29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er rangt sem hér hefur verið látið að liggja í umr. að formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, telji þennan samning góðan kost eða að afstaða hans sé eitthvað á reiki í þessu máli. Þó hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafi sagt að þetta væri það skásta sem frá ríkisstj. hafi komið, þá er samningurinn samt svo slæmur að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson er andvígur honum og eru þm. flokksins einhuga í þeirri afstöðu að greiða atkv. gegn honum.

Hæstv. núv. iðnrh. Sverrir Hermannsson og fyrrv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson hafa hvor með sínum hætti leikið afdrifaríka afleiki og klúðrað málum í samskiptum Íslendinga við svissneska auðhringinn, enda er uppskeran nú eftir því. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði mest upp úr því að lemja á auðhringnum vegna deilumála um hækkun í hafi. Það er auðvitað ekki mjög vænlegt til árangurs að jagast sífellt á að menn séu þjófar og skattsvikarar og ætla síðan að setjast að samningaborði með þessum sömu mönnum um mikilvæg hagsmunamál Íslendinga.

Hæstv. núv. iðnrh. samdi síðan af sér, því að honum lá mikið á að sanna að hann gæti gert það sem Hjörleifi tókst ekki, og hann vissi að tíminn var knappur því að ríkisstj. hefur lengi setið á völtum valdastólum.

Fimm meginforsendur liggja til grundvallar því að Alþfl. er andvígur þessum samningi sem nú er til lokaafgreiðslu hér á hv. Alþingi:

Í fyrsta lagi er það skoðun okkar að það verð sem um hefur verið samið sé allt of lágt og verið sé að ganga til samninga við Alusuisse um undirverð á raforku sem er langt undir kostnaðarverði á framleiddri orku í virkjunum Landsvirkjunar og einnig verulega undir því verði sem Swiss Aluminium greiðir í öðrum álbræðslum sínum sem er milli 19 og 20 mill.

Í öðru lagi er ekki um nem verðtryggingarákvæði á orkuverði að ræða, en það verður að teljast mjög varhugavert svo ekki sé meira sagt. Í stað þess er tekin mjög veruleg áhætta umfram það sem áður var með því að tengja raforkuverð sveiflum í verði á áli. Þetta gengur líka þvert á það sem iðnrh. hefur hamrað á, að íslenska ríkið eigi að varast að taka mikla fjárhagslega áhættu í þessum málum.

Í þriðja lagi telur Alþfl. ótækt að ríkisstj. hverfi frá því að láta gerðardóm úrskurða um ágreiningsefnin í skattamálum og gefast þannig upp við að fá óhagganlega niðurstöðu í þeim mikilvægu málum.

Í ákvæðum samningsins er verulega slakað á þeim kröfum að skylda Alusuisse til að tryggja ÍSAL aðföng á bestu fáanlegum kjörum. Það ákvæði er veikt verulega frá áður gildandi samningi og ákvæði um að aðföng eigi ÍSAL að fá með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru er fellt niður þegar um viðskipti Alusuisse við ÍSAL er að ræða. Þeim mun alvarlegra er þetta ákvæði þegar þetta nær til u.þ.b. 98% af aðföngum ÍSALs. Mun því í raun aðeins um að ræða að 2% aðfanga skuli áfram njóta bestu kjara.

Enn eru óleyst mikilvæg mál eins og breyttar skattareglur og ekkert liggur því fyrir um að skattamálin verði ekki deilumál áfram.

Hvenær eða hvernig verður staðið að fyrirhugaðri stækkun álbræðslunnar liggur heldur ekki fyrir. Draga verður einnig þá ályktun að auðhringurinn sé ekki tilbúinn í bráð að fjárfesta hér í stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, ekki síst þar sem hann hefur ákveðið að fjárfesta í stækkun álbræðslu í Noregi. Og þá má spyrja: Ef nú eru til 700 gígawattstundir af umframorku, sem svarar til allrar raforkuframleiðslu frá virkjunum eins og Blöndu, og því er spáð að næg orka sé til í landinu til ársins 1990, hverju skilar þá fjárfesting í Blöndu ef við höfum enga stórnotendur og getum ekki seli orkuna? Í veigamiklum atriðum eru það því fyrst og fremst hagsmunir auðhringsins sem gætt hefur verið í þessum samningum en ekki íslensku þjóðarinnar.

