23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það verður ekki sagt að það hafi tekið langan tíma fyrir hv. samgn. að fjalla um þetta mál. Nákvæmlega einn og hálfan tíma tók það nefndina eða meiri hluta hennar að gera tillögu um að svipta eina láglaunastéttina nánast samningsrétti, taka það úr höndum flugfreyja sjálfra að semja um kaup og kjör þrátt fyrir að raunverulegar samningsviðræður hafi aðeins staðið yfir í mjög stuttan tíma milli deiluaðila. Raunverulegar samningsviðræður hefjast ekki fyrr en fyrir tæpum mánuði þrátt fyrir að kröfur flugfreyja hafi legið á borði Flugleiða síðan í byrjun júlí. Hæstv. núverandi samgrh. lá ekki svona mikið á að setja lög þegar kjaradeilur voru uppi hjá sjómönnum á árinu 1977, en þá var núverandi samgrh. sjútvrh. Það virðist ekki vera sama hver láglaunastéttin er, kjaradeila í hefðbundinni karlastétt eða hefðbundinni kvennastarfsgrein. Hinn 20. apríl 1977, þegar umræða varð um brbl. sem gefin voru út 6. sept. 1976 vegna kjaradeilu sjómanna, hafði hæstv. þáverandi sjútvrh. þetta að segja um þá kjaradeilu, með leyfi forseta:

„Ég sagði við 1. umr. þessa máls í lok umræðunnar að ég vildi upplýsa það að nokkru fyrir þinglok var mikill þrýstingur á mig og ríkisstjórnina að flytja á Alþingi frv. til lausnar þessu máli“, sagði hæstv. sjútvrh. um kjaradeiluna sem þá var uppi. Og áfram heldur fyrrv. sjútvrh.: „Ég vil aðeins bæta því við að þrátt fyrir þann þrýsting sem á mig var lagður á s.l. vori vildi ég alls ekki leggja fyrir Alþingi frv. til lausnar á þessu kjaramáli. Ég vildi láta reyna frekar á samningsleiðina“, sagði hæstv. fyrrv. sjútvrh. þá um þá deilu sem var uppi.

Ég spyr: Hvað nú, hæstv. samgrh.? Vill hæstv. samgrh., sem ég hélt að væri málsvari frjálsra samninga, - ég sé að hæstv. samgrh. situr þarna og það er ágætt - ég spyr hann, sem telur sig vera málsvara frjálsra samninga, a.m.k. tala sjálfstæðismenn þannig þegar þeim hentar: Vill hann ekki í þessu máli láta reyna til þrautar á samningsleiðina?

Nú lætur hæstv. samgrh. sér nægja að segja í greinargerð með þessu frv. að um hríð hafi verið fjallað um málið. Af hverju gerir hæstv. ráðh. með þessum hætti upp á milli stétta í landinu? Af hverju má ekki reyna áfram á samningsleiðina? Af hverju á að meðhöndla láglaunastétt eins og flugfreyjur með þessum hætti þegar samningsviðræður hafa aðeins staðið í tæpan mánuð, sem þó má segja að aldrei hafi verið raunverulegar samningsviðræður vegna þess að Flugleiðamenn gátu treyst á það eins og vanalega að ríkisstjórnin hlypi til og setti lög á flugfreyjur, - af hverju mátti ekki reyna á það lengur að freistað yrði að ná lausn með frjálsum samningum í þessu máli? Það er auðvitað óþolandi að flugfreyjur þurfi að búa við slíkar aðstæður að Flugleiðamenn geti treyst á að hlaupa til ríkisstjórnarinnar og biðja um lagasetningu þegar þeim hentar.

Rök ráðherrans í greinargerðinni með þessu frv. eru að hann sé að vernda hagsmuni ákveðinna aðila, talar um ferðamenn sem þurfi að breyta ferðaáætlunum og að kjaradeilan skerði traust á íslensku áætlunarflugi. Hann minnist ekki orði á hagsmuni flugfreyja í sinni ræðu eða greinargerð með þessu frv. Hagsmunir ferðamanna og Flugleiða virðast aðalatriðið. Og ég spyr: Er það flugfreyjum að kenna að þessi kjaradeila skerðir traust á íslensku áætlunarflugi? Nei, auðvitað ekki ef grannt er skoðað. Flugfreyjur hafa í allt sumar verið tilbúnar til viðræðna við Flugleiðamenn. Þeir töldu sig bara ekkert hafa við flugfreyjur að ræða og sögðu örugglega sem svo í sínum hópi: Við löbbum okkur bara upp í Arnarhvol og biðjum um lög á flugfreyjurnar ef þær haga sér ekki eins og við viljum.

Málið er einfalt. Ef traust á íslensku áætlunarflugi skerðist við þessa kjaradeilu geta Flugleiðamenn fyrst og fremst kennt sjálfum sér um.

Ég tel, herra forseti, að óeðlilegt sé vegna þessa frv., sem þm. er greinilega ætlað að taka afstöðu til og efalaust verður lögfest, ef stjórnarflokkarnir ná fram vilja sínum, nú á næstu klukkustundum, að afstaða sé tekin til þessa máls án þess að þm. fái að kynna sér öll málsatvik. Því tel ég nauðsynlegt að rifja upp með nokkrum orðum frv. sem flutt var á Alþingi á síðasta þingi og þinginu þar áður um að endurmat fari fram á störfum láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Því frv. hefur vissulega ekki verið vel tekið hér á hv. Alþingi, en ég sé að það er nauðsynlegt að rifja upp fyrir þm. nokkrar staðreyndir sem snerta það að endurmat fari fram á störfum og kjörum láglaunahópanna í þjóðfélaginu, að endurmat fari fram á störfum flugfreyja til að mynda.

Það var árið 1983 að fyrst var lagt fram á Alþingi frv. til laga um endurmat á störfum láglaunahópa. Flm. ásamt mér voru hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Kristín S. Kvaran og Kristín Halldórsdóttir. Ég tel ástæðu til að rifja upp um hvað þetta frv. fjallaði.

Markmið þess var að fá fram hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Félmrh. átti að skipa nefnd sérfróðra aðila í vinnumarkaðsmálum, vinnurannsóknum og starfsmati sem nefna átti láglaunanefnd. Nefndin gat kvatt sér til ráðuneytis fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, s.s. frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og aðra fulltrúa hagsmunasamtaka annarra aðila ef þörf væri á. Hún hafði einnig heimild til að láta fara fram sérfræðilegar athuganir og hafa aðgang að gögnum opinberra stofnana sem nauðsynlegar eru að hennar mati. Og ég bið hv. þm. að taka eftir því hver voru verkefni þessarar nefndar.

Það var að upplýsa hvernig raunveruleg tekjuskipting og launakjör væru innan starfsgreina og milli þeirra og virðist ekki veita af. Í öðru lagi var verkefni þessarar nefndar að skilgreina hvað er láglaunahópur og hverjir skipa slíka hópa. Í þriðja lagi að gera könnun á því og meta hvort og þá hvers vegna láglaunastörf, ekki síst hefðbundin kvennastörf, væru metin óeðlilega lágt til launa miðað við önnur sambærileg störf á vinnumarkaðnum. Samanburð átti annars vegar að gera á störfum ófaglærðra láglaunahópa og hins vegarfaglærðra. Við mat á láglaunastörfum átti að athuga sérstaklega hvort starfsreynsla og heimilisstörf væru eðlilega metin við röðun í launaflokka þegar um skyld störf á vinnumarkaðnum væri að ræða, svo sem ýmis störf er snerta umönnun, uppeldismál, matargerð, þvotta, ræstingu, þjónustu, fatasaum og þess háttar. Það átti að leggja til grundvallar í starfsmati þætti eins og ábyrgð á jafnt mannlegum sem efnislegum verðmætum, vinnuálag, áhættu, þ.m.t. vegna atvinnusjúkdóma, menntun, starfsþjálfun, starfsreynslu, hæfni, óþrifnað, erfiði og aðra þætti sem áhrif hafa á kaup og kjör. Og eitt er víst, herra forseti, að þessir þættir, sem kannske skipta láglaunafólk mestu máli, eru sjaldnast lagðir til grundvallar við ákvörðun um kaup og kjör láglaunahópanna. Í fjórða lagi átti að meta hlutdeild láglaunahópa í tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og hvort hún væri óeðlilega lág miðað við vinnuframlag þeirra. Það átti að taka sérstakt tillit til hinna ýmsu eðlisþátta vinnunnar sem eðlilegt væri að leggja til grundvallar í starfsmati og launakjörum á vinnumarkaðnum. Við þennan samanburð átti að taka með yfirborganir og alla aðra kaupauka og kjaraþætti sem áhrif hafa í hverri starfsgrein á dagvinnutekjur annars vegar og heildarlaunatekjur hins vegar. Skyldi hlutur kvenna í tekjuskiptingunni sérstaklega athugaður. Gera átti sérstakan samanburð á launum og öðrum kjörum sambærilegra láglaunahópa er starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á almenna vinnumarkaðnum hins vegar.

