20.11.1984
Efri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Ég stíg hér í stólinn til að ítreka þá skoðun Samtaka um kvennalista að það frv. sem hér er til 2. umr. beri að fella. Þetta er vondur samningur og Alþingi til lítils sóma að staðfesta hann.

Skv. því áliti meiri hl. iðnn. sem hér liggur fyrir er meiningin að staðfesta samninginn þrátt fyrir öll þau rök sem komið hafa fram gegn honum. Það skin út úr nál.hv. nm. meiri hl. eru ekki meira en svo sannfærðir um ágæti verka hæstv. iðnrh. og samningamanna hans. Varfærnin í orðalagi drýpur af hverri línu.

Þau rök sem mæla gegn samningnum eru einkum eftirfarandi:

1. Þessi samningur gerir ráð fyrir nokkurri hækkun orkuverðs til ÍSALs, þó það nú væri, en mun þó ekki ná framleiðslukostnaði á næstu árum, enda allar líkur til þess að raunverð muni heldur fara lækkandi þegar líður á samningstímann. Almenningur á Íslandi mun því halda áfram að greiða niður orkuna til álversins. Hvort sem við göngum út frá því að framleiðslukostnaður á hverri kwst. sé 16 eða 18.9 mill verður meðalverðið á næstu 5 árum skv. upplýsingum Landsvirkjunar langt undir kostnaðarverði eða 13.7 mill. Þá er orkuverðið tengt heimsmarkaðsverði á áli, sem getur þýtt verulegar sveiflur, sem er nú ekki það sem hið viðkvæma íslenska hagkerfi þarf mest á að halda. Nóg er af sveiflunum samt. Þá verður tenging við heimsmarkaðsverð að teljast mjög slæmt fordæmi sé litið til annarra áforma um samstarf við erlend stórfyrirtæki. Það er þó skiljanlegt að þetta ákvæði hefur verið Alusuisse mikið hjartans mál því fátt kemur þeim betur þegar illa árar í áliðnaði.

2. Endurskoðunarákvæðið, sem er að finna í samningnum, segir að báðir aðilar geti farið fram á endurskoðun samningsins ef orðið hafi teljandi eða ófyrirsjáanleg breyting til hins verra á aðstæðum. Hvað þýðir þetta í raun? Hvað eru ófyrirsjáanlegar breytingar á aðstæðum? Varla verðbólga eða sveiflur á gengi dollars, launahækkanir eða hækkun á framleiðslukostnaði orku eða hvað? Þýðir þetta ekki einfaldlega að sami skollaleikurinn hefst upp á nýtt með endalausum eltingarleik við auðhringinn og klækibrögð hans? Væri ekki betra að hafa ekkert endurskoðunarákvæði fremur en þetta sem bæði er háð tíma og fyrirvörum?

Það er alkunna að auðhringasamsteypur þykja ekkert lamb að leika sér við, hvorki í viðskiptum né pólitík. Þær svífast einskis, ef þeim býður svo við að horfa, og steypa jafnvel heilum ríkisstjórnum. Eru samskipti ríkja Mið- og Suður-Ameríku margfræg dæmi um það.

Þá má minna á hvert mútuhneykslið á fætur öðru sem náð hafa alla leið inn í konungsfjölskyldur Evrópu og hinn ljúfa Bilderbergklúbb. Margur þm. og ráðh. hefur orðið að segja af sér vegna mútuþægni. En þegar kemur að samskiptum íslenska ríkisins við Alusuisse er eins og álhringurinn hafi frá upphafi verið álitinn eins konar góðgerðastofnun á við barnahjálp Sameinuðu þjóðanna eða eitthvað álíka, enda hafa samningamenn ríkisins verið sem leir í höndum álrisanna.

Það vakna margar spurningar við lestur sögu álmálsins. Hvað er það sem veldur því að hvað eftir annað semja samningamenn íslenska ríkisins af sér? Hverra hagsmuna er verið að gæta?

3. Í samningnum er ákvæði um að endurskoða megi reikninga ÍSALs árlega. En drottinn minn dýri. Eftir allt sem á undan er gengið, endurskoðun Coopers & Lybrand á margra ára rekstri og svo er bara gefin syndakvittun. Svona ákvæði eru orðin tóm þegar tekið er tillit til þess hvernig Alusuisse tekst alltaf að draga málin á langinn og koma þeim út úr heiminum.

