11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki verða langorður, enda ekki um margt að tala.

Ég vildi byrja á að vekja athygli á að þetta eru nokkuð söguleg tímamót því að þetta eru í raun og veru síðustu fjárlögin sem þessi ríkisstj. kemur til með að bera ábyrgð á með þeim hætti að hún framkvæmi þau til fullnustu. Ef guð lofar á hún e.t.v. eftir að semja enn ein fjárlög, en þau fjárlög koma ekki til með að verða hennar framkvæmdaverk nema þá að hálfu leyti þannig að augljóst er út frá þeim staðreyndum og út frá þeirri stöðu mála sem við stöndum frammi fyrir núna að ríkisstj. þarf ekki stjórnarandstöðunnar við eða hjálp hennar til að kveða dóm upp yfir sjálfri sér. Alla vega verður maður ekki blindaður af glæsilegum árangri þessarar ríkisstj.

Það er, eins og margir hafa sagt á undan mér, um afskaplega lítið að tala vegna þess að málin eru enn þá svo óskýr og svo óljós. Það er alls ekki búið að sjá fyrir endann á því hver áhrif halli ríkissjóðs á því ári sem er að líða kemur til með að hafa, það er alls ekki búið að sjá fyrir endann á því hver áhrif viðskiptahallinn á næsta ári mun hafa og þar fram eftir götunum. Það er alls ekki búið að sjá fyrir endann á því hvernig tengja á saman þessi lánsfjárlög og fjárlögin vegna þess að fjárlögin eru enn þá eins óljós og mönnum er kunnugt.

Það hefur verið nokkuð viðtekin venja hjá þeim manni sem nú situr í stól hæstv. fjmrh. að bregða stjórnarandstöðunni um úrræðaleysi. Án þess að fara út í þá umræðu nánar bið ég þá menn sem hlýða á slíkt að nota nú þessi lánsfjárlög og þau fjárlög sem við munum ræða um eftir tvo daga sem mælikvarða á úrræðagetu þeirrar ríkisstj. sem nú er, eins og ég sagði áðan, að leggja fram síðustu fjárlögin sem einhverju máli skipta fyrir hennar starfsferil.

Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í fjh.- og viðskn., en á þar setu sem áheyrnaraðili. Míns nafns var ekki getið í nál. og var það að mínum vilja. Ég gat alls ekki gert upp við mig hvort nál. ég hefði átt að styðja því að hvorugt þeirra mælir með samþykkt þessa frv.