28.11.1984
Neðri deild: 16. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv., Ellert B. Schram, flutti ræðu áðan og sagði kost og löst á þessum samningi. Hann sakaði okkur hv. þm. Ingvar Gíslason um það sem hann kallaði tvískinnung og lágkúru. Heyr á endemi! Hvað er þessi hv. þm. að leika hér á Alþingi? Gætir kannske ekki tvískinnungs í afstöðu hans til ríkisstj. og flokks hans? Gætir kannske ekki lágkúru þegar hann er að reyna að verða stikkfrí í sínum flokki? Þetta er ruglkennd afstaða hjá honum og alls ekki laus við hvorki tvískinnung né lágkúru.

Það er réttmætt að segja kost og löst á hverju máli, eins og hann gerði á þessum samningi sem hér er til umr., og ekki nema eðlilegt að menn reyni að gera sér grein fyrir því, þegar þeir þurfa að taka afstöðu til mála, hverjir eru plúsarnir og hverjir eru mínusarnir. Þessi samningur er ekki fullkominn að mínum dómi. Ef ég hefði fengið að búa hann til sjálfur hefði ég haft hann í veigamiklum atriðum öðru vísi en hann liggur fyrir eftir töluvert langt þref. Það er komið að því að við verðum að taka afstöðu til hans. Í honum eru það mikilvæg atriði, sem eru það mikilvægar úrbætur frá gildandi samningi, að ég tel einboðið að fylgja þessum samningi.

Hv. 5. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, ræddi um starfshætti iðnn. og talaði um dagsektir Hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir taldi að á okkur hefði verið gjaldmælir hér í Nd. eða jafnvel í n. Það er rétt að hæstv. iðnrh. fór með tölur þegar hann var að leggja málið fyrir í upphafi. Ég tók ekki svo mikið mark á því og ég skil ekkert í öðrum hv. þm. ef þeir hafa eitthvað kippt sér upp við það tal.

Sem formaður í iðnn. tel ég að ég hafi ekki flýtt störfum þar með óeðlilegum hætti (Gripið fram í.) Já, mér er ljúft að bera það að hæstv. iðnrh. var alls ekki að reka neitt á eftir mér. Ég sat að vísu ekki alla fundi nefndarinnar þar sem ég var í erindum Alþingis erlendis hluta af þeim tíma sem nefndin var að störfum, en ég var bæði viðlátinn þegar n. hóf að vinna að þessu máli og ég stjórnaði síðustu fundunum þar sem málið var til umfjöllunar.

Ég þráspurði eftir því áður en málið var afgreitt úr nefnd hvort menn teldu að búið væri að kalla þá sem þyrfti að kalla fyrir nefndina, hvort menn væru tilbúnir að taka afstöðu. Svo reyndist vera. Að vísu gat hv. þm. Hjörleifur Guttormsson um það að hann hefði ekki fengið minnispunkta frá samninganefndinni, sem hann hefði gengið mjög snarplega eftir hjá ráðh. Hann óskaði eftir því að ráðh. kæmi á fund nefndarinnar, sem hann gerði að sjálfsögðu, og ætti við okkur orðastað. Þetta gekk eftir og ég vissi ekki betur en menn teldu sig hafa glöggvað sig þokkalega á þessu máli áður en það var afgreitt úr nefnd.