4. Það verður ekki betur séð en að samningastaða Íslendinga hafi verið mjóg góð þegar hinn kokhrausti iðnrh. tók við málinu og lýsti því yfir að hann mundi semja með hraði. Það tók nú tímann sinn og árangurinn liggur hér á borðum. Það er undarlegt, miðað við alla þá vinnu og upplýsingaöflun um viðskiptahætti Alusuisse, þar sem búið er að sýna fram á margháttuð undanbrögð fyrirtækisins, að íslenska ríkisstjórnin skuli spila svo illilega af sér að láta málin ekki fara í dóm. Í stað þess var gerð sáttargerð og Alusuisse selt aflátsbréf fyrir litlar 3 millj. dollara. Hefði það eflaust þótt góð sala í páfagarði fyrr á öldum. Með þessum gerningi hæstv. iðnrh. Sverris Hermannssonar hefur íslenska ríkisstjórnin hneigt sig í duftið frammi fyrir álhringnum.

Ég er illa svikin ef ekki verður kátt í höllinni hjá Alusuisse ef ljóst verður að hið alræmda hugarfar fer með sigur af hólmi í þingsölum.

5. Það sem er hvað verst í þessu máli öllu er að fyrirhuguð er stækkun álversins. Það þýðir ósköp einfaldlega að áfram verður haldið á sömu braut. Nú verður að hraða virkjun Blöndu, taka ný lán og auka þar með enn skuldahalann sem íslenska þjóðin dregur á eftir sér vegna stóriðjuóranna. Ótímabærar virkjanir og orkusala undir kostnaðarverði er þegar orðin okkur dýrkeypt. Er ekki komið nóg af svo góðu?

Það verður Blanda sem á að veita álverinu þau 80 megawött sem þarf til að auka framleiðsluna um 40 þús. tonn. Nú er talið að framleiðslukostnaður á hverja kwst. verði 18–20 mill við stöðvarvegg, en ég minni á að meðalverðið sem Alusuisse á að greiða fyrir orkuna sem það þegar fær er talið munu verða 13.7 mill. Að fenginni reynslu tel ég afar ólíklegt að takast muni að semja við auðhringinn um mun hærra orkuverð vegna stækkunarinnar, ekki síst þegar hann getur veifað þessum frábæra samningi og beitt því góða lagi sem hann hefur á íslenskum samningamönnum.

Fleira mætti telja, sem er að finna í þessum samningi, en verður ekki gert að svo stöddu.

Herra forseti. Ég fæ ekki betur séð en að Alusuisse hafi farið með algeran sigur af hólmi í samningum við íslensku ríkisstjórnina. Það er hvítþvegið af öllum fyrri gerðum. Það greiðir orkuverð sem er mun lægra en það þarf að sæta annars staðar þar sem það framleiðir sitt ál. Íslenskir neytendur halda áfram að borga með Alusuisse.

Ég dreg ekki dul á þá skoðun mína að allt þetta mál sýni í hnotskurn hvernig atvinnustefna sú sem Sjálfstfl. hefur verið hvað ákafastur talsmaður fyrir, stóriðjustefnan, hafi beðið algert skipbrot. Frá því á viðreisnarárunum hefur orðið að súpa seyðið af því glapræði að hleypa erlendum auðhring inn í landið svo að ekki sé minnst á þá sem á eftir komu. Afleiðingin er gífurleg skuldasöfnun erlendis og sú virkjanakeðja sem þjónar Alusuisse fyrst og fremst: Búrfell og Sigalda, sem selja orkuna á útsöluprís, og Blanda er næst á dagskrá. Stóriðjustefnan hefur falið í sér að Íslendingar hafa verið að reyna að troða sér inn á yfirfulla markaði og freista framleiðenda með sölu á ódýrri orku með alkunnum afleiðingum. Það sem skiptir þó meira máli er að í þeirri stóriðjustefnu, sem einkennt hefur norðurhluta jarðar í um það bil 200 ár eða svo, felst eyðing á auðlindum jarðarinnar, sóun og sú mikla mengun sem nú drepur lungu jarðarinnar, skógana, og eitrar vötn og höf. Ég er sannfærð um að á næstu áratugum á mannkynið um það eitt að velja að draga stórlega úr allri stóriðjuframleiðslu og leita annarra lausna sem ógna ekki lífinu á jörðinni. Því er áframhaldandi stóriðja gamaldags og dauðadæmd hvað sem dauðastríðið kann að vera langt.

Virðulegi forseti. Þessi samningur, sem hér liggur fyrir til staðfestingar eða synjunar, er enn einn kaflinn í sorgarsögu stóriðjunnar á Íslandi. Hæstv. iðnrh., ekki meir, ekki meir.

Samtök um kvennalista hafna þessum samningi og ég mun greiða atkv. gegn honum. Ég á þá ósk heitasta til handa íslenskum stjórnvöldum að þau læri af endalausum mistökum og víxlsporum í dansinum við Alusuisse og láti erlendan auðhring lönd og leið hér eftir.

Við eigum sjálf að byggja upp atvinnulífið í landinu atvinnulíf sem tekur mið af framtíðinni og er öllu lífi þóknanlegt. Til þess eigum við næga orku, vit og þekkingu.