11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég stend að því nál. sem komið er frá minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 233 og sé svo sem ekki ástæðu til að fjölyrða neitt sérstaklega um það. Frsm. hefur gert grein fyrir sjónarmiðum minni hl. Aðeins vildi ég þó segja örfá orð.

Venjan er sú hér á Alþingi að 2. umr. máls er meginumræðan oftast þegar til þess kemur að greiða atkvæði um hverja einstaka grein frv. og mál hefur verið til meðferðar og athugunar í nefnd. Nú háttar svolítið öðruvísi til, sýnist mér. Ef einhver meginumræða verður um þetta frv. til lánsfjárlaga held ég að það verði kannske 3. umr. þegar mál hafa skýrst eitthvað frá því sem nú er.

Nú er afgreiðsla lánsfjárlaga tengd afgreiðslu fjárlagafrv. sem eðlilegt er og er góður siður, þ.e. ef það er eitthvað að marka fjárlagafrv. Mér sýnist hátta svo til um þessar mundir að fjárlagagerðin sé öll í uppnámi. Þá hefur það gerst í fjvn. í fyrsta skipti í býsna langan tíma, að ég hygg, að nm. hafa ekki náð samkomulagi um að standa sameiginlega að neinum tillögum. Venjan hefur verið sú að frá fjvn. hafa komið allmargar tillögur sem nm. hafa allir getað sameinast um, en síðan hefur nefndin eðlilega klofnað um önnur atriði, svo sem tekjuöflun o.fl., og skilað mismunandi nefndarálitum um það. Mér sýnist allt benda til þess og öll vitneskja sem frá fjvn. hefur komið um þetta, en það skýrist væntanlega betur þegar 2. umr. um fjárlögin fer fram, að þar sé ákaflega margt óvíst, ákaflega margt óljóst. Raunar væri ástæða til að taka allt fjárlagafrv. til endurskoðunar að nýju. Þá hlýtur þetta auðvitað að tengjast saman.

Ég hef áður í umræðum hér vikið að því við sama tækifæri á fyrri árum að það er ekki gott vinnulag sem menn hafa hér, þ.e. þegar framlög eru ákveðin með einum lögum en síðan árlega skert með öðrum lögum. Þetta er ekkert sérstakt einkenni nú og ekki við hæstv. núv. fjmrh. að sakast í þessu efni. Þetta hafa margir af hans fyrirrennurum gert líka. En þetta eru hreint ekki góð vinnubrögð.

Ég vil svo að lokum geta þess að þetta mál hlýtur eðlis síns vegna og vegna þess hvernig staða mála er í heild að koma til athugunar í fjh.- og viðskn. milli 2. og 3. umr. Ég held að það sé alveg ljóst. Um það varð samkomulag í nefndinni og það verður. Þess vegna hef ég fyrir mitt leyti ákveðið að geyma mér að flytja hugsanlegar brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1986 þangað til þessi mál hafa skýrst frekar.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa um þetta fleiri orð. Það eru margir liðir óljósir. Ég bendi á t.d. að staða hitaveitna sveitarfélaganna er víða mjög slæm. Þar gæti verið um vanáætlun að ræða, eins og segir hér í nál., en það er ekki það eina. Kannske eru þessi lánsfjárlög ekkert mikið verri en verið hefur áður við svipaðar kringumstæður. Það er þó sá kosturinn núna að þau eru á ferðinni á réttum tíma og það er auðvitað af hinu góða. Hins vegar bætist við, sem ekki var s.l. ár, sú staða sem er uppi varðandi fjárlagafrv. og varðandi fjárlög næsta árs. Hún gerir það að verkum að öll er þessi mynd nú þokukenndari og óskýrari en áður.