Mér þykir ákaflega hart að búa undir öðru. Ég reyni að vinna þannig sem formaður nefndar að ég sé ekki að ýta málum fram með neinum óeðlilegum hraða. Ég vil að menn grundi mál eftir því sem þeir telja sig þurfa, fái þær upplýsingar sem þeir þurfa í þeim þingnefndum sem ég stjórna. Ég geng hins vegar eftir því að menn reyni að vinna og mæta til funda og standa skipulega að verki. Það eru óþingleg vinnubrögð að vera að hafa mjög mikla fljótaskrift á málum og ekki við hæfi að afgreiða stórmál með þeim hætti að þau séu ekki athuguð sæmilega í nefndum og ég mun reyna sem nefndarformaður, í góðri samvinnu ævinlega við alla nefndarmenn sem ég hef samskipti við, ekki síður stjórnarandstæðinga, að gefa þeim færi á að koma skoðunum sínum á framfæri í nefndum og fá þær upplýsingar sem þeir óska eftir.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lét að því liggja að það væri einhver beygur í framsókn og hann þóttist sjá einhver merki þess í nál., sem 1. minni hl. stendur að, að afstaða okkar hv. þm. Ingvars Gíslasonar væri að breytast. Ég vil taka það fram að mín afstaða hefur ekki breyst til stóriðjumála eða til álversins í Straumsvík og hún er ekkert ný. Ég vitna til umr. sem fóru fram um endurskoðun á samningnum í febr. 1976, en þar flutti ég ræðu sem menn geta lesið og kynnst afstöðu minni til þeirra breytinga sem þá var verið að gera. Því miður kom í ljós að það sem ég bað menn að varast þar reyndist á rökum reist og þær hrakspár, sem ég setti þar fram, eru allar komnar fram eða hér um bil allar. Afstaða hv. 1. þm. Norðurl. e. Ingvars Gíslasonar er ekki heldur ný og ég ætla hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni til fróðleiks að lesa, með leyfi forseta, ofurlitlar glefsur úr nál. á þskj. 501 frá 2. minni hl. álbræðslunefndar frá þinginu 1965–66, en þennan minni hl. skipuðu hv. þm. Ingvar Gíslason, sem var frsm., og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson. Nál. er undirskrifað á Alþingi 15. apríl 1966. Ég ætla að lesa nokkrar glefsur úr þessu þskj. Þetta er vandað nál. og ítarlegt og þeir benda þá þegar á þau atriði sem hafa reynst okkur hvað verst.

Hér hefur komið fram í þessum umr. að samningurinn frá 1966 hafi reynst traustur. Ég er algerlega ósammála því. Ég held að skoðun framsóknarmanna á þeim samningi, sem þeir settu fram í ítarlegu máli í umr. og í nál. og í afstöðu til samningsins 1966, hafi verið hin rétta. Ég vitna hér til umfjöllunar í nál. um réttarfarsákvæði og vitna til nál., með leyfi forseta:

„Samkvæmt 46. og 47. gr. samningsins er ákveðin sérstök og óvenjuleg leið til að fá skorið úr deilumálum sem rísa kunna út af stóriðjusamningunum eða í sambandi við þá. Gilda þær sérstöku reglur um ágreiningsmál milli svissneska álfélagsins, Íslenska álfélagsins og minni hluta hluthafa annars vegar og ríkisstj., Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar hins vegar. Gildir einu hvort ágreiningur er út af aðalsamningnum, orkusölusamningi, hafnar- og lóðasamningi eða aðstoðarsamningi.

Þessi ágreiningsmál eru tekin undan lögsögu íslenskra dómsmála, nema samkomulag verði um það milli Alusuisse og ríkisstj. að vísa slíkri deilu til íslenskra dómstóla eða íslensks gerðardóms. Deilumál þessi öll, sem tekin eru undan lögsögu íslenskra dómstóla, eiga að fara fyrir eins konar alþjóðlegan gerðardóm, sem sitja skal í útlöndum og skipaður skal fulltrúum frá aðilum, en oddamaður tilnefndur af forseta Alþjóðadómstólsins.“

Þetta var um réttarfarsákvæðin. Ætli þetta hafi ekki reynst réttmæt gagnrýni á sínum tíma og enn í fullu gildi?

Um endurskoðun á raforkuverði segir svo í téðu nál.: „Endurskoðun sú, sem skv. þessum samningi á að fara fram árið 1984, tekur einungis til þess þáttar orkuverðsins sem stafar af viðhaldskostnaði og gæslu sem er aðeins sáralítill þáttur þar sem fjármagnskostnaðurinn er meginþáttur verðsins, en þær endurskoðanir sem fram eiga að fara árið 1994 og 2004 eiga að fara fram eftir reglum sem eru ákveðnar í samningnum og okkur eru mjög óhagstæðar, ekki síst vegna þess að þær gefa álbræðslunni kost á tveimur ólíkum viðmiðunum.“

Síðar segir: „En þá verðum við farnir að virkja mun dýrari orku fyrir okkur sjálfa.“

Ætli þetta hafi nú ekki komið á daginn?