Á það má einnig benda að undanlátssemi iðnrh. við auðhringinn varðandi breytingar á afskriftareglum og rýmkun á því að leggja fé í varasjóð nemur u.þ.b. 2 milljónum dollara eða um 80 millj. ísl. kr. vegna ársins 1980.

Framsóknarmenn, sem ekki treysta sér til að skila sameiginlegu nál. í þessu máli með Sjálfstfl., draga mjög í efa gildi endurskoðunarákvæðis samningsins sem felur í sér að hvor aðili um sig geti á fimm ára fresti krafist endurskoðunar á samningnum. Í nál. þeirra er þessu ákvæði lýst þannig að álit manna á því veikist milli vona og efasemda. Svo veiki er þetta ákvæði að annar stjórnarflokkurinn, Framsfl., sem stendur að þessu máli, telur ástæðu til að taka það sérstaklega fram að ekkert sé á það að treysta. Það er opið í báða enda, segir Framsfl. og greiðir síðan atkv. með öllu saman.

Ég sé sérstaka ástæðu til að minna á undir þessum umr. þáltill. Alþfl. sem samþykkt var fyrr á þessu ári um að ítarleg úttekt verði gerð á orsökum hins háa raforkuverðs til almennings og almenns atvinnurekstrar. Við viljum fá fram skýrar ástæður fyrir þessu háa raforkuverði. Er það vegna þess að skattlagning orkunnar hér sé meiri en annars staðar? Er það vegna þess hve orkuverð til stóriðju er lágt? Er virkjunarkostnaðurinn hjá okkur óeðlilega hár? Er það yfirbyggingu á orkufyrirtækinu að kenna? Er gætt þess aðhalds og þeirrar hagsýni í öllum rekstri sem nauðsynlegt er? Hér er brýnt mál á ferðinni því það er óviðunandi með öllu hvað raforkuverð til heimilanna í landinu er hátt, en fram hefur komið að verð til almenningsveitna sé nú þrisvar til fjórum sinnum hærra en til stórnotenda. Og þó að það sé ekki að fullu sambærilegt þar sem meiri kostnaður er vegna raforkusölu til neytenda en stórnotenda, þá var það athyglisvert sem fram kom í Fréttabréfi Orkustofnunar í sept. á s.l. ári að meðalraforkuverð til neytenda árið 1982 hafi verið um 77 mill hjá Rafmagnsveitum Reykjavíkur og um 58 mill hjá Rafmagnsveitum ríkisins á sama tíma og verð til álversins í Straumsvík var 6.5 mill. Það er því full ástæða til að spyrja hvort þessi hækkun á raforkuverði til álversins leiði til lækkunar á raforkuverði til heimilanna, eða á hún að renna óskipt í hítina hjá Landsvirkjun, þessu fyrirtæki sem hefur neitað að gefa Alþingi upplýsingar um ýmsan rekstrarkostnað, sem það á að gera lögum samkvæmt. eins og bifreiðakostnað, risnukostnað, ferða- og launakostnað?

Herra forseti. Nú skal því réttilega haldið fram að sú hækkun á orkuverði sem með þessum samningi fæst er vissulega ávinningur miðað við það sem áður var. En bæði er það að verðið er allt of lágt miðað við framleiðslukostnaðarverð hjá Landsvirkjun og að verðið er mikilli óvissu háð þar sem það tengist álverði. Til marks um það var álverð í London á þriðja ársfjórðungi 1983 tæpir 1600 dollarar á tonn en fór nú í haust, eða ári síðar, niður undir 1000 dollara á tonn. Nærri lætur að álverðið sé nú 1250 dollarar á tonn sem gæfi þá í orkuverð 12.5 mill samkvæmt þessum samningi. Það er sú staðreynd sem við blasir.

