26.11.1984
Neðri deild: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

86. mál, áfengislög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að draga það að lýsa afstöðu minni til þess máls sem hér liggur fyrir í fáeinum orðum og eins og það er lagt fyrir. Það segir í fylgigögnum með þessu frv., gott ef ekki í sjálfri grg., að tilgangur flm. með frv. þessu sé m.a. að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja. Ég hafna þessari röksemdarfærslu flm. Því að ég held að reynsla annarra þjóða hafi því miður sýnt hið gagnstæða. Ég hef enga ástæðu til að ætla að það yrði öðruvísi hér. Áfengt öl og neysla þess, ef hún yrði lögleidd með þeim hætti sem hér er gerð till. um, mundi því bætast við þá áfengisneyslu sem fyrir er. Reyndar hefur neysla sterkra drykkja vaxið hlutfallslega meira hjá þeim þjóðum sem hafa fyrir áfengt öl eða hafa lögleitt það á undanförnum árum eða áratugum. Því er ekki spurning um það eitt hvort neysla áfengra drykkja minnkar eða stendur í stað, heldur kannske frekar um hvort hún kæmi til með að vaxa hlutfallslega meira en hún hefði annars gert, ef ekki væri áfengt öl lögleitt í landinu.

Annað mun óhjákvæmilega fylgja neyslu áfengs öls hér og aukinni áfengisneyslu almennt. Það er aukinn kostnaður í heilbrigðis- og félagsþjónustunni. Í hópi þess fólks, sem glímir við þau vandamál sem af ofnotkun áfengis og annarra vímuefna leiðir, hef ég varla heyrt nokkurn mann efast um að í framhaldi af lögleiðingu áfengs öls kæmi aukinn þrýstingur og aukinn kostnaður í glímunni við áfengissýkina og þykir þó mörgum nógu dýrt fyrir að halda uppi þeirri þjónustu sem þar er rekin í dag. Ég vil að menn hugleiði einnig að þá þarf að sjá fyrir því fjármagni og þeirri aðstöðu sem þarf til að bregðast við á þessu sviði. Það sé ég hins vegar ekki að hafi haldið vöku fyrir flm. þessa frv. og hvergi er á það minnst hér.

Ég er einnig mótfallinn því, herra forseti, án þess að ég sé þar með endilega að lýsa afstöðu minni til neyslu á áfengu öli, að menn flytji þetta mál með þessum hætti, án þess að á nokkurn hátt séu gerðar tillögur um aðrar breytingar á áfengislöggjöfinni. Ég hefði út af fyrir sig verið tilbúinn að ræða það og skoða hvort heppilegt væri að breyta áfengislöggjöfinni á þann hátt að hér yrði leyfð neysla, sala og framleiðsla á áfengu öli ef menn hefðu þá haft tillögur um það að öðru leyti hvernig mætti tryggja að áfengisneyslan í heild sinni ykist ekki. Það kann vel að vera að á því yrðu vissir möguleikar að breyta þannig til, t.d. þá með öðrum takmörkunum sem gengju í gildi og drægju að sama skapi úr neyslu sterkra drykkja. Ég er þeirrar skoðunar að ölneysla sem slík, ef um áfengisneyslu er að ræða á annað borð, geti verið betri en neysla t.d. sterkra brenndra drykkja. Ef við ættum þannig um það að velja að breyta drykkjuvenjunum og færa þannig til neysluna held ég að vel gæti komið til greina, og ég mundi skoða hug minn um það, að styðja slíkar breytingar. En eins og þetta mál er flutt hér mun ég ekki treysta mér til að veita því brautargengi. Það vil ég að liggi ljóst fyrir, herra forseti.

Ég lít á áfengt öl, eins og reyndar allt annað áfengi, sem vímugjafa. Þess vegna furðar mig sá málflutningur ýmissa manna og kvenna að tala um það sem mannréttindi að eiga óheftan aðgang að vímugjöfum. Ég held að menn verði að skilja þarna á milli. Mér vitanlega hefur enginn látið sér detta í hug að við hefðum hér lögleidda neyslu á ýmsum öðrum vímugjöfum sem taldir eru mun hættulegri. Ég vek athygli á og bendi á að þar er um mjög erfitt skilgreiningaratriði að ræða, að flokka vímuefni sem slík. Ég held að öll vímuefnaneysla sé varasöm og kannske jafnhættuleg þegar hún gengur úr hófi og verður að sjúkdómi.

Það mætti halda hér langa ræðu um líkleg áhrif þess að lögleiða öl á t.d. heimilin í landinu, á vinnustaðina í landinu, á umferðina í landinu. Ég ætla ekki að gera það hér, en ég vildi ekki að þetta mál færi hér í gegnum þessa umr. án þess að ljóst lægi fyrir að ég mun ekki, eins og það liggur hér fyrir, veita því stuðning minn.