20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Ég mun hér fara yfir nál. meiri hl. iðnn. um frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Eins og fram hefur komið vil ég þó geta þess í upphafi að nefndin varð síður en svo einhuga um afgreiðslu þessa máls og ég geri ekki ráð fyrir öðru en því að fulltrúar minni hluta álitanna muni hér á eftir gera grein fyrir sínum skoðunum í þessu máli.

Frv. þetta fjallar um staðfestingu á viðaukasamningi við gildandi aðalsamning milli ríkisstj. og Alusuisse um álbræðslu í Straumsvík um breytingar á rafmagnssamningi vegna álbræðslunnar og sáttargerðarsamningi milli ríkisstj. og Alusuisse í tilefni af þeim ágreiningi sem staðið hefur um nokkurt skeið varðandi framleiðslugjald ÍSALs.

Samningar þessir eru ávöxtur af þeim samningaviðræðum sem átt hafa sér stað milli aðilanna síðan á fyrra ári á grundvelli bráðabirgðasamnings ríkisstj. og Alusuisse frá 23. sept. 1983 þar sem ákveðið var að leita lausnar á yfirstandandi deilu um framleiðslugjald ÍSALs og taka upp viðræður um endurskoðun á orkuverði og öðrum tilteknum málefnum varðandi framtíðarstarfsemi álbræðslunnar. Fela samningarnir í sér þær niðurstöður sem náðst hafa í viðræðunum til þessa, þ.e. endanlega lausn á deilum vegna liðins tíma og endurskoðun á orkuverði og öðrum skilmálum rafmagnssamningsins fyrir núverandi álbræðslu.

Viðræður um önnur málefni skv. bráðabirgðasamningnum munu hins vegar halda áfram á næstu mánuðum, þ.e. um endurskoðun á ákvæðum aðalsamnings um skattkerfi fyrir núverandi álbræðslu, um hugsanlega stækkun álbræðslunnar í samvinnu við þriðja aðila og um möguleika á því að íslenska ríkið gerist hluthafi í ÍSAL. Þessi fyrirætlun er staðfest í samkomulagsbréfi milli ríkisstj og Alusuisse frá 5. nóv. 1984.

Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar á nokkrum fundum og m.a. rætt við formann og aðra nefndarmenn samninganefndar um stóriðju sem iðnrh. skipaði 14. júní 1983 til að annast viðræðurnar við Alusuisse, svo og ritara nefndarinnar og lögfræðilegan ráðunaut. Einnig hefur hún rætt við forstjóra Landsvirkjunar og nokkra starfsmenn og stjórnarmenn fyrirtækisins. Sömuleiðis hefur nefndin rætt við ýmsa sérfræðinga, er önnuðust samskipti við Alusuisse í tíð fyrrv. iðnrh. á árunum 1980–1983. Jafnframt hefur nefndin rætt við lögmenn ríkisstj. er önnuðust málflutning fyrir dómnefndum í Reykjavík og New York skv. bráðabirgðasamningnum.

Meginatriði þessara samninga eru þríþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir sátt milli ríkisstj. og Alusuisse um öll deilumál vegna liðins tíma er taki gildi sem dómsátt fyrir ofangreindum dómnefndum ef frv. þetta verður að lögum. Þessi sátt felur í sér eina heildarlausn allra mála án þess að reynt sé að gera þau upp í einstökum atriðum eða fá annan aðilann til að viðurkenna röksemdir hins. Það er að mörgu leyti eðlilegur grundvöllur að sátt af þessu tagi og einkum með tilliti til þess að megintilgangur sáttargerðarinnar er að gera aðilum kleift að ganga til samninga um skipan mikilvægra framtíðarmálefna sín í milli án þess að karp um liðinn tíma sé því til hindrunar.

Aðalefni sáttarinnar er það að ríkisstj. leysir ÍSAL og Alusuisse undan framleiðslugjaldskröfum og öðrum kröfum vegna liðins tíma, en Alusuisse samþykkir að ÍSAL greiði ríkisstj. 3 millj. dollara í sáttafé. Lögmenn í dómnefndarmálunum og lögfræðingur samninganefndar hafa því orðið sammála um að fjárhæð þessi megi teljast viðunandi miðað við stöðu þeirra mála og má telja ljóst að niðurstaðan hefði getað orðið lægri allt eins og hærri — þá vikið að fjárhæðum — ef málin hefðu verið rekin til enda. Greiðslan fer fram með lækkun á skattinneign ÍSALs sem félagið á skv. samningum frá tímabilinu fyrir 1. okt. 1975 og er það að flestu leyti eðlileg tilhögun.

