum sem nú eru að sinna þessu verkefni. Ég hef þegar tekið það fram og ég dáist að framtaki þeirra. En ég vek aftur athygli á því að það sem hingað til hefur verið gert er fyrst og fremst í formi kannana og athugana og sú starfsemi er dreifð um ýmsar stofnanir og vegalengdir í Reykjavík eru orðnar býsna miklar. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði um nauðsyn þess að menn starfi saman og hafi náinn samgang í slíkum verkum. Einmitt þess vegna tel ég að staður eins og Akureyri, sem hefur að mínu mati allt sem til þarf upp á að bjóða, hafi einnig mikla kosti í þessu sambandi, m.a. vegna þess að þar er samfélag af hóflegri stærð sem gefur færi á nánu samstarfi slíkra rannsóknastofnana, menntastofnana og yfirleitt allra sem þessum málum tengjast.

Ég verð að vekja athygli hv. þm. Guðmundar Einarssonar á því að það eru einnig til bækur norðanlands og það eru einnig til rannsóknastofur norðanlands. Og í bæjarfélagi eins og Akureyri, sem á sér mikla iðnaðarhefð og hvar er að finna t.a.m. iðnrekstur Sambands ísl. samvinnufélaga, einhvern hinn stærsta af þeim toga á landinu, öflugan matvælaiðnað, eru auðvitað fyrir hendi þekking, rannsóknaaðstaða og bækur sem hægt er að nýta í þessu skyni. Það er einnig til húsnæði á Akureyri. Þar er laust íbúðarhúsnæði á jafnvel betri kjörum en bjóðast í Reykjavík. Ég gæti lengi talið það fram sem Akureyri sem slík hefur upp á að bjóða í þessum efnum. Ég tel því ekki ástæðu til þess að gefast upp að órannsökuðu máli fyrir þeim erfiðleikum sem hugsanlega eru á því að hleypa þessari starfsemi af stað norðan heiða. Ég bið hv. þm., hvort sem þeir eru af landsbyggðinni komnir eða úr Reykjavík, að athuga að ef við viljum vinna að jafnvægi í byggð landsins er mikilvægt að hvert slíkt tækifæri, sem kemur upp í hendurnar á okkur til að hleypa af stokkunum starfsemi sem á að fara af stað einhvers staðar á landinu, verði ekki látið ónotað því nægir eru erfiðleikarnir á því samt að finna þau tækifæri sem upp á þetta bjóða. Og ég minni aftur á þá erfiðleika sem því eru samfara að ætla sér að flytja starfsemi sem þegar er fyrir hendi og þegar er búin að festa rætur, sem þm. hafa hér rætt um, í einhverju ákveðnu byggðarlagi.

Ég er að leggja til að þessi starfsemi verði frá upphafi — þegar henni verður hleypt af stað með skipulegum hætti sem vonandi verður á næstu árum — sett niður á Akureyri og hún fái frá upphafi að festa sínar rætur þar. Ég geri mér grein fyrir því að þetta verk kann að taka nokkurn tíma, ég er ekki hér að flytja um það tillögu að þetta verði hafið á morgun, en ég tel þó nauðsynlegt, m.a. vegna þess mikilvægis sem menn telja að þessi atvinnustarfsemi geti skipað í framtíðinni, verði rétt á málum haldið, að ekki verði eytt meiri tíma til einskis og málin þegar í stað könnuð.

Herra forseti. Þetta mál fór hér í gegnum eina umr. á hv. Alþingi í hv. Nd. Alþingis á síðasta þingi og var sent út af hv. iðnn. til umsagnar. Ég vænti þess að eitthvað af þeim umsögnum hafi þegar borist n. Hún mun þá að sjálfsögðu skoða þær og jafnvel óska annarra ef hún telur þess með þurfa. En ég vona að hún taki þetta mál til jákvæðrar meðhöndlunar og það sem fyrst.