11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

186. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Austurl. í fyrsta lagi fyrir að taka svo vel undir þetta frv. sem hér er flutt og í öðru lagi fyrir að rifja upp þann skemmtilega tíma þegar við stóðum saman að því, ásamt fleiri þm., að berjast fyrir því að þær konur í launþegastétt, sem ekki höfðu áður átt kost á þriggja mánaða fæðingarorlofi, fengju það með lögum. Það gerðist 21 ári eftir að konur í störfum hjá hinu opinbera fengu slíkan rétt. Eftir allan þennan tíma gerðist það á árinu 1975, eða þá í árslok, að konur í hinum launþegafélögunum fengu þennan rétt og var þá svo að þær höfðu fengið samkvæmt samningum u.þ.b. 12 daga fæðingarorlof e.t.v. flestar fram að þeim tíma. Því var um brýna þörf að ræða og mjög mikla úrlausn er þessi réttarbót var lögfest. Þetta var sannarlega þess vegna þýðingarmikil löggjöf og reyndar var þetta eina löggjöfin að því ég best man sem sérstaklega varðaði konur og sem samþykkt var á því fræga ári, kvennaári Sameinuðu þjóðanna.

Hitt er svo annað mál, eins og hv. þm. ýjaði hér að áðan, að hann taldi að þarna væri um áfangalausn að ræða. Vissulega hafa réttindamál á landi okkar og víðar í veröldinni komist fram í áföngum. Þarna var um mjög stóran áfanga að ræða. En engu síður var það nú svo að margir flokksmenn hv. þm., karlar og konur, kepptust við af pólitískum ástæðum að gera lítið úr þeim mikilvæga áfanga sem þarna var náð, en hér í þingi var samt allt að einu gott samstarf um þetta mál. Flestir þm. tóku mjög vel undir þetta og fyrir það getum við konur sannarlega verið þeim þakklátar. Síðar var svo fjármögnun þessa færð yfir í almannatryggingar, en eins og menn muna þá voru á þeim tíma sem lögin voru fyrst sett um þetta almenna fæðingarorlof engin tök á því að fá nægilegt fjármagn úr Tryggingastofnuninni fyrir þetta verkefni, en síðar var horfið að því ráði.

Að því er svo varðar það hvort núna sé tekin ákvörðun um ný og stór skref fjármögnuð af Tryggingastofnuninni, þá hefur það ekki enn verið gert og þarf ég ekki að tíunda það fyrir hv. þm. hverjir fjárhagsörðugleikar þar eru. Ég er vissulega eftir sem áður tilbúin til þess að kanna allar umbætur í þessu máli, en það hefur ekki unnist tími til þess að hafa neitt tilbúið um það í heilbrrn. nú, á þeim skamma tíma sem ég hef verið þar starfandi. Ég vona að þessar upplýsingar nægi.