Í niðurlagi þessa ítarlega nál. ræða þeir um mengunarmál:

„Við undirritaðir nefndarmenn teljum að ekki séu öll tvímæli tekin af um hættuna af eiturgastegundum frá álbræðslunni og álítum að með því að undanþiggja álbræðsluna skyldunni til þess að búa verksmiðjuna gaseyðingartækjum sé lagt inn á varhugaverða braut.

Eins og allt þetta mál er vaxið teljum við rétt að frv. sé vísað frá.“

Þetta var nú afstaða hv. þm. Ingvars Gíslasonar 1966. (Gripið fram í: Hún er orðin breytt.) Og ég finn ekki betur en að hún sé í býsna góðu samræmi við það nál. sem ég mælti fyrir hér í dag.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræddi hér um vesaldóm og framsóknarmennsku okkar hv. þm. Ingvars Gíslasonar. Mér er engin nýlunda að hroka hjá Hjörleifi Guttormssyni. Hjörleifur Guttormsson hefur þennan skapgalla, en hv. þm. er ágætur starfsmaður þó að hann sé ekki góður til að semja. Það er vegna þess að hann vill ekki semja, hann vill neyða. en þó er hann aflvana. Það er vondur samsetningur.

Ég studdi hann við upptöku þessa máls og studdi hann lengst af í hans tilraunum sem iðnrh. til þess að ná árangri í þessu máli. En því miður fór hann fljótlega offari í málinu. Málsupptakan var réttmæt. Því miður kom hann ekki í verk að gera þetta nógu snemma. En allt um það. Hann áttaði sig og kom málinu af stað og við það studdi ég hann. En því miður fór hann of geyst. Hann tók of mikið upp í sig og þar með lokaði hann leiðum sem okkur hefðu e.t.v. annars staðið opnar. Og hann réði ekki við sig og klúðraði málinu vitandi vits eða þá af óvitaskap og notaði óskynsamleg fúkyrði. (HG: Óskynsamleg?) Fúkyrði.

Ég er ekki sammála núv. hæstv. iðnrh. um stóriðjumál, en það verður þó að viðurkennast að hann náði árangri. Það má deila um hvort sá árangur er mikill. Það má deila um hvort sá árangur hefði ekki þurft að vera meiri. En það er þó árangur. Þetta er helmingi hærra rafmagnsverð en við bjuggum við í tíð fyrrv. iðnrh. og það er atriði sem ekki ber að vanmeta. Ég hefði getað hugsað mér þennan árangur betri, en þó rétt að nota hann.

Ég var að einu leyti hissa á ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Ég var ekki hissa á því þó að hún væri löng og leiðinleg því að það er ekki nýlunda. Ég var ekki hissa á því þó að hún væri dreissug og flutt af yfirlæti því það er ekki nýlunda. Það sem ég var hissa á var það að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli fara að gerast sérstakur talsmaður fyrir samninginn frá 1966 með þeim breytingum sem gerðar voru á honum 1976 og vill heldur búa enn um sinn, búa enn lengi við þær fráleitu kringumstæður en að ganga í að reyna að leysa málið. Nýr samningur mundi ekki komast á í þessu máli fyrr en eftir langvarandi málaferli og þegar dómur væri genginn væri hugsanlega hægt að taka upp nýja samninga því að auðvitað eru menn ekki að semja meðan þeir eru að fljúgast á.

Ég hefði, eins og ég hef margoft tekið fram, vel getað hugsað mér þennan samning öðruvísi og þetta er ekki sá samningur sem ég gæti frekast óskað mér, en hann er skárri en sá sem við búum við og þess vegna tel ég rétt, eins og ég hef margtekið fram, að samþykkja hann.