12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til breytinga á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, en gert það með fyrirvara. Ég lít svo á að ekki sé um annað að gera en að samþykkja þessi lög. Það er þegar búið að ganga frá ýmsum hlutum í kjarasamningum, fiskverði og öðru slíku sem bindur hendur þm. um það að þessu verður ekki breytt. Ef fara ætti að breyta einhverjum þætti af þessum hlutum sem hér er lagt til, þá kæmi það beint inn á fiskverð og samninga við sjómenn. Tel ég því ekkert annað að gera en að samþykkja þetta frv.

En nafnið á frv. er nú í fyrsta lagi dálítið skrýtið. Það er frv. til laga um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins var til þess að tryggja það að sjómönnum væri borgað kaup ef illa gekk. Ef það fiskaðist illa á bát og útgerðin hafði ekki fjármagn til þess að standa í skilum, þá var Aflatryggingasjóðurinn til þess að grípa inn í og hjálpa til og tryggja það að sjómenn fengju sín laun greidd. Hér er ekkert um það að ræða og vitaskuld átti um leið og hin svokölluðu kvótalög voru samþykkt hér haustið 1983 að hætta að tala um Aflatryggingasjóð. Og þegar samþykktar voru hér á hv. Alþingi þær millifærslur, sem eru í þessu frv. og eru búnar að vera í gildi, þá átti að búa til nýtt nafn sem átti bara að heita „millifærslubanki sjávarútvegsráðuneytisins“. Þetta er ekkert annað. Aflatryggingasjóðurinn er ekki orðinn annað en stofnun til þess að millifæra ákveðinn skatt, endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti og útflutningsgjald. Það á ekkert heima við þann Aflatryggingasjóð sem við bjuggum við hér áður. En við hlutverki Aflatryggingasjóðs hefur tekið einn þátturinn, einn þáttur kvótakerfisins, salan á kvóta. Sá bátur sem fiskar lítið núna í aflamarkskerfinu getur selt sinn kvóta. En þetta virkar bara alveg þveröfugt við það sem áður var. Nú er það útgerðarmaðurinn sem nýtur þess að geta selt kvótann sem hann getur ekki aflað og það kemur ekkert til sjómannanna. Það kemur ekkert til sjómannanna. Sjómennirnir, sem hafa raunverulega aflað þess réttar sem viðkomandi skip á, þeir eru dæmdir úr leik. Hinn nýi Aflatryggingasjóður er tryggingasjóður, ákveðinn tryggingasjóður fyrir útgerðina, en sjómennirnir - þeir mega bara eiga síg. Og sú millifærsla, sem á sér stað í sambandi við það frv. sem við erum að fjalla um nú, er að miklu leyti líka á þann veg. Hún er millifærsla aðeins á einn veg. Hún er millifærsla fram hjá skiptum. Það er sem sagt enn verið að búa til millifærslur fram hjá skiptum í staðinn fyrir þær millifærslur sem áður voru í gangi í sambandi við olíusjóð og til viðbótar reyndar við þær millifærslur sem koma í gegnum stofnfjársjóð og olíusjóð og tryggingasjóð.

Við erum sem sagt með þessu frv. ekki að samþykkja Aflatryggingasjóð heldur erum við að samþykkja millifærslubanka fyrir sjútvrn. Það er reyndar verið að gefa okkur undir fótinn um að sá millifærslubanki eigi nú stutt eftir ólifað, það sé verið að vinna í öflugri nefnd um það að afnema þennan millifærslubanka og fleiri millifærslur í sambandi við sjávarútveginn, og frv. byggir að nokkru leyti á því, þannig að það eru ekki ætlaðar tekjur til þess að standa undir þessari millifærslu nema að hluta.

Það urðu nokkrar umræður um það við 1. umr. um frv. að hverju þar stefndi, hvort líkur væri fyrir því að sú ágæta og vel skipaða nefnd sem að því starfar lyki störfum á næsta ári frekar en á þeim tveimur liðnum árum eða svo sem hún hefur verið að störfum. Hæstv. sjútvrh. gaf fyrirheit um að svo mundi verða. Það er náttúrlega erfitt að fullyrða nokkuð um það. Jafnvel þó vilji hæstv. ráðh. sé sá að nefndin klári og skili af sér, þá held ég að það sé svo margt sem þurfi að vinna í kringum alla þá þætti sem þar koma til álita, að líkurnar fyrir því að verkinu verði lokið upp úr miðju ári eru að mínu mati ekki miklar. Og til þess að svo megi verða þurfa að eiga sér stað mjög fjölbreytilegir samningar við alla hagsmunaaðila sjávarútvegsins.

Til fundar við nefndina komu fiskimálastjóri og Þórarinn Árnason, framkvæmdastjóri Aflatryggingasjóðs, og upplýstu okkur um stöðu sjóðsins. Það var svolítið merkilegt að þær tölur, sem þeir komu með og eru miðaðar við þann dag sem þeir komu til okkar, 10. desember, falla að mjög litlu leyti saman við þær tölur sem eru á 4. síðu frv. - ja, það er nú kannske heldur mikið að segja mjög litlu, en í veigamiklum atriðum stangast þær á.

Það er náttúrlega ekki gott þegar Þjóðhagsstofnun skilar frá sér tölum inn á frv. sem var lagt hér fram fyrir nokkrum dögum, eins og hv. frsm. meiri hl. sjútvn. sagði hér áðan, ef það kemur svo í ljós að þar skakkar heilmiklu við það sem raunverulega er. maður fer nú að taka a.m.k. miklu fremur trúanlegar þær tölur sem gefnar eru upp af fiskframleiðendum, útflytjendum, um stöðu fiskvinnslunnar, að þar sé 8-9% halli, en tölur Þjóðhagsstofnunar sem segja að það sé um 3% halli á frystingunni en á núlli hjá söltuninni. Þegar maður ber þessi plögg saman virðist greinilegt að einhvers staðar þyrfti jafnvel meiri millifærslur en þær sem hér eru, ef það er staðreynd að fiskvinnslan sé núna rekin með 8 eða 9% halla.

Því miður eru þær tölur sem maður fær frá Þjóðhagsstofnun ansi oft þannig að þær standast ekki raunveruleikann þegar þær eru bornar saman við niðurstöðutölur fyrirtækjanna. Og eins er með upplýsingar Fiskifélagsins. Þær standast ekki samanburð við tölur þær sem eru á 4. síðu frv.

Hv. 8. landsk. þm. ræddi áðan um stöðu fiskvinnslunnar og þá fundi sem nú hafa verið í gangi í sambandi við það mál. Fulltrúar fiskvinnslunnar munu hafa gengið á fund ríkisstjórnarinnar og tjáð henni hvernig staða vinnslunnar væri og farið fram á leiðréttingar í þeim málum, m.a. bent á að vegna gengisskekkju á milli SDR og dollars hefði fiskvinnslan á undanförnum mánuðum tapað 3-400 millj. kr. Eitt af því sem átti að vera bjargráð í fyrra fyrir fiskvinnsluna í landinu var að taka afurðalánin á ákveðnu gengi, ákveðnum gjaldmiðli. Þetta hefur að vísu verið reynt áður en reynst illa. Og enn þá virðist sagan vera að endurtaka sig, að eitt bjargráðið, sem á að vera fiskvinnslunni til hagsbóta, verkar alveg þveröfugt. Þetta er einn af þeim þáttum sem fiskvinnslan óskar nú eftir leiðréttingum á.

Það sem boðið er upp á, að mér skilst, núna síðustu daga er að hver aðili geti óskað haft það gengi sem hann óskar eftir. Hann er ekkert bundinn við það að vera í SDR eða vera í dollar, hann getur valið þar á milli. Mönnum er sagt: Nú getur þú valið þetta sjálfur og ef illa fer þá er það sjálfum þér að kenna. Þetta er einn anginn af frelsinu, hinu góða frelsi.

Ég held að það sé að koma í ljós að þessi breyting, tilfærslan frá endurkaupaskyldu Seðlabankans á afurðalánum í íslenskri mynt, sé að verða einn skatturinn til, einn millifærsluskatturinn til, frá sjávarútveginum hingað á eyðslusvæðið. Kannske þessar 3-400 millj. séu einhvers staðar til í skotum til þess að hlaupa undir bagga, ja, segjum bara með hluti eins og Hafskipsgjaldþrotið. Beinn skattur, fyrst og fremst af landsbyggðinni, að stærstum hluta frá landsbyggðinni hingað á eyðslusvæðið.

Það væri gaman að heyra frá hæstv. sjútvrh. hverjar undirtektir og hvaða vonir ríkisstj. hefur gefið fulltrúum fiskvinnslunnar, þegar þeir gengu á fund hennar, hver sé von til þess að staða fiskvinnslunnar verði bætt, hver sé von til þess að einhverjar endurgreiðslur komi í sambandi við þetta gengistap, sem fiskvinnslan telur sig hafa búið við, og hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að fella gengið og þá hvað mikið, verða við ósk fiskvinnslunnar í því, eða hverja aðra kosti ríkisstjórnin ætli að nota til að laga þessa stöðu.

Ein frétt sem ekki hefur nú borið mjög mikið á var í fjölmiðlum í gær og að einhverju leyti í dag. Hún er sú að íslensku skipafélögin hafi tilkynnt loðnumjölsframleiðendum að fragt á loðnumjöli skuli hækka um 20%. Við í sjútvn. vorum að gera því skóna, og hv. 8. landsk. þm. var að nefna það hér áðan, að í góðæri eins og nú í sambandi við loðnuveiðarnar væri nú kannske ekki mikil þörf á þessari millifærslu fyrir loðnuna, 6% verðjöfnuninni. En ætli það sé ekki verið með þessari hækkun á flutningsgjöldum að boða það að vinnslan, mjölvinnslan, loðnuvinnslan, fái á sig þarna skell sem réttlæti það, þrátt fyrir mikinn afla, að nauðsynlegt sé að halda áfram með þá millifærslu sem gert er ráð fyrir.

Það væri gaman að heyra hvað hæstv. ráðh. segir um þessa tilkynningu skipafélaganna, hvort hann telur að þarna sé farið að lögum. (Forseti: Það er verið að kalla í hæstv. ráðherra.) Ég vildi beina orðum mínum til hæstv. ráðh. og spyrja hann að því í sambandi við þessa tilkynningu skipafélaganna hvort hann teldi hér farið að lögum, þegar hér í hinu frjálsa landi eru stunduð slík viðskipti sem þessi, að heil samtök atvinnuvegar tilkynna um verðhækkun, hvort þetta sé löglegt. Í öðru lagi væri gaman að heyra frá ráðherra hvort þessi flutningsviðskipti hafi ekki verið boðin út á alþjóðamarkaði eða utan íslensku skipafélaganna. Maður hefur heyrt reyndar að það sé gert, en gaman væri að heyra af því hversu mikil áhersla hafi verið lögð á þau útboð, hvort nokkurn tímann hafi komið inn í það dæmi tilboð frá erlendum aðilum og hvort við mættum búast við því að sjá þar einhvern samanburð. Maður hefur heyrt það t.d. að flutningsgjöld til Norður-Noregs, fyrir norðan Bodö, séu mun lægri en til Íslands og enn þá sé haldið uppi þeirri mynd að það sé miklu hættulegra og erfiðara að sigla til Íslands en til Norður-Noregs.

Hv. 8. landsk. þm. vakti athygli á því að með því að flytja fisk út í gámum og selja hann erlendis og miða við söluverðið væri jafnvel verið að hvetja til þess að sá háttur væri hafður á að menn færu í gegnum sín eigin fyrirtæki til að fá annað og hærra verð til millifærslu. Ég ítreka fyrirspurn hv. 8. landsk. þm. um þessa hluti og hvort það sé raunverulega þannig að miðað sé við erlenda söluverðið eða hvort miðað sé við það verð sem fiskverkandinn borgar viðkomandi viðskiptabátum. Það urðu nokkrar umræður um þetta í lok fundar hjá okkur í gær í sjútvn. Það væri gaman að fá hjá ráðherra frekari upplýsingar hér um.

Að sinni vil ég nú ekki lengja þessa umræðu og lýk því máli mínu.

Umr. frestað.