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu sem innlegg í þessa umræðu að rifja upp þau rök sem lágu að baki þessum frumvarpsflutningi og fram komu í greinargerð með frv., en þar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að lögfest verði tímabundið skipan láglaunanefndar sem hafi það verkefni að framkvæma hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópanna í þjóðfélaginu.

Hlutlaus úttekt og endurmat er nauðsynlegt fyrir aðila vinnumarkaðarins til að geta lagt sanngjarnt mat á vinnuframlag láglaunahópa og eðlilega hlutdeild þeirra í tekjuskiptingunni. Auk þess er sú rannsókn sem hér er gerð tillaga um forsenda þess að á raunhæfan hátt sé hægt að auka tekjur láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Einnig mundi slík rannsókn leiða í ljós hvernig launamisrétti kynjanna er háttað í einstökum starfsgreinum.

Með þessu frv. er einnig stefnt að því að fá fram upplýsingar sem eru mikilvægar fyrir stjórnvöld því að á grundvelli þeirra mætti gera sér betri grein fyrir því hvaða aðferðum sé hægt að beita til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

Gert er ráð fyrir að að fenginni niðurstöðu nefndarinnar og reynslu af störfum hennar taki Alþingi ákvörðun um hvort rétt sé að lögfesta áfram í einum eða öðrum búningi skipulegar vinnu- eða kjararannsóknir á vegum framkvæmdavaldsins. Eðlilegt verður að telja að slíkar rannsóknir séu stöðugt í gangi til þess að hægt sé að glöggva sig á því hvernig tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu er háttað hverju sinni. Í því sambandi má benda á að eitt af verksviðum félmrn., sem fer með vinnumarkaðsmál, er að hafa á hendi kjararannsóknir samkvæmt reglugerð um stjórnarráð nr. 96/1969.

Segja má að þar sem frv. þetta fjallar að meginefni til um skipan nefndar sem hafi tímabundin ákveðin verkefni væri eðlilegra að flytja um það þáltill. En á Alþingi hefur þegar verið flutt till. til þál. um að framkvæmdavaldið skuli láta fara fram kjararannsóknir og úttekt á launakjörum í þjóðfélaginu.“

Herra forseti. Ég sé ástæðu til í tilefni af því sem ég var að enda við að segja, að hér hafi verið samþykkt tillaga á Alþingi um að það fari fram úttekt á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, að formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., verði viðstaddur þessa umræðu og mun ég gera hlé á máli mínu. (Forseti: Það verður gerður reki að því að hæstv. fjmrh. verði hér viðstaddur.)

Ég sé að hæstv. fjmrh. heiðrar okkur með nærveru sinni. Ég vil rifja það upp, af því að hæstv. fjmrh. var ekki hér áðan, að ég var að greina frá rökum sem lágu að baki því að flutt var hér frv. til laga um endurmat á störfum láglaunahópanna og lét þess getið að rökin sem á bak við það voru voru til að mynda þau að á Alþingi var 28. apríl 1980 samþykkt þáltill. um að úttekt skyldi gerð á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Ég minnist þess nefnilega að á síðasta þingi datt hæstv. núverandi fjmrh., formanni Sjálfstfl., í hug að rétt væri að setja á laggirnar nefnd sem gera átti úttekt á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Áður en þingi var slitið í júní á þessu ári var síðan skipuð umrædd nefnd og öllum stjórnarflokkum og stjórnarandstöðuflokkum boðið að tilnefna fulltrúa í ráðgjafarnefnd ásamt fleiri aðilum sem var gefinn kostur á slíku, en þessi ráðgjafarnefnd átti að starfa við hlið nefndarinnar. Ég var skipuð fulltrúi míns flokks í þessa nefnd á liðnu sumri, en ég hef aldrei verið boðuð á fund í þessari nefnd sem formaður Sjálfstfl. og núverandi fjmrh. taldi svo brýnt að skipa og taldi að mikið lægi við að úttekt færi fram á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh., og óska svara við því áður en þessari umræðu lýkur, hvort hann geti upplýst þingheim um störf þessarar nefndar, ekki síst af því að það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvaða óréttlæti þrífst hér í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og hve launamismunur milli kynjanna er mikill. Launakjör flugfreyja eru ein staðfesting á því og því hlýtur að vera brýnt að hraða störfum þessarar nefndar eins og kostur er. Það gefur ekki tilefni til þess að ætla að hratt verði unnið í þessari nefnd þegar ekki hefur verið talin ástæða til frá því snemma í sumar að kalla til þessa ráðgjafarnefnd. Því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Ég mun nú halda áfram að gera grein fyrir þeim rökstuðningi sem þarna lá að baki að fram færi endurmat á störfum láglaunahópanna í þjóðfélaginu.

Það er nefnilega ljóst að þrátt fyrir þessa viljayfirlýsingu löggjafarvaldsins, sem í ályktun Alþingis fólst, hefur ekkert verið aðhafst til að koma henni í framkvæmd. Þessi ályktun, sem samþykkt var á Alþingi, hefur verið ítrekuð hér með fyrirspurn til félmrh. um hvað liði framkvæmd hennar, en allt hefur komið fyrir ekki. Einnig má benda á að á 104. löggjafarþingi flutti til að mynda Guðrún Helgadóttir alþm. þáltill. um endurskoðun starfsmats fyrir ríkisstarfsmenn og starfsfólk í ríkisbönkunum, en sú till. náði ekki heldur fram að ganga. Því var rökstuðningurinn á bak við flutning þessa frv. að lögbinda þyrfti að kjararannsóknir og endurmat, sem lagt var til í ályktuninni, yrði framkvæmt. Valin var sú leið í þessu frv. að taka fyrir sérstaklega kjör láglaunahópanna og sérfróðum aðilum falin rannsókn og endurmat á störfum og kjörum þessara hópa. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að fá fram mat sérfróðra aðila á því hvort störf láglaunahópanna, og þá ekki síst hefðbundin kvennastörf í þjóðfélaginu, væru óeðlilega lágt metin miðað við önnur sambærileg störf á vinnumarkaðinum. Sérstaklega átti að athuga hvort nægilegt tillit væri tekið til ýmissa krefjandi eðlisþátta í vinnuframlagi láglaunahópanna í ákvörðun á kauptöxtum og í flokkaröðun.

Í rökstuðningi með frv. var því einnig haldið fram að nauðsynlegt væri að fá fram samanburð og mat á því hvort ekki hafi þróast hér óeðlilegt tekjubil milli starfsstétta í þjóðfélaginu, þ.e. hvort launakjör einstakra hálaunastétta eða hærra launaðra stétta í þjóðfélaginu séu í eðlilegu samræmi við kjör láglaunahópanna og vinnuframlag þeirra til þjóðarbúsins. Einnig var lagt til að fá fram samanburð á launum og öðrum kjörum ríkisstarfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði. Þó að það hafi ekki verið sett á verkefnaskrá þessarar nefndar kom fram í grg. með frv. að æskilegt væri, væri þess kostur, að fá fram hver þróunin hefur verið í tekjuskiptingunni almennt og milli kynja á undanförnum árum, til að mynda á tíu ára tímabili.

