03.12.1984
Efri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Fyrir 2. umr. um þetta mál flutti ég brtt. þar sem ég gerði ráð fyrir að lögin kæmu til framkvæmda 1. maí n.k. í staðinn fyrir um næstu áramót. Till. þessi var flutt eftir ábendingu frá fulltrúum minnihlutamanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún skýrir sig nokkuð sjálf. Menn óska eftir að þetta fyrirkomulag, sem á að taka upp, komi sem fyrst til framkvæmda.

Eins og hv. þdm. hafa sjálfsagt orðið varir við var ég veikur í seinustu viku og kom ekki hér til þingfunda. Ég hélt satt að segja að till. hefði komið til atkvæða við 2. umr., en hún mun hafa verið tekin til baka og liggur nú fyrir til 3. umr. Held ég að þessi fáu orð mín nægi til að gera grein fyrir henni.