29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 3. minni hl. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Í mörg ár hefur álmálið verið eitt helsta þrætueplið í íslenskum þjóðmálum. Í fimm löng ár stýrði Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. iðnrh., viðræðum um endurskoðun álsamningsins með stóran hóp sérfræðinga sér við hlið og reyndi að knýja fram nýjan og betri samning. Alþjóð veit hvernig því starfi lyktaði. Enginn nýr samningur var gerður, enginn árangur náðist, og vil ég þó ekki draga í efa að menn unnu að lausn málsins eftir bestu getu.

Sumarið 1983 verða þáttaskil í þessum efnum þegar ný ríkisstj. tekur við völdum í landinu. Aðkoman var að vísu ekki auðveld og fyrsta verkefnið var að eyða þeirri úlfúð og tortryggni sem greinilega hafði áður komið í veg fyrir að samkomulag næðist um eitt einasta atriði. Það tókst vonum framar og eftir þriggja mánaða starf náðist bráðabirgðasamkomulag við Alusuisse í september í fyrra um 50% hækkun raforkuverðsins sem álbræðslan greiðir, úr 6.4 millum upp í 9.5. Þetta þýddi hvorki meira né minna fyrir Landsvirkjun en 170 millj. kr. á ári í auknum tekjum og það leiddi til þess að ekki hefur þurft að hækka rafmagnsverðið til almennings í landinu í meira en heilt ár. Verðið hefur verið óbreytt frá 1. ágúst á síðasta ári, sem þýðir að raungildisverð raforku hefur nú um áramótin lækkað um 17%. Þannig kom árangurinn af þessum fyrsta samningi við Alusuisse strax í ljós til hagsbóta fyrir íslenska neytendur.

Nú hefur hins vegar verið samið um miklu hærra raforkuverð til álbræðslunnar á næstu árum. Það er á bilinu 12.5–18.5 mill, en grunnverðið er 15 mill. Að mati þriggja kunnra erlendra ráðgjafarfyrirtækja og sérfræðinga Landsvirkjunar er talið líklegt að verð á áli í heiminum muni á næstu fimm árum leiða til þess að meðalverð það sem við Íslendingar fáum fyrir raforkuna verði um 15 mill eða tvöfalt til þrefalt við það verð sem í gildi var fyrir rúmu ári.

Nú munu ýmsir spyrja og það með réttu: En er þetta nýja verð nógu hátt? Erum við Íslendingar ekki enn að gefa með raforkunni til stóriðju? Þeirri spurningu er e.t.v. best svarað með því að hyggja að því hvert það meðalverð í Evrópu er sem álbræðslur greiða fyrir raforkuna. Um það liggja fyrir ítarlegar upplýsingar. Meðalverðið í Evrópu er 14.6 mill eða mjög svipað því sem álbræðslan í Straumsvík mun greiða á næstu árum. Í Noregi er verðið ekki nema 8.7 mill.

En lítum þessu næst á þá fullyrðingu að hinn nýi samningur hafi það í för með sér að almenningur í landinu þurfi að greiða hærra orkuverð fyrir vikið, þjóðin sé m.ö.o. að greiða niður rafmagnið til stóriðjunnar. Það höfum við heyrt hér í kvöld. Slíkt er á miklum misskilningi byggt. Við sjáum það best á því að ef nýi samningurinn hefði verið í gildi á öllu þessu ári hefði orkuverðið verið 13.8 mill. Það þýðir að meðalverð til almennings hefði getað verið 20% lægra en ef verðið til ÍSALs hefði verið 6.4 mill eins og það var í tíð fyrrv. iðnrh. Fátt sýnir betur en þetta hvern raunverulegan hag allur almenningur hefur af hinum nýja orkusamningi.

Við þetta vil ég aðeins bæta því hvert framleiðslukostnaðarverð raforkunnar frá Búrfelli er skv. reikningum Landsvirkjunar, vegna þess að það skiptir hér vitanlega miklu máli. Kostnaðarverðið frá Búrfellsvirkjun er 5.3 mill við stöðvarvegg en 8.6 mill ef flutningskerfið er tekið með. Verðið sem nýi samningurinn gæfi okkur í dag er hins vegar 13.8 mill eða fimm millum hærra en framleiðslukostnaðarverð orkunnar sem álverið notar.