Flm. þessa frv. var vissulega ljóst að það mat og sú rannsókn, sem frv. felur í sér á störfum láglaunahópanna, var langt frá því að vera auðvelt í framkvæmd. Það var engu að síður skoðun flm, að hér væri um knýjandi og brýnt viðfangsefni að ræða og stjórnvöldum bæri skylda til að sjá svo um að þessi tilraun væri gerð og hlutlausir aðilar með þekkingu á vinnumarkaðsmálum, vinnurannsóknum og starfsmati væru fengnir til starfans.

Með þessu frv. var á engan hátt verið að ganga fram hjá aðilum vinnumarkaðarins enda til þess ætlast að þeir yrðu kallaðir til ráðuneytis um slíka rannsókn. Flm. voru þeirrar skoðunar að slík rannsókn væri bæði fljótvirkari og síður hlutdræg ef hún væri í höndum sérfróðra aðila sem betri aðstöðu hefðu til að leggja hlutlægt mat á verkið. Væri slík nefnd skipuð aðilum vinnumarkaðarins væri viss hætta á að hver færi að toga í sinn spotta og ekki fengjust hlutlægar niðurstöður úr slíkri rannsókn ef niðurstaða fengist þá yfirleitt.

Á annað var einnig bent í þessum rökstuðningi. Áratugum saman hefur verið um það deilt hvaða hópar í þjóðfélaginu séu láglaunahópar og lágtekjuhópar. Hefði eining tekist um það milli aðila vinnumarkaðarins lægi sú skilgreining fyrir og þá væri auðveldara að ákveða hvaða aðferðum hægt væri að beita til að hækka laun og tekjur láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Ein ástæða þess að slík skilgreining hefur ekki fengist er að ekki hefur verið kannað ítarlega í öllum starfsgreinum hvað yfirborganir og aðrir kaupaukar og kjaraþættir utan hins eiginlega kauptaxta eru ákvarðandi hluti dagvinnutekna eða heildarlaunatekna í einstökum starfsgreinum.

Í frv. var nefndinni ekki sett nein viðmiðun í starfi sínu um hvernig eða með hvaða hætti hún skyldi skilgreina láglaunahópana enda eðlilegra að viðmiðunarmörk séu í höndum sérfróðra aðila.

Á það var bent, herra forseti, í þessum rökum með grg. að um væri að ræða erfitt, viðkvæmt og vandasamt verkefni, en engu að síður væri það orðið knýjandi og brýnt að í það væri ráðist. Var á það bent að ef vel tækist til hjá nefndinni gæti niðurstaða hennar orðið grundvöllur þess að láglaunahóparnir fengju réttlátt mat og sanngjörn laun fyrir sín störf. Auk þess hefði niðurstaða nefndarinnar mikið upplýsingagildi og gæti verið leiðbeinandi við gerð kjarasamninga og þær ráðstafanir sem gerðar eru til að bæta kjör hinna lægst launuðu.

Þegar mál þetta kom á dagskrá þessarar hv. deildar hélt ég um það mjög ítarlega framsöguræðu og benti á tvö sláandi dæmi um það hvernig kjör og aðbúnaður sumra er í þjóðfélaginu. Ég tel rétt, þegar við erum að fjalla hér um kjaramál, launakjör, að rifja upp þessi dæmi sem ég nefndi í minni framsöguræðu á sínum tíma. Vil ég fá að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Við höfum það fyrir okkur víðs vegar í þjóðfélaginu hve hrikalegur munur er á lífskjörum og fjárhagslegri aðstöðu manna. Ég get nefnt dæmi af Dagsbrúnarmanninum sem kom að máli við forustumenn Dagsbrúnar og spurði þá hvort þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hvað væri að gerast í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og um leið hvernig þeir ætluðu Dagsbrúnarverkamanni að lifa af þeim 60 kr. á tímann sem þeir semdu um fyrir þá. Hann sagðist vinna myrkranna á milli til að eiga fyrir allra brýnustu framfærslu heimilisins, en það dygði hvergi til og svo mikill væri vinnuþrældómurinn að allt eðlilegt fjölskyldulíf færi forgörðum. Hann átti enga orku til að sinna börnum og heimili að loknu dagsverki. Hann tók samanburð og sagðist vinna þessa dagana við að koma upp vestur á Seltjarnarnesi nuddpotti sem vantaði við hlið sundlaugar sem fyrir var úti í garði hjá einum af mörgum velmegunarpostulum þjóðfélagsins. Hann svimaði hreinlega þegar hann kom inn í híbýli þessa manns þar sem allt var í marmara, kristal og harðviði. Hvernig er tekjuskiptingu þessa þjóðfélags eiginlega háttað? spurði hann. Hvað ætlið þið okkur verkamönnunum eiginlega með þessum sultarlaunum sem þið semjið um fyrir okkur, spurði hann forustumann í sínu verkalýðsfélagi, sem hvorki duga til þess að við getum klætt né brauðfætt okkar fjölskyldu, þrátt fyrir mikinn vinnuþrældóm við að koma upp nuddpottum í görðum þeirra sem leyft geta sér slíkan munað vegna þess aðstöðumunar og þess fyrirkomulags tekjuskiptingar sem þjóðfélagið hefur búið þeim? Þessi maður var ekki að biðja um nuddpott. Hann var aðeins að biðja um að eiga fyrir framfærslu og nauðþurftum sinnar fjölskyldu.

Ég skal taka annað dæmi. Í dagblaði fyrir skömmu lýsti einstæð móðir með tvö börn því hvernig væri að framfleyta sér af kaupi sem hún hefur, en hún vinnur eitt af þessum hefðbundnu kvennastörfum. Hún lýsir því hvernig hún vann á spítala allan daginn. Hún lýsir því hvernig hún þurfti að neita sér um ýmislegt sem telja verði til nauðþurfta í mat í þjóðfélaginu, svo sem kjöt og grænmeti. Þessi einstæða móðir sagði - og vitna ég til hennar orða: „Svo segja menn að við verðum að spara.“ Og hún spyr réttilega: „Spara hvað? Þetta var of mikið fyrir mig," sagði hún. „Taugarnar gáfu sig í vinnunni einn daginn. Það var trúlega heppni að ég vann á spítala því að ég var lögð beint inn og var þar í hálft ár.“ Hún lýsir kjörum sínum með eftirfarandi hætti:

„Það sem ég verð að gera til að framfleyta börnunum er að standa í biðröð hjá Félagsmálastofnun og vera ein af þessum lýð sem rænir og ruplar fé af skattborgurunum. Maður getur ekki litið framan í fólk vitandi það að maður sé að éta það út á gaddinn. Þessi biðröð er ekki skemmtileg og það eru margir sem brotna þar niður. Það gerði ég líka.“

Og hún heldur áfram og segir: „Þegar hið opinbera er komið með fólk á laun við það að benda konum eins og mér á að við verðum bara að gefa börnin því að við getum þetta ekki, þá er von að mann langi til að gubba þegar maður sér þessa karla sem lifa sældarlífi og segja manni að spara og spara. Ég var oft komin á fremsta hlunn með að fara heim til ókunnugs fólks, sem ég vissi að hafði nóg, og biðja það að selja t.d. einn af bílum sínum svo að ég þyrfti ekki að gefa börnin mín.“

Við skulum taka aðra reynslusögu af einstæðri móður sem sagði eftirfarandi á ráðstefnu Sambands Alþýðuflokkskvenna um launamál: „Erfiðleikarnir hrönnuðust upp meðan ég gekk með seinna barnið. Ég hafði góða menntun til skrifstofustarfa og vann hjá einu stærsta útgerðarfélagi hér í borginni. Svo vill til að við vorum þrjú sem unnum þarna og vorum einstæðir foreldrar, tvær konur og einn karlmaður. Ef við stúlkurnar þurftum að vera heima vegna veikinda barna okkar vorum við spurðar hvort við ætluðum að vinna það af okkur eða taka launalaust leyfi. Slíkar spurningar voru aldrei lagðar fyrir karlmanninn undir sömu kringumstæðum. Og þegar ég varð að taka frí til að eignast stúlkuna, þá óskaði skrifstofustjórinn eftir því að ég kæmi ekki aftur. Stúlka með tvö börn væri ekki æskilegur starfskraftur. Því hófst þriggja mánaða leit að vinnu þegar ég kom af fæðingardeildinni. Niðurstaðan var alls staðar sú sama. Kona með tvö ung börn væri ekki starfskraftur sem þeir leituðu að. Við bættist einnig að á miðju sumri var mér sagt upp húsnæði og þegar allt um þraut fékk ég inni hjá Félagi einstæðra foreldra í Skerjafirði.“