Í öðru lagi er samið um nokkrar breytingar á aðalsamningi um álbræðsluna og breytingu á aðstoðarsamningi milli ÍSALs og Alusuisse. Varða sumar breytingarnar framleiðslugjald ÍSALs og eru ætlaðar til skýringar varðandi sum þeirra atriða sem orðið hafa aðilum að deiluefni, án þess að afstaða sé tekin til þeirra aftur í tímann. M.a. er nú kveðið svo á að endurskoðun á reikningum ÍSALs skuli fara fram árlega þannig að ekki séu tvímæli um stöðu framleiðslugjaldsins og teljum við nefndarmenn að það sé rétt spor miðað við óbreytta tilhögun gjaldsins. Annars ber að skoða allar þessar breytingar í ljósi þess að aðilar munu halda áfram viðræðum um endurskoðun reglna um framleiðslugjald ÍSALs þar sem skattamál álbræðslunnar verða tekin fyrir á breiðum grundvelli og geta niðurstöður þeirra viðræðna leitt til þess að breytingarnar verði úreltar að einhverju leyti. M.a. verður það til umræðu hvort taka skuli upp breyttar bókhaldsreglur og breyttar reglur um mat á viðskiptum milli Alusuisse og ÍSALs ásamt því meginatriði hvort ástæða sé til þess að taka upp veltuskatt á fyrirtækið í stað skatts sem byggður er að hluta á nettótekjum.

Aðrar breytingar í aðalsamningi varða hlutabréf í ÍSAI. þannig að Alusuisse verður nú heimili að selja hlutabréf í ÍSAL til dótturfélaga, sem það tekur ábyrgð á, og til þriðja aðila með samþykki ríkisstj., allt að 50% í stað 49% áður. Þetta síðast talda getur orðið til að greiða fyrir stækkun bræðslunnar, en heimildin tekur þó aðeins til félagsins eins og það er nú og felur ekki í sér neina sjálfstæða heimild til stækkunar. Sú heimild verður til umræðu á komandi mánuðum og er háð samþykki Alþingis.

Í þriðja lagi hefur verið samið um gagngera endurskoðun á ákvæðum rafmagnssamnings um orkuverð til ÍSALs, þannig að þau ákvæði mega heita ný frá grunni. Skv. þeim verður orkuverð á bilinu 12.5 — 18.5 mill á kwst., en það felur í sér tvöföldun til þreföldun á því verði sem nú mundi gilda skv. fyrri samningi. Þetta verð breytist innan þessara marka í hlutfalli við álverð skv. fjórþættri viðmiðun þar sem tillit er tekið bæði til verðskráningar á opnum markaði og framleiðendaverðs til óháðra aðila. Þessu verði er ætlað að gilda í 20 ár með fyrirvara um endurskoðun á 5 ára fresti. Það endurskoðunarákvæði er byggt á tilliti til breyttra aðstæðna og er þannig ætlað að tryggja að unnt verði að koma við nauðsynlegri breytingu orkuverðsins með tilteknu millibili á tiltölulega breiðum grundvelli.

Önnur aðferð við ákvörðun orkuverðsins hefði svo sem getað verið sú að tiltaka ákveðið verð með ákveðnum verðbreytingarreglum til langs tíma. Það má telja líklegt að með þeirri aðferð hefði orkuverðinu verið mun þrengri stakkur skorinn en með ofangreindri tilhögun. Það er mjög erfitt að setja verðtryggingarreglur til langs tíma, hvort heldur er á grundvelli álverðs, kostnaðarbreytinga eða almennra verðlagsbreytinga, án þess að þrengja í verulegum efnum það svið viðmiðunaratriða sem unnt er að taka tillit til. Hið umsamda endurskoðunarákvæði er ekki takmarkað á þennan hátt og enda þótt eflaust megi deila um orðalag þess verður að telja ljóst að það muni í reynd tryggja nauðsynlega endurskoðun álverðsins með reglulegu millibili. Samningurinn um hið nýja orkuverð er byggður á ítarlegum samanburði á orkuverði til stóriðju og samkeppnisstöðu álvera í Evrópu og Ameríku og stenst fullkomlega allan eðlilegan samjöfnuð í þeim efnum. Hin mikla hækkun á verðinu er þeim mun athyglisverðari þegar þess er gætt að hér er um að ræða orkuverð til starfandi álvers en ekki til nýrrar verksmiðju sem byggir á nýjustu tækni annars vegar og orku frá nýjum virkjunum hins vegar.

Það er ljóst af framansögðu og fjölmörgum gögnum málsins að samningarnir eru íslensku þjóðarbúi til verulegra hagsbóta. Með tilliti til þess orkar ekki tvímælis að rétt er að staðfesta viðaukasamningana sem hér er um að ræða. Þess vegna leggur meiri hl. hv. iðnn. til að frv. þetta verði samþykkt.

Undir þetta nál. rita Þorv. Garðar Kristjánsson, sá sem hér stendur, Davíð Aðalsteinsson, Björn Dagbjartsson og Egill Jónsson.

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni þakka fyrir gott samstarf í iðnn. Það var margsinnis að því vikið við upphaf umr. um þetta mál að enda þótt hvíldi nokkur pressa á þinginu fengi það svo þinglega meðferð sem tök væru á. Ég held að segja megi að þar hafi allt staðist. Ég skal játa að ég hefði fremur kosið, sem formaður nefndarinnar nú, að þetta mál hefði komið til umr. s.l. mánudag, en svo gat ekki orðið af ýmsum ástæðum. Ég ítreka þakklæti mitt til annarra nefndarmanna fyrir gott samstarf í nefndinni.