Ég tel varhugavert að reikna með einhverjum stórum sveiflum upp á við, eins og mér finnst gæta í þeim bjartsýnisspám sem fyrir liggja, ekki síst þegar litið er til þess ástands sem nú ríkir á álmörkuðum. Í dag er framleiðslugeta álveranna verulega meiri en eftirspurn og engar horfur taldar á því að það breytist á þessum áratug. Við höfum líka staðreyndir undanfarinna ára fyrir okkur. Þar liggur fyrir að verð á áli á árunum 1979–1983 hafi verið að meðaltali um 1400 dollarar á tonn sem gæfi þá samkvæmt þessum samningi tæplega 13.5 mill. Þess skal einnig gætt að miðað við alþjóðlega verðbólguþróun, sem spáð er, er raunhæft að áætla að meðalverð á samningstímanum á verðlagi þessa árs verði um 10 mill en ekki 15 mill á kwst. eins og talsmenn þessa samnings gera ráð fyrir. Til samanburðar má geta þess að meðalframleiðslukostnaður á raforku er nú frá Landsvirkjun á bilinu 19–20 mill.

Í tímaritinu Metal Bulletin í apríl s.l. er haft eftir þekktum sérfræðingi á þessu sviði að meðalverð til álvera á árinu 1983 í Vestur-Evrópu hafi verið 18.8 mill. Spáir hann því að meðalraforkuverð 1985 verði 22.7 mill. Þá gefur samningur iðnrh. samkvæmt spám Landsvirkjunar aðeins 14 mill. Árið 1987 spáir sami sérfræðingur því að verðið verði 25.5 mill. Þá gefur samningur iðnrh. 16.5 mill. Það jafngildir 12 millj. dollara mismun eða 470 millj. kr. í tekjutap fyrir Landsvirkjun á því ári.

Ég tel að þessar tölur gefi glögga mynd af því hvað hæstv. iðnrh. hefur verið auðsveipur þessum auðhring og að hann hafi í reynd keypt köttinn í sekknum. Það er líka ljóst að þessi niðurstaða veikir samningsstöðu okkar í framtíðinni þegar semja þarf um orkuverð til annarra stóriðjufyrirtækja því auðhringarnir reyna örugglega að nýta sér þetta lága orkuverð sem viðmiðun.

Hægt væri að eyða hér mörgum orðum líka í þau vinnubrögð sem höfð hafa verið uppi í þessu máli og hvernig stjórnarandstöðunni hefur verið haldið frá allri vitneskju um innihald þessa samnings þar til nú fyrir nokkrum dögum. En það versta í þessu er að Alþingi stendur frammi fyrir orðnum hlut og á þess ekki kost að gera neinar breytingar á þessum samningi, það er bara af eða á. Og ekki nóg með það, heldur er þm. gert að vinna undir þeirri svipu að hver dagur sem Alþingi hefur málið til umfjöllunar kosti þjóðina 400 þús. kr. í tekjutap. Snúa má þessu dæmi við og spyrja hvað þessi afleikur ráðh. og auðsveipni við auðhringinn hafi kostað þjóðina. Við skulum ekki fara hærra en í 18 mill verðtryggð, sem hefði verið viðunandi árangur eftir margra ára viðureign við þennan auðhring til að ná fram hærra orkuverði, og einnig miðað við hver framleiðslukostnaður orkunnar er og meðalverð í Evrópu. Miðað við sömu forsendur og ráðh. gefur sér má eins segja að hver dagur héðan í frá, þar til 18 mill fást, kosti þjóðina 700 þús. kr. á dag eða 255 millj. kr. á ári, en það er hærri fjárhæð en veitt er á fjárlögum til byggingar félagslegra íbúða á þessu ári.

Herra forseti. Hér hefur illa verið staðið að málum og langt frá því að hagsmuna íslensku þjóðarinnar hafi verið gætt. Því eru þm. Alþfl. andvígir þessu frv. og munu greiða atkv. gegn því.

Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.