Þetta er sú staðreynd sem hér skiptir máli. Allt annað mál er það að orkan frá nýjum virkjunum mundi í dag kosta 18–20 mill, en það er ekki sú orka sem við seljum til álversins heldur orkan frá Búrfellsvirkjun sem við munum eignast skuldlausa eftir tvö ár.

Í þessu sambandi er fróðlegt að íhuga hverjar viðbótartekjur Landsvirkjunar hefðu orðið ef nýi samningurinn hefði gilt frá 1979, ári eftir að fyrrv. iðnrh. tók við völdum. Það er einfali reikningsdæmi þegar við þekkjum stærðirnar. Viðbótartekjurnar á þessu tímabili hefðu verið 3.2 milljarðar kr. með vöxtum. Þær hefðu nægt til að malbika hringveginn allan, ekki einu sinni, heldur tvisvar, svo dæmi sé tekið, eða byggja 2000 íbúðir. Það er álíka og allar íbúðarbyggingar í Reykjavík á þriggja ára tímabili. Ekkert sýnir kannske betur en þessi tala, þessi staðreynd, af hvaða tækifærum við höfum misst í þessum efnum og því er engin furða þó nú sé rætt um áratug hinna glötuðu tækifæra. Þau ár koma ekki aftur, en ljóst er að hinn nýi orkusamningur mun auka tekjur Landsvirkjunar um 2.7 milljarða kr. á næstu fimm árum ef svo fer fram sem spáð hefur verið. Þetta eru allt háar fjárhæðir, enda var vissulega tími til kominn að orkuverðið fengist hækkað.

Í hinum nýja álsamningi er nú í fyrsta sinn að finna endurskoðunarákvæði sem gera það kleift að endurskoða allan samninginn á fimm ára fresti og er það til mikilla bóta. Þrátt fyrir þau ummæli, sem við höfum heyrt hér í kvöld, að þetta sé ónýtt ákvæði þá er það að finna í tugum ef ekki hundruðum alþjóðasamninga.

Í öðru lagi óskaði íslenska samninganefndin eftir því að árleg endurskoðun skyldi ávallt fara fram af okkar hálfu en það hefur brugðist fyrr á árum.

Í þriðja lagi verður álverið nú að hlíta reglum íslenskra skattalaga um afskriftir og framlög í varasjóð. Allt eru þetta sjálfsögð atriði sem horfa mjög til bóta.

Ég hef ekki tíma til að gera sáttargerðina hér sérstaklega að umræðuefni, en ég vil aðeins minna á orð aðalforstjóra endurskoðunarfirmans Coopers & Lybrands, sem hann sagði um málið í bréfi í júlí 1983, með leyfi forseta:

„Mér segir helst hugur um að það hefði alvarlega ókosti í för með sér fyrir ríkisstj. að halda gerðardómsmeðferðinni áfram og að mun æskilegra væri að jafna deiluna með samningsgerð.“

Þetta var álit aðalforstjóra Coopers & I.ybrands á því hvort það ætti að standa áfram í málaferlum eða gera sáttargerð, þá sáttargerð sem nú hefur verið framkvæmd. Fáir, ef nokkrir menn þekkja innviði þessa máls betur en sá maður.

Góðir hlustendur. Miklar deilur hafa staðið um stóriðju hér á landi á síðustu árum. Ég er sammála því að stóriðja er engin töfralausn á efnahagsvanda þjóðarinnar. Þar verður að ganga fram með fullri gát og varkárni og gæta þess að leggja ekki of mikið undir í einu. Fjárfestingarmistök okkar á liðnum árum eru þegar orðin of mörg og ekki mundi ég mæla með nýrri álbræðslu hér á landi nema arðsemi hennar og hátt raforkuverð væri að fullu tryggt. Hinu verður þó ekki á móti mælt að það er skynsamlegt að nýta þá miklu orku sem enn felst óbeisluð í fallvötnum landsins og þá ekki síður til stóriðju en annarra hluta. Skynsamlegir samningar við erlenda aðila eru grundvallarforsenda í því efni, samningar sem bæði tryggja atvinnu og arðgjöf á komandi árum. Þeir geta, ef rétt er á haldið, orðið sú lyftistöng sem íslenskur þjóðarbúskapur þarf á að halda á komandi árum. — Ég þakka áheyrnina.