Herra forseti. Við erum í þessum umræðum að fjalla um eina af þessum hefðbundnu kvennastarfsgreinum. Miklar umræður hafa farið fram víða í þjóðfélaginu um ástæður þess að kjör í hefðbundnum kvennastarfsgreinum eru svo léleg sem raun ber vitni. Um þetta fjallaði ég einnig þegar ég mælti fyrir þessu frv. þar sem ég benti á ákveðin rök í þessu máli sem ég tel ástæðu til að rifja hér upp, með leyfi forseta. 31. okt. 1983 kom eftirfarandi fram á Alþingi:

„Á ráðstefnu þessari, sem ég vitnaði til áðan og Samband Alþýðuflokkskvenna hélt fyrir stuttu, gerði Kristinn Karlsson félagsfræðingur því nokkur skil hvers vegna hefðbundin kvennastörf væru metin til lægstu launa í þjóðfélaginu, en hann hefur staðið fyrir könnun um jafnréttismál. Hann sagði að settar hefðu verið fram kenningar um tvöfaldan vinnumarkað og aðskilinn vinnumarkað. Kristinn sagði að sér vitanlega hefðu ekki farið fram rannsóknir á vinnumarkaðinum hér á landi þar sem aðskilnaður starfa eftir kyni hefði verið athugaður. Hann sagði þó óhætt að fullyrða að skipting starfa í karla- og kvennastörf væri almenn og skýr eins og í öðrum þróuðum iðnríkjum.

Sagði hann m.a. að bandaríski hagfræðingurinn Mary Stevenson héldi því fram að í aðskilnaði starfa kynjanna á vinnumarkaðinum sé að leita stærstu skýringa á lágum launum kvenna. Stevenson beitir m.a., til að skýra hvernig aðskilnaður starfa fer fram, tilgátu sem fram kom í Englandi á 3. áratug þessarar aldar. Skv. henni er því haldið fram að aðalástæðan fyrir lágum launum kvenna sé að þeim sé beint í mjög takmarkaðan fjölda starfa og þeim sé í raun meinaður aðgangur að öllum öðrum störfum. Vegna þess að konur séu í samkeppni um þessi fáu störf, sem þær eru taldar hæfar til að gegna, sé launum þeirra haldið niðri. Mun fjölbreyttara úrval starfa tilheyrir körlum. Þeir eru verndaðir fyrir samkeppni um störf við vinnandi konur.

Kristinn Karlsson sagði á ráðstefnunni að Mary Stevenson segði að þótt krafan um sömu laun fyrir sömu vinnu sé mikilvæg snerti hún ekki nema lítinn flöt á miklu stærra máli sem er launamisrétti kynja í milli. Kynjaaðskilnaðurinn á vinnumarkaðinum er raunverulega vandamálið að baki hinum lágu launum kvenna. Það virðist sem hvenær sem hægt sé að einangra konur innan takmarkaðs fjölda starfa og atvinnugreina sé afleiðingin lág laun þeirra.“

Ég vitnaði til þess að það kom fram í Svíþjóð hvaða áhrif það hafði þegar sú þróun átti sér stað að karlmenn fóru að sækja meira inn í hin hefðbundnu kvennastörf. Þá breyttust launakjörin fljótlega til batnaðar. Talið var að skýringuna mætti rekja til þess að karlmenn hefðu fljótlega verið valdir inn í stjórnir félaganna og samninganefndir og þeir hefðu ekki látið bjóða sér þau kjör sem konur hefðu haft. Einnig sagði að þessu hefði verið þveröfugt farið í hefðbundnum karlastörfum sem kvenfólk fór að sækja mikið inn í. Karlmenn hefðu þá í töluverðum mæli hætt störfum og um leið hefðu launakjörin versnað. Þetta rennir líka stoðum undir að konur séu alls staðar í heiminum notaðar sem ódýrt vinnuafl þegar talið var að á árinu 1980 að konur ynnu 75% allrar vinnu í heiminum - þar er átt við launaða og ólaunaða vinnu - en þægju aðeins 10% allra launa og ættu aðeins 1% allra eigna.

Herra forseti. Nú þegar taka á samningsréttinn af flugfreyjum og meina þeim að semja um kaup sitt og kjör er athyglisvert að minna á það sem fram kom á Alþingi 31. okt. 1983 hjá einum sjálfstæðismanni, hv. varaþm. sem þá sat inni, Guðmundi H. Garðarssyni. Hann hafði skilning á því að ekki væri rétt að leysa mál er varðaði kaup og launakjör hér inni í sölum Alþingis. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði, með leyfi forseta - og var hann þá að fjalla um það frv. sem ég hef áður vitnað til um endurmat á störfum láglaunahópanna:

„Í því frv., sem hér liggur fyrir, er komið inn á mjög stórt mál og viðkvæmt. Þess vegna er ekki alveg sama hvernig þetta mál er kynnt á Alþingi né fyrir þjóðinni. Ég verð því miður að segja að ég var ekki nægilega ánægður með það hvernig hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði þetta mál fyrir hv. Alþingi. En áður en ég vík máli mínu að því vil ég fara örfáum orðum um það sem hæstv. félmrh. sagði hér áðan. Hann sagði að það væri undrunarefni að aðilar vinnumarkaðarins skuli ekki hafa upplýsingar um þetta efni, þ.e. um stöðu laglaunahópanna í landinu. Ég held að þessi ummæli ráðherrans séu á miklum misskilningi byggð eða hann hafi ekki fengið réttar upplýsingar þar sem hann leitaði þeirra, fyrir utan það að hér er um augljóst mál að ræða.

Það skiptir ekki meginmáli eða ræður úrslitum um stöðu þessa fólks hvort meiri eða minni upplýsingar liggja fyrir á pappírum eða í skýrslum vegna þess að þeir sem þekkja til þessara mála til hlítar og hafa fjallað um þau í áratugi - þar á ég við aðila vinnumarkaðarins annars vegar, verkalýðsfélögin, og hins vegar vinnuveitendur - vita hvar láglaunafólkið er að finna í landinu. Það eru ekki upplýsingar sem vantar endilega þótt ég út af fyrir sig geti mælt með því að þetta endurmat eigi sér stað sem frv. gerir ráð fyrir.

Það eru ekki upplýsingar sem vantar. Það sem vantar er að það sé réttur skilningur í íslensku þjóðfélagi á stöðu láglaunafólks og einnig stöðu þeirra manna sem þurfa að semja um kaup og kjör þessa fólks. Það eru ekki aðeins foringjar eða forustumenn verkalýðshreyfingar eða vinnuveitendur sem fjalla um þessi mál heldur ríkið sjálft. Það þarf því ekki að fara langt til að komast að raun um hvar láglaunafólkið er. Og það fer ekki eftir kyngreiningu hvort maður er láglaunamaður eða ekki.

Ég vil leyfa mér að orða það eitthvað á þessa leið: Leiðin frá þessu fólki til hv. Alþingis er of löng. Það mætti e.t.v. mæla þessa leið í árum. Þegar ég tala um að mæla þessa leið í árum mæli ég hana miðað við kosningar. Þetta mál, umhyggjan fyrir láglaunafólki, er yfirleitt alltaf ofarlega á baugi hjá stjórnmálamönnum fyrir hverjar kosningar. Hér erum við því kannske að fjalla um mál sem stjórnmálamenn vilja taka þátt í að leysa fjórða hvert ár.

