29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur nær og fjær. Við Páll Pétursson, 2. þm. Norðurl. v., stöndum sameiginlega að nál. í sambandi við þetta mál. Í þessu nál. kom fram viðhorf okkar til málsins í heild. Þar leggjum við fyrst og fremst til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir, enda er það í samræmi við samþykkt þingflokks Framsfl. um að styðja frv. sem er til bóta miðað við þann óhagstæða samning sem gilt hefur í þessum samskiptum við Alusuisse í 18 ár, og ÍSAL er í Straumsvík og fer ekki þaðan um sinn eins og sá hv. ræðumaður sagði sem hér talaði á undan mér. Hins vegar höfum við Páll Pétursson haft uppi ýmsar almennar athugasemdir um þetta mál í heild og komið fram með fyrirvara um einstök atriði sem tengjast þessu máli.

Því fer víðs fjarri að þessir samningar, sem hér er verið að lögfesta, séu einhlítir og að ekkert sé út á þá að setja. Þaðan af síður eru heildarsamskiptin við Alusuisse frá upphafi vega til þessa dags hafin yfir gagnrýni. Ég tel þvert á móti að 18 ára reynsla hafi sannað það, sem andstæðingar álmálsins frá 1966 óttuðust, að viðskiptin við Alusuisse yrðu áfallasöm og óhagstæð og sífellt þrætuefni, enda frá upphafi ljóst að samningarnir voru Alusuisse um margt afar hagstæðir, ekki hvað síst þau ákvæði sem mestu skipta og fjalla um orkuverð og skatta og meðferð deilumála. Aðalsamningurinn frá 1966 er enn grundvöllur allra samskipta Íslendinga við álhringinn og breytingar á honum liggja síður en svo á lausu, og gildir einu þótt tímarnir hafi breyst, þó að aðstæður hafi breyst eða viðhorf yfirleitt hafi breyst í samskiptum af því tagi sem stofnað var til með álsamningunum fyrir 18 árum. Það er ekkert áhlaupaverk að ætla að „brjóta upp“, eins og menn segja, þennan gamla aðalsamning eða orkusölusamninginn eða hvað annað sem þessu tengist. Því er það, að þótt aðstæður allar og meginforsendur, sem gengið var út frá 1966 um orkuverð til álversins, hafi gerbreyst, þá er ekki þar með sagt að Íslendingar hafi í hendi sér að krefjast breytinga á þeim grundvelli að forsendur og aðstæður hafi breyst í áranna rás.

Þeir sem stóðu að gerð álsamningsins af hálfu Íslendinga árið 1966 voru í þeirri góðu trú að fallvötnin væru að missa gildi sitt sem hagstæð orkulind því að kjarnorkan yrði fljótlega beisluð til rafmagnsframleiðslu í sívaxandi mæli. Þetta hefur alls ekki komið fram, en það hefur hins vegar engu breytt um megingrundvöll álsamninganna þegar á hefur reynt. Aðalsamningurinn er þungur í vöfum og eins óumbreytanlegur að eðli og meginefni hvað sem líður breyttum tímum og breyttum forsendum. Þetta er að vísu hryggilegt en svo er það í reynd. Ég er því þeirrar skoðunar að samningsstaða Íslendinga um hækkað raforkuverð hafi ekki verið góð að undanförnu né aðstaða til þess að koma fram breytingum á öðrum þáttum viðskiptanna við Alusuisse, t.d. hvað varðar skattgjald af álbræðslunni. Þvert á móti tel ég að samningsstaða okkar hafi verið erfið, og þessi erfiða samningsstaða á beinlínis rætur í aðalsamningnum, grundvallarplagginu frá 1966, sem ætlað var og er að gilda hálfan annan mannsaldur eða enn í næstum 30 ár. Og ég bið hv. þm. og aðra, sem á hlýða, að átta sig á því að eðlilegum endurskoðunarákvæðum var aldrei fyrir að fara í aðalsamningnum frá 1966. Þessi samningur er, eins og segir í sálminum, „borg á bjargi traust.“ Honum verður ekki hnikað með auðveldum hætti. Þess vegna sé ég enga ástæðu til að gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í samningaviðræðum við Alusuisse nú síðustu mánuði um raforkuverð, hvað sem öðru líður.

Þá kemur það einnig til, sem ekki hefur bætt samningsaðstöðu Íslendinga, að orkuverð til álbræðslunnar er lækkandi í heiminum og ríkir alger óvissa um hvort eða hvenær það kynni að hækka í framtíðinni. Ástæðan fyrir þessu er augljós: Áliðnaður er í kreppu og er afar óálitlegur atvinnuvegur eins og stendur og framtíð áliðnaðar er reyndar með öllu óviss. Að vísu eru til svokallaðar „spár“ um horfur í áliðnaði, og vissulega lifa ýmsir í voninni um að hagur þessa iðnaðar vænkist eftir svo og svo mörg ár, en allt er þetta óvíst og allt eins miklar líkur til þess að álkreppan sé varanleg og henni ljúki ekki á næstu árum. Íslendingar ættu að fara sér hægt í að treysta slíkum vonarpeningi sem álbræðsla er í atvinnuuppbyggingu í framtíðinni. Í þess stað ber að einbeita framtaki og fjármunum að öðrum og fjölbreyttari atvinnugreinum, taka upp nýja stefnu í iðnvæðingu sem komi í stað stóriðjustefnunnar sem hefur runnið sitt skeið á enda og á sér litla framtíð, síst af öllu á Íslandi.

Miðstjórn Framsfl. hefur fjallað ítarlega um framtíðaruppbyggingu atvinnulífsins og samþykkt framsýna stefnuskrá í atvinnumálum þar sem stóriðjustefnan vegur næsta létt miðað við aðrar iðngreinar og fjölbreyttari atvinnuúrræði í náinni framtíð. Er vafamál að nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur hafi sett sér svo ítarlega og markvissa stefnuskrá í atvinnumálum.

Herra forseti. Ef einhverjum þykir árangur af samningum við Alusuisse lítill í þeim plöggum, sem hér eru til umræðu, þá minni ég enn á að Íslendingar eru heftir af upphaflegum aðalsamningi og að áliðnaður er ekki sérlega eftirsóknarverð atvinnugrein í heiminum um þessar mundir.

Samningsaðstaða Íslendinga er ekki slík að þeir geti krafist hvers sem er og búist við að kröfum þeirra verði fullnægt. Þegar svo stendur á ber því að virða það sem vel er gert. Í því sambandi er rétt að minnast þess, að nú hefur orðið um það samkomulag milli Íslendinga og Alusuisse að tekið verði upp ákvæði um endurskoðun raforkuverðsins á fimm ára fresti. Þetta er nýtt ákvæði og reynist vonandi vel þegar til kastanna kemur. Þess er að vænta að með þessu ákvæði opnist leið til þess að ákveða raforkuverðið með sanngirni á hverjum tíma.

En jafnframt verður að harma það, að enn er margt á huldu varðandi skattamál Alusuisse, en upplýst er að þau mál eru enn á viðræðustigi. Þau eru m.ö.o. ófrágengin.

Hvað varðar deilur ríkisstj. við Alusuisse um skattgreiðslur á árabilinu 1975–1980, þá verður að segjast eins og er að sókn í þeim málum hefur reynst flóknari en í fyrstu var álitið, hvað sem líður réttmæti þeirra krafna sem uppi voru hafðar, sem ég efast ekkert um. Hjörleifur Guttormsson gerði rétt í því að upplýsa með víðtækum athugunum hvernig Alusuisse hagaði innkaupum og verðlagði aðföng fyrir Íslenska álfélagið. Ekki mun ég hafa á Hjörleifi fyrir það sem hann gerði í því máli nú frekar en að ég sæi eitthvað athugavert við kannanir hans á starfsemi Alusuisse meðan við sátum saman í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Á hinn bóginn hefur ekki reynst auðvelt að þoka þessum kröfum fram í völundarhúsi gerðardómskerfisins, sem yfirskyggir allt réttarfar í ágreiningsmálum Íslendinga og Alusuisse og er í rauninni í höndum útlendinga, háð erlendum viðhorfum og lagatúlkun, sem er einn arfurinn af því óheillaplaggi sem aðalsamningurinn er frá 1966.

Ég er eftir atvikum samþykkur því að skattadeilan var að lokum leyst með réttarsátt. Ekki af því að það sé alltaf rétt, sem segir í gömlu máltæki, að „betri sé mögur sátt en feitur dómur“ heldur er Alusuisse með þessari greiðslu þriggja milljóna dollara greiðslunni, að viðurkenna að Íslendingar hafi átt réttmæta kröfu um viðbótarskattgjald á hendur þeim, enda lætur nærri að þessi upphæð samsvari kröfu Íslendinga um viðbótarskatt fyrir árið 1980, þá kröfu sem líkur voru fyrir að hefði mátt vinna fyrir gerðardómi, en um kröfur fyrir hin árin, þ.e. 1975–1979, ríkti mikil óvissa, hvort þær yrðu nokkurn tíma viðurkenndar sem réttmætar fyrir dómi.

Með þessum orðum er ég ekki að réttlæta neitt, hvorki eitt né neitt. Ég er aðeins að varpa ljósi raunsæis og raunveruleika yfir stöðuna í samskiptum okkar við alþjóðlegan auðhring. Ég er að sýna hversu veik hún er. Þetta geri ég m.a. til þess að vara menn við þeim hættum, þeim niðurlægjandi flækjum og höftum, sem leynast í samskiptum smáþjóðar við alþjóðlega auðhringi sem reyndar er eitt af auðkennum alþjóðamála á okkar öld og allir ættu að þekkja.

Herra forseti. Ræðutíma mínum er nú lokið og ég get ekki tekið fyrir fleiri atriði, en ég vil ítreka í einni setningu það, sem fram kemur í nefndaráliti okkar Páls Péturssonar, að við áskiljum okkur allan fyrirvara um þær hugmyndir sem uppi eru um stækkun álversins í Straumsvík. Vísa ég nánar til nál. um það efni.