12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Já, síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Norðurl. e. Björn Dagbjartsson, leiðrétti ummæli sín frá því í 1. umr. og sagði að rétt væri að búið hefði verið að steypa upp stöðvarhúsið við Kröflu þegar eldgosið varð þar. Hann viðurkenndi líka að búið hefði verið að panta vélar til verksmiðjunnar. En hann hélt því fram að hægt hefði verið að rifta þeim samningum á grundvelli svokallaðra „force majeure“ réttarákvæða.

Ekki skal ég fullyrða um hvort þetta er rétt hjá hv. þm. Það liðu 10 mánuðir frá því að samningar um vélakaupin höfðu verið undirritaðir þangað til eldgosið varð. Ég hygg að það hafi verið búið að smíða þessar vélar að verulegu leyti, og ég sé ekki hvernig í ósköpunum seljandi vélanna hefði átt að taka á sig allan þann skaða sem hefði hlotist af því að sitja uppi með ónotaðar vélar út á „force majeure“ ákvæðin. Ég held að það hefði aldrei staðist að skella ábyrgðinni yfir á seljandann sem var algerlega saklaus að þessu leyti, og því hafi legið ljóst fyrir að vélar sem búið var að smíða í virkjunina hlutum við Íslendingar að leysa út. Við hefðum ekki getað riftað þessum samningi á þeim grundvelli nema taka á okkur mjög stórfelldar skaðabætur sjálfir. Enda, eins og ég sagði, liðnir hvorki meira né minna en 10 mánuðir frá því samningurinn var undirritaður, og ekki er hægt að sjá það af hverju Japanarnir hefðu átt að taka á sig tjónið frekar en við Íslendingar.

En þetta skiptir kannske ekki öllu máli. Þessi ákvörðun var ekki tekin. Hver tók þá ákvörðun? Dettur hv. þm. það í hug t.d. að ég sem hér stend hafi tekið þá ákvörðun? Nei, sú ákvörðun var að sjálfsögðu tekin af þeirri ríkisstj. sem þá sat undir forsæti Geirs Hallgrímssonar. Þá sátu hér í stjórn sjálfstæðismenn ásamt framsóknarmönnum og þeir tóku auðvitað þessa ákvörðun. Og ég get bætt því við að ég taldi hana óhjákvæmilega og var henni samþykkur og varð ekki var við það að hér Alþingi kæmu fram aðrar raddir, a.m.k. ekki þá í svipinn. Hins vegar fóru þær fljótlega að heyrast þar á eftir. (Gripið fram í: Var það ekki Kröflunefnd sem tók ákvörðunina?) Nei, Kröflunefnd tók ekki þessa ákvörðun. Það var ríkisstjórnin sem tók þessa ákvörðun. Kröflunefnd var fyrst og fremst til ráðuneytis ráðuneytinu um ákvarðanir af þessu tagi. (Gripið fram í.) Jú, ég hygg að Kröflunefnd hafi verið þessu samþykk. Og ég var, eins og ég sagði áðan, samþykkur þessari ákvörðun. En auðvitað var það þáverandi ríkisstjórn sem tók þessa ákvörðun á sínum tíma. Ég var þá í stjórnarandstöðu.

Spurt var hvort, með þeirri hugmynd að setja í gang seinni vél Kröflu, væri verið að leggja það til að Blönduvirkjun yrði ekki byggð eða henni frestað um óákveðinn tíma, eins og tekið var til orða. Auðvitað verður að vekja á því athygli að verulegur stærðarmunur er á þessum tveimur virkjunum og seinni vélin skilar ekki nema 30 mw en Blanda á að skila 150 mw. Það er því ljóst að þessi seinni vél gæti aldrei komið í staðinn fyrir Blönduvirkjun. Það held ég að engum hafi dottið í hug. Hins vegar segir það sig sjálft að ef Kröfluvirkjun verður fullnýtt í lok þessa áratugar hlýtur það að hafa áhrif á uppbyggingu annarra orkumannvirkja hér og er þá hægt að fresta öðrum framkvæmdum sem þessu nemur en auðvitað ekki meir. 30 mw eru ekki meira en svo að þau svara til rúmlega eins árs aukningar afls í orkukerfi okkar landsmanna. Því gæti auðvitað í mesta lagi verið um það að ræða að t.d. Blönduvirkjun kæmi þá einu ári síðar í gagnið en ella mundi vera.

Að lokum var það spurning Karls Steinar Guðnasonar um það hverju máli þetta yfirleitt skipti. Hérna væri verið að afhenda verðmæti ríkisins yfir til Landsvirkjunar. Mundi það þá skipta öllu máli hvort skattgreiðendur tækju á sig þessa byrði í gegnum skattakerfi ríkisins eða orkunotendur? Ég lít svo á að ef öll sveitarfélög landsins væru aðilar að Landsvirkjun mundi þetta sannarlega ekki skipta neinu máli. En nú eru ekki nema tvö sveitarfélög enn þá aðilar að Landsvirkjun, þ.e. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær. Ég tel að verið sé að færa Landsvirkjun ákaflega mikil verðmæti á niðursettu verði og það tel ég vera mjög til hags fyrir þau sveitarfélög sem eiga aðild að Landsvirkjun, en aftur á móti hugsanlega þá til samsvarandi óhags fyrir önnur sveitarfélög í landinu.