Ég er þeirrar skoðunar að það séu litlar líkur á því að stöðu og afkomu láglaunafólks á Íslandi verði bjargað í sölum Alþingis. Nægir að benda á það að hér í hv. sölum Alþingis hafa kjör þessa fólks verið skert í gegnum árin og áratugi og nægir núna t.d. að geta þess að afnám samningsréttar hjálpar ekki til að skapa mönnum stöðu til að bæta afkomu launafólks.“

Hæstv. félmrh. hafði vissulega skilning á þessu máli í þessari umræðu en hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég tel ástæðu til að segja hér örfá orð. Í fyrsta lagi að ég vil lýsa stuðningi við þetta frv. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem er vert að fylgja eftir með raunhæfum aðgerðum. Það er mín skoðun að slík könnun og niðurstaða hennar sé í raun lykilatriði til að hægt sé að mæta vanda þeirra þjóðfélagsþegna sem verst eru settir hverju sinni í þjóðfélaginu. Það má segja að það sé nokkurt undrunarefni eins og við höfum hér sterk samtök á vinnumarkaðinum, bæði atvinnurekenda og launþega, og stofnanir á þeirra vegum að það skuli vera svo í dag að slíkar upplýsingar eða a.m.k. verulegur hluti af þeim upplýsingum, sem hér eru nefndar, skuli ekki vera til staðar. Ég held að það sé alveg ljóst að það skortir mjög á upplýsingar um vinnumarkaðinn hér á landi og við erum langt á eftir öðrum þjóðum hvað þetta snertir, bæði hvað varðar launakjör og eins þau atvinnutækifæri sem víðs vegar eru á okkar vinnumarkaði. Ég tel mjög brýnt að setja þessi mál í fastara form. Það er raunar eitt af því sem ég varaði við þegar ég kom í félmrn. að þar er fyrir hendi sérstök deild, vinnumáladeild, sem á skv. reglugerð að hafa með þessi mál að gera, en hún hefur því miður frá því að hún varð til verið lítt skipuð starfsliði. Þar hefur aðeins verið einn starfsmaður sem hefur aðeins getað sinnt mjög einangruðu verkefni. Þessu þarf að breyta. Ég tel að það sé einn liður í þessum málum almennt að svo verði gert og það er þegar byrjað að vinna að þessu verkefni.

Ég vil þó geta þess hér að ríkisstjórnin fór fram á það við Þjóðhagsstofnun s.l. sumar að láta gera slíka úttekt eða hluta af þeirri úttekt sem hér er til umfjöllunar og að því hefur verið unnið. Það er nýlega kominn fram fyrsti hluti þessarar úttektar sem er unninn hjá ríkisskattstjóraembættinu. Þetta er fróðleg skýrsla og getur orðið verulega til bóta fyrir það verk sem slík nefnd, sem hér er verið að leggja til, mun vinna að, ekki síst þar sem framhald verður á því. En það vantar ýmislegt í okkar skattakerfi, eins og réttilega kom fram hjá hv. frsm., sem geri þessa skilgreiningu nægilega ljósa.

Ég hef velt því fyrir mér hvernig stendur á því að stofnun eins og kjararannsóknarnefnd skuli ekki geta gefið út ákveðnar upplýsingar um vinnumarkaðinn að því er varðar sérstaklega láglaunahópana í þjóðfélaginu. Ég hef leitað eftir því formlega hvers vegna, en ekki fengið viðhlítandi svör. En eins og ég sagði áður finnst mér ákaflega furðulegt að við skulum þurfa að búa við það, ef okkur vantar upplýsingar sem eru mikilvægar í því skyni að rétta kjör vinnandi fólks eða láglaunafólks í landinu, að það skuli ekki vera hægt að fá þær á fljótvirkan hátt eða með auðveldum hætti. Þessu þarf að ráða bót á og ég tel sjálfsagt að allir hljóti að vera sammála um gildi þess. Það hefur ekki svo lítið að segja, þegar menn eru sammála um að rétta hlut þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu eða verst settu, að hægt sé að ganga að ákveðnum staðreyndum sem hægt er að miða aðgerðir við.

Nú vil ég geta þess hér, fyrst ég er kominn hingað í ræðustól, að fyrrv. ríkisstjórn skipaði sérstaka nefnd til að gera könnun á stöðu einstæðra foreldra í landinu. Þessi nefnd hefur unnið mikið starf og ég hef nýverið samið um það við félagsmáladeild Háskóla Íslands að taka að sér hluta af þessari könnun í samráði við nefndina, þ.e. að safna ýmsum upplýsingum um stöðu þessa fólks.“

Í lokin sagði hæstv. ráðherra: „Ég vil svo aðeins endurtaka það að ég tel að hér sé um mjög þarft mál að ræða og ástæða sé fyrir Alþingi að taka undir með flm. og koma þessu máli á það stig sem ætlast er til með þessu frv.“

Ég tel, herra forseti, að skoðun Alþfl. hafi verið mjög skýr í þessu máli varðandi það hve brýnt væri að endurmat færi fram á störfum láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Það er skoðun Alþfl., eins og reyndar kom fram í þeirri umræðu sem varð á Alþingi um þetta frv. 9. nóv. 1983, að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja um kaup sín og kjör. Ég vil í þessu sambandi vitna í orð formanns Alþfl., Jóns Baldvins Hannibalssonar, en hann sagði við þá umræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„A.m.k. má á það benda að við erum að mótmæla því hér, stjórnarandstæðingar - og stjórnarliðar eru í vaxandi mæli að taka undir það með okkur - við erum að mótmæla því að verkalýðshreyfingin hafi verið svipt samningsrétti.“ En inn í umræðu um endurmat á störfum láglaunahópanna blandaðist það mál sem þá var uppi á sínum tíma. Og áfram sagði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson:

„Við erum m.ö.o. að segja: Látið þið aðila vinnumarkaðarins um að semja um kaup og kjör um leið og vísitölukerfið er afnumið og aðstæður í þjóðfélaginu eru þannig að kjarasamningar snúast fyrst og fremst um tekjuskiptingu launþega innbyrðis og endurúthlutun á því. Við teldum alveg sjálfsagt að segja einmitt við þær kringumstæður: Nú er komið að því að verkalýðshreyfingin sem slík neyti réttar síns til frjálsra kjarasamninga til að stokka upp úrelt launakerfi, draga úr launamismun og sýna í verki að hún sé til þess bær og fær að rétta hlut láglaunafólksins í frjálsum kjarasamningum. Þetta er auðvitað sú leið sem ríkisstjórnin átti að fara. Þetta er sú leið sem við mælum með. Það er margt sem bendir til að þessari skoðun vaxi fylgi á þingi. Við vitum það ekki enn þá.“

Það liggur því alveg ótvírætt fyrir hver skilningur og vilji Alþfl. er í þessu efni.

Herra forseti. Ég gat áðan um þá ályktun sem Alþingi samþykkti fyrir 4-5 árum um að kannanir færu fram á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir að þessi till. hafi verið samþykkt, að því er ég best veit, mótatkvæðalaust hér í Sþ. hefur hún enn ekki komið til framkvæmda. Þannig hundsar nú framkvæmdavaldið vilja Alþingis. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa þá ályktun sem Alþingi samþykkti í þessu máli um nauðsyn úttektar á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu, en hún var samþykkt þannig frá hv. Alþingi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta framkvæma ítarlegar kannanir á launakjörum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu sem mættu verða grunnur að sanngjarnari tekjuskiptingu og hagkvæmara launafyrirkomulagi. Kannanirnar skulu sérstaklega miðast við að gera grein fyrir hvort vissir hópar hafi ekki öðlast þá hlutdeild bætts þjóðarhags sem almennt geti talist réttmæt og skulu þannig unnar að á grundvelli þeirra megi ákveða hvaða aðferðum hægt sé að beita til að auka laun og tekjur þeirra einstaklinga eða hópa sem verst eru settir.

Í könnunum þessum skal m.a. hafa hliðsjón af því að upplýsa eftirtalda þætti:

1. Að fyrir liggi á einum stað, þar sem tölfræðileg tölvuúrvinnsla er möguleg, allar upplýsingar um lífskjör og kjaramál er máli skipta og nauðsynlegar eru til tölfræðilegrar greiningar hverju sinni og seinni liðir ályktunarinnar fjalla um.

2. Að framkvæma tölfræðilegan samanburð á hvers konar kjaraatriðum - í hvaða formi sem þau eru látin í té - innan og milli starfsgreina, fyrirtækja, stofnana, verkalýðsfélaga, atvinnuvega eða byggðarlaga.

3. Að rannsaka forsendur flokkaskipunar og annarra kjaraatriða hinna margvíslegu kjarasamninga, þ.e. að meta vægi hinna ýmsu eðlisþátta vinnunnar eða annarra áhrifaþátta með vinnurannsóknum, t.d. a) ábyrgðar, b) áhættu, c) hæfni, d) lífaldurs, e) prófa, f) starfsaldurs, g) starfsreynslu, h) streitu, i) óþrifnaðar, j) viðhorfa, k) þekkingar, I) erfiðis og fleiri þátta sem að gagni mættu koma.

4. Að upplýsa hlutfall hinna ýmsu launakerfa í launakjörum almennt þannig að hægt sé að sjá hvaða þáttur launakjara sé mest ákvarðandi um launakjör hverrar starfsstéttar, svo sem dagvinnutaxtar, yfirvinnutaxtar, afkastahvetjandi launataxtar, yfirborganir og aðrar duldar greiðslur eða kjaraþættir.

5. Að upplýsa hvernig aldurs- og kynskipting sé eftir launatöxtum, yfirborgunum og starfsgreinum.

6. Að rannsaka hvort og hvers vegna sumir hópar eru verr í stakk búnir til að ná fram bættum lífskjörum í gegnum almenna kjarasamninga og á sama hátt að rannsaka hvers vegna öðrum hópum hefur tekist að ná mun betri kjörum en almennt þekkist í landinu.

7. Að meta heilsufræðileg, félagsleg og hagfræðileg áhrif hinna mismunandi launakerfa og vinnuaðstæðna. 8. Að athuga hvort víðar sé hægt að koma við að skaðlausu afkastahvetjandi launakerfum, t.d. hjá hinu opinbera.

9. Að leita skýringa ef um marktækan mismun er að ræða milli launakjara einstakra byggðarlaga, atvinnuvega, verkalýðsfélaga, starfsgreina eða ólíkra rekstrarforma í atvinnurekstri.

10. Að kanna hvort brögð séu að því að launamisrétti sé falið í stöðuheitum.

11. Að athuga hvort uppbygging launataxta og annarra launakjara kalli fram mismun í kjörum karla og kvenna, t.d. vegna aðildar að mismunandi verkalýðsfélögum.

12. Að kanna hvaða áhrif skert starfsgeta eða starfsþrek hefur í reynd á eðlilega tekjuskiptingu í þjóðfélaginu - og í hvað ríkum mæli hún er ákvarðandi um lífskjör - þegar önnur atriði eru sambærileg.“

Hér var vissulega um mikilvægt mál að ræða sem Alþingi afgreiddi samhljóða sem ályktun þingsins þó að vissulega komi hún ekki að gagni nema framkvæmd sé. Þessari till., sem samþykkt var frá Alþingi, fylgdi eftirfarandi rökstuðningur, með leyfi forseta:

„Mikill meiri hluti efnahagslegra ákvarðana, sem teknar eru á Alþingi og í ríkisstjórn, miðar að því að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Slík vinnubrögð eru og í fullu samræmi við álit stórs hluta þjóðarinnar um framkvæmd á grundvallarhugmyndum um þjóðfélagslegt réttlæti.

Næg atvinna síðustu áratugi hefur útrýmt almennri fátækt. Stefnan í menntamálum hefur og valdið því að alþýðufólk hefur með aukinni menntun náð fram aukinni verðmætasköpun og þannig aukið tekjur sínar og þjóðarinnar. - Þá má og nefna breytingar sem gerðar hafa verið í skatta-, almannatrygginga- og félagsmálum sem hafa haft áhrif í þá veru að bæta stöðu vissra hópa í þjóðfélaginu, svo sem barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja.

Margt er þó sem bendir til þess að ekki sé nóg að gert og enn má finna hópa í þjóðfélaginu sem bæði hafa lág laun og litlar tekjur.

Hið opinbera getur bætt hér úr með aðgerðum á sviði skatta-, félags- og atvinnumála, en til þess að slíkt verði gert á sem árangursríkastan hátt þarf að liggja fyrir hver vandinn er og hvers eðlis. - Þá er ekki síður mikilvægt í þessu sambandi að um það hefur ekki verið eining á vinnumarkaðinum hverjir teljast skuli til láglaunahópa og hverjir til lágtekjuhópa. Auðvitað verður ekki úr því skorið í rannsókn sem þessari, en hins vegar ætti með slíkri rannsókn að skapast grundvöllur til raunhæfari umræðna og ákvarðana en nú á sér stað.

Markmið þessa tillöguflutnings er margþætt og afrakstur hennar, ef samþykkt og framkvæmd yrði, margnýtilegur á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins. - Þó hér virðist við fyrstu sýn um ærið yfirgripsmikil, torleyst og umdeilanleg atriði að ræða þá er þekking á þeim alger forsenda fyrir því að efnahags- og kjaramálum verði stjórnað af einhverri skynsemi og sanngirni, með einhverjum árangri og án alvarlegra árekstra.

Það er engum blöðum um það að fletta að kaup og kjör eru höfuðdeilumál sérhvers iðnvædds samfélags og sanngjörn uppbygging og þróun kjaramála forsenda réttmætrar skiptingar og hlutdeildar þjóðfélagsþegnanna í bættum þjóðarhag, auk þess sem slíkt tryggir vinnufrið, vaxandi atvinnuuppbyggingu í þjóðfélaginu og heilbrigt efnahagslíf.

Oft skortir líka í öllum umræðum um kjaramál alla sanngirni og þekkingu vegna þess að staðreyndir hafa ekki legið fyrir til að draga réttmætar og sanngjarnar ályktanir af þróun þessara mála undanfarna áratugi.

Slíkar kannanir og rannsóknir, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir, hafa að einhverju leyti verið framkvæmdar, en í of litlum og sundurlausum mæli til að á þeim megi byggja. - Slíka yfirgripsmikla könnun og rannsókn, sem till. gerir ráð fyrir, er varla á færi aðila vinnumarkaðarins að framkvæma. Liggur því næst við að ætla að hún verði framkvæmd á vegum stjórnvalda og á þeirri forsendu er till. þessi flutt. Einnig má benda á að í lögum um stjórn efnahagsmála, í kaflanum um samráð stjórnvalda við samtök launafólks á sviði efnahagsmála, segir í 5. gr. að verkefni samráðs þessa skuli m.a. vera að fjalla um atriði sem horfa til framfara á sviði atvinnu-, verðlags-, kjara- og launamála og efnahagsmála almennt. - Má því ætta að slíkar upplýsingar hljóti að verða mjög hagnýtar og ómetanlegar við ýmsa sameiginlega ákvarðanatöku, bæði hjá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins.“

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur haft á því mjög góðan skilning hér á hv. Alþingi að gera þyrfti samanburðarkannanir á launum kvenna og karla í þjóðfélaginu. Það var á Alþingi 13. nóv. 1984 að ég lagði fyrir hæstv. forsrh. eftirfarandi fsp.:

„Er forsrh. tilbúinn að beita sér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að samanburðarkannanir verði gerðar á launakjörum kvenna og karla í öllum starfsstéttum, jafnt á launatöxtum sem öðrum kjaraþáttum, og að niðurstöður liggi fyrir í lok samningstímabils á vinnumarkaðnum?"

Í svari hæstv. forsrh. við þeirri fsp., en fsp. þessi var lögð fram 27. mars 1984, kom fram, með leyfi forseta: „Í raun og veru gæti ég látið nægja sem svar við þessari fsp. eitt já. Ég er tilbúinn að beita mér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að samanburðarkannanir, eins og um er spurt, verði gerðar.“

Ég tel ástæðu til þess að vitna í það sem hæstv. forsrh. sagði þegar aftur var fjallað um þetta mál 13. nóv. þegar ítrekað var hvort hann ætlaði að standa við gefin fyrirheit frá því fyrr um árið, en þá sagði hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson:

„Eins og fram kom í ræðu hv. þm. og fyrirspyrjanda urðu umræður um þetta mál hér á Alþingi á s.l. vetri eða vori og ég játaði því þá að slík athugun yrði gerð. Ég fól síðan aðstoðarmanni mínum að undirbúa þá athugun og munu hv. fyrirspyrjandi og Helga Jónsdóttir aðstoðarmaður minn hafa rætt þessi mál. Bréf kom frá hv. fyrirspyrjanda, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir hönd framkvæmdanefndar um launamál kvenna, dags. 7. maí. Var því síðan komið á framfæri við Þjóðhagsstofnun sem hefur unnið að þessu máli. Þjóðhagsstofnun upplýsir að málið sé mjög viðamikið og skal ég aðeins nefna atriði því máli til stuðnings.

Í bréfi hv. fyrirspyrjanda, sem var skrifað fyrir hönd framkvæmdanefndar, er óskað eftir því að leitað verði eftir upplýsingum um aldur einstaklinga, hjúskaparstöðu, sambúðarstöðu, börn á framfæri innan 16 ára, skólagöngu, lögheimili eða búsetu, fullt starf eða hlutastarf, stéttarfélag, atvinnugrein, heildarlaun, samsetningu launa, þar með talið fyrir dagvinnu, fyrir yfirvinnu, fyrir vaktavinnu, fyrir bónus, premíu eða aðra kaupauka, fyrir bílastyrki og önnur hlunnindi, fyrir álag umfram samningsbundinn taxta. Einnig eru nefnd nokkur fleiri atriði sem fróðlegt væri, eins og segir í bréfinu, að fá upplýsingar um. Ég er því sammála að ef þessi samanburður á að vera vel marktækur þarf að fá upplýsingar um þetta allt saman og jafnvel fleira.

Í svari Þjóðhagsstofnunar segir að Þjóðhagsstofnun hafi haft erindi þetta til umfjöllunar. Eru athuganir hennar reistar á skattaframtölum og launamiðum og felast í úrvinnslu tekna eftir starfsstéttum, kyni, hjúskaparstétt, landshlutum og atvinnuþátttöku. Þessum athugunum verður lokið á næstu vikum, en ýmis atriði um málið liggja þegar ljós fyrir.

Upplýsingar úr skattframtölum eða tiltækum tekjuskýrslum nægja ekki til samanburðarkönnunar af því tagi sem hér er stefnt að. Ástæðan er fyrst og fremst skortur á upplýsingum um vinnutíma og um störf og að starfsskilyrði séu sambærileg. Könnun af því tagi sem framkvæmdanefnd um launamál kvenna hefur gert tillögu um yrði ákaflega yfirgripsmikil og að líkindum mjög kostnaðarsöm. Að auki yrði sýnt að það yrði mjög erfitt að afla marktækra upplýsinga frá hópum kvenna og karla sem væru nákvæmlega sambærileg hvað varðar alla þá þætti, skilyrði til starfa og einkahagi sem ofangreind tillaga gerir ráð fyrir.

Að áliti Þjóðhagsstofnunar kemur helst til greina að reisa þessa könnun á tekjudreifðri úrtaksathugun úr skattframtölum eftir starfsstéttum sem síðan yrði fylgt eftir með viðbótarupplýsingum sem m.a. yrði aflað beint frá launþegum. Þannig mætti fá ýmsar grunnupplýsingar með einföldum og öruggum hætti frá öllum tekjuhópum.

Þjóðhagsstofnun kveðst á næstunni geta gefið ákveðnar ábendingar um hvernig að þessu megi standa og hvaða aðilum ætti að fela slíkt verk, segir í þeirri samantekt sem aðstoðarmaður minn hefur tekið saman að höfðu samráði við Þjóðhagsstofnun og byggt á upplýsingum þaðan.

Svarið er sem sagt að þessi vinna er í gangi. Mér þykir hún hafa tekið nokkuð langan tíma og ástæða til að reka þarna á eftir. En hún er í fullum gangi og verkefnið er ansi viðamikið, en á næstu vikum, eins og þarna segir, eru væntanlegar upplýsingar sem vonandi verða nokkurs virði og þá er hægt að ákveða hvernig starfinu verður haldið áfram og hvernig það verður kostað. Ég tel sjálfsagt að ljúka þessu verki og mun ganga eftir því að til þess fáist fjárveiting.“

Þetta var 13. nóv. 1984 eða fyrir tæpu ári þar sem fram kemur að hæstv. forsrh. muni ganga eftir þessu verkefni sem sé í fullum gangi og hann muni sjá til þess að fjárveiting fáist til verkefnisins.

Mér þykir miður að hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu því að ég hefði talið nauðsynlegt að hæstv. forsrh. upplýsti hv. þd. um hvað þeirri könnun líður sem hann hefur lofað að framkvæmd yrði. Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. sem mér skilst að gegni störfum hæstv. forsrh. - Er hæstv. sjútvrh. ekki hér í salnum? (Forseti: Athuga hvort sjútvrh. er í húsinu.)

Já, ég sé að hæstv. sjútvrh., sem gegnir nú störfum forsrh., gengur í salinn. Mér þykir miður að hæstv. sjútvrh. var ekki viðstaddur þegar ég greindi frá því að á Alþingi í nóvember 1984 var beint fsp. til hæstv. forsrh. um hvort hann væri reiðubúinn að standa við þá yfirlýsingu sem hann gaf á þingi fyrr á því ári um að hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því að samanburðarkönnun yrði gerð á kjörum kvenna og karla á vinnumarkaðnum. Hæstv. forsrh. hafði mjög góð orð um þetta fyrir ári, sagði að vinnan væri í fullum gangi, upplýsingar mundu liggja fyrir innan skamms og að séð yrði til þess að fjárveiting mundi fást til þessa verkefnis.

Ég vil minna á að undanfarið hefur hæstv. forsrh. fengið áskoranir víða að um að hraða þeirri samanburðarkönnun sem hann lofaði. Ég vildi spyrja hæstv. sjútvrh., sem gegnir störfum forsrh., hvort honum sé kunnugt um hvað líður þessari samanburðarkönnun og þá hvort ráð sé fyrir því gert á fjárlögum að fjármagn fáist í slíkt verkefni. Þegar við erum að fjalla um viðkvæma kjaradeilu, sem snertir launakjör hjá einni hefðbundinni kvennastarfsgrein, hefði vissulega verið akkur að því ef slík samanburðarkönnun lægi nú fyrir. Tel ég því mikilvægt innlegg í þessa umræðu að fá upplýsingar frá hæstv. sjútvrh. um hvar á vegi þessi samanburðarkönnun er nú stödd og vísa aftur til þess fjölda áskorana sem fram hefur komið frá ýmsum kvennasamtökum í landinu um að forsrh. standi við þessa könnun, og þar sem forsrh. hafði góðan skilning á þessu máli og taldi að brýnt verkefni væri á ferðinni efa ég ekki að þetta mál hafi með einhverjum hætti komið á borðið hjá ríkisstj. og hún hafi eitthvað fjallað um þetta mál. Ég beini því til hæstv. sjútvrh. að hann svari þessari fsp. nú í þessari umræðu.

Herra forseti. Í því frv. sem hér liggur fyrir til umræðu kemur fram í 1. gr. að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í kjaradóm sem skal fyrir 1. des. 1985 ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands sem starfa nú hjá Flugleiðum hf. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. að því hvort þetta þýði að ef kjaradómur lýkur ekki störfum fyrr en 1. des. 1985 eigi flugfreyjur að vera fram til þess tíma án þeirra kjarabóta sem þær hafa ekki hingað til fengið en aðrir hafa fengið á almenna vinnumarkaðinum.

Ég vitna til þess að kauphækkun varð í ágústmánuði 2,4%, í október 4,5% og Albertslaunin voru 3%. Hér er um kjarabætur að ræða sem allur þorri launþega í landinu hefur fengið og ég spyr: Er það ætlun hæstv. ráðh. að til viðbótar því að flugfreyjur þurfa að búa við að samningsréttur sé af þeim tekinn með þessum hætti verði þær hugsanlega að vera án þeirra kauphækkana sem allur þorri launafólks hefur fengið? Ég held að nauðsynlegt sé að fá frá hæstv. samgrh. svar við því í þessari umræðu hvort hann hafi gert sér grein fyrir þeirri stöðu að í tvo mánuði í viðbót eða einn og hálfan mánuð gætu flugfreyjur verið án þeirra kjarabóta sem aðrir launþegar hafa fengið. Þetta tel ég mikilvægt að fá upplýst. Ég vitna til nál. frá 1. minni hl. samgn. þar sem einmitt er um þetta atriði fjallað, en þar kemur fram, með leyfi forseta, í því nál.:

„Eins og málin standa nú í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf., þar sem engin hugmynd virðist vera til um efnislega lausn, getur þingflokkur Alþfl. eftir atvikum fallist á að óhjákvæmilegt sé að fresta aðgerðum til n.k. áramóta, er almenn stefnumótun í kjaramálum skal hvort eð er fara fram, og að hlutlausum gerðardómi verði falið að leggja vandað og hlutlægt mat á ágreiningsefni deiluaðila og fella bráðabirgðaúrskurð sem tryggir flugfreyjum ótvírætt sambærilegar launahækkanir og aðrir starfshópar hafa fengið og þá sérstaklega aðrir flugliðar hjá Flugleiðum hf. eins og tekið er fram í frv.“

Herra forseti. Ég þarf að eiga orðastað við hv. formann samgn. Ég sé hann ekki í salnum. - Ég sé að hv. formaður samgn. gengur í salinn. Mér þykir verst að þurfa að tefja tíma deildarinnar með því að endurtaka það sem ég var að segja um mál sem snertir þá spurningu sem ég vil beina til hv. formanns nefndarinnar, en ég var að vitna til þess hér áðan að í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

„Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í kjaradóm sem skal fyrir 1. des. 1985 ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands sem starfa nú hjá Flugleiðum hf.“

Ég vek athygli á því hvað það getur þýtt ef úrskurður kjaradóms liggur ekki fyrir fyrr en 1. desember. Það þýðir að flugfreyjur munu verða án þeirra launahækkana sem allur þorri launafólks hefur fengið, þ.e. þeirra launahækkana sem átt hafa sér stað, í ágúst 2,4%, í október 4,5% og Albertslaunin 3% fyrir nokkrum dögum. Ég vil spyrja hvort hv. samgn. hafi fjallað sérstaklega um þennan þátt málsins, hvort hún hafi gert sér ljóst að svo gæti farið að flugfreyjur yrðu án þeirra launahækkana sem allur þorri launafólks hefur fengið og taldi ég að að einhverju leyti hefði verið um þetta mál fjallað þar sem fram kom í nál. frá 1. minni hl. samgn. að þar er fjallað um það mál. Tel ég rétt, herra forseti, að vitna í það aftur þannig að hv. formaður samgn. sé með á nótunum hvað ég er að tala um. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Eins og málin standa nú í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf., þar sem engin hugmynd virðist vera til um efnislega lausn, getur þingflokkur Alþfl. eftir atvikum fallist á að óhjákvæmilegt sé að fresta aðgerðum til n.k. áramóta, er almenn stefnumótun í kjaramálum skal hvort eð er fara fram, og að hlutlausum gerðardómi veri falið að leggja vandað og hlutlægt mat á ágreiningsefni deiluaðila“ - og hér kemur punkturinn, hv. formaður samgn., sem ég beini til þín - „og fella bráðabirgðaúrskurð sem tryggi flugfreyjum ótvírætt sambærilegar launahækkanir og aðrir starfshópar hafa fengið og þá sérstaklega aðrir flugliðar hjá Flugleiðum hf. eins og tekið er fram í frv.“ Þýðir þetta að um það hafi t.d. verið fjallað í nefndinni að kjaradómi sé uppálagt að fella, e.t.v. nú þegar, úrskurð um að flugfreyjur skuli áður en heildarniðurstaðan í kjaradómi liggur fyrir fá þegar þær launahækkanir sem um hefur verið samið fyrir aðra og aðrir hafa fengið? Þetta tel ég nauðsynlegt að liggi fyrir við þessa umræðu og óska eftir því að hv. formaður samgn. taki þátt í þessari umræðu og upplýsi okkur um hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni.

Herra forseti. Eins og hv. þm. vita er nú lokaár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Konur í öllum kvennasamtökum, í stéttarfélögum og stjórnmálaflokkum hafa tekið höndum saman um ýmis verkefni tengd þessu lokaári. Þar hefur ekki síst verið eitt meginviðfangsefnið að leggja áherslu á kröfuna um að upprættur verði sá launamismunur sem ríkir milli kynjanna á vinnumarkaðnum og um bætt launakjör kvenna. Auðvitað er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað slíkt er nauðsynlegt. Launakjör flugfreyja eru staðfesting á því. Þau bera þess glöggt vitni að endurmeta þurfi láglaunastörfin í þjóðfélaginu.

Ég sagði að konur hefðu tekið höndum saman um bætt launakjör. Varla hefur það farið fram hjá neinum að konur hafa verið hvattar til að leggja niður störf á þeim merka degi 24. október, sem nú rennur senn upp, til þess að leggja áherslu á launamál kvenna. Við bindum miklar vonir við góða þátttöku, enda höfum við fengið góðar undirtektir hjá konum í hverri láglaunastarfsgreininni á fætur annarri, hjá fóstrum, hjá heilbrigðisstéttinni, í fiskvinnslunni, í bönkum og víðar. Auðvitað hljóta konur á þessum degi að mótmæla þeirri meðferð sem ein láglaunastéttin í landinu er beitt, eins og flugfreyjur þegar þær fara fram á að fyrir 112 stunda vinnu utan venjulegs vinnutíma verði þeim greitt með vaktaálagi eins og öðrum stéttum í landinu. Kannske er það táknrænt að um það leyti sem þessi dagur rennur upp verður búið að setja lög á eina kvennastéttina í landinu og banna henni að semja um sitt kaup og kjör.

Ég held að það væri ekki vanþörf á að allir hv. þm. tækju sér frí á morgun og skoðuðu þá sýningu sem opnuð verður á störfum og kjörum kvenna. Það er auðvitað nokkuð sérstætt að fyrsta hlutverk sem Seðlabankabyggingin þjónar er að gefa fólki kost á að kynna sér vinnuframlag kvenna. Ég er sannfærð um að þeir sem þá sýningu skoða verða betur meðvitaðir um það en áður að hjól atvinnulífsins snúast ekki án atvinnuþátttöku kvenna, jafnvel þótt troðið sé á þeim í launamálum.

Konur hafa einnig talið nauðsynlegt í tilefni af lokum kvennaáratugar að gefa út bók sem er nokkurs konar yfirlitsrit um stöðu kvenna í þjóðfélaginu og úttekt á því hvað áunnist hefur á þessum kvennaáratug í að bæta launakjör kvenna svo að dæmi sé tekið. Ég held að óhætt sé að fullyrða að lítið hafi þokað í átt til jafnréttis og kemur það glöggt fram í þeirri bók sem nú er gefin út í tengslum við lokaár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna.

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að leiða þm. í allan sannleika í þessu máli. Þar sem mér gefst aðeins lítill tími í ræðustól til að kynna hv. þm. ýmsar athyglisverðar niðurstöður sem birtast í þessari bók hvet ég hv. þm. eindregið til að kynna sér hana. Það sem fjallað er um í þessari bók er að gerð er úttekt, eins og ég sagði, á því hvað áunnist hefur á s.l. tíu árum í til að mynda launakjörum kvenna o.fl. Ég les efnisyfirlitið vegna þess að það gefur mjög glögga mynd af því hvert innihald þessarar bókar er, enda kemur fram að hún mun gefa mjög glögga mynd af stöðu kvenna í þjóðfélaginu.

1. Fjallað er um kvennaár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna, sögulegt yfirlit.

2. Fjallað er um lög og réttarheimildir er varða konur.

3. Menntun kvenna.

4. Atvinna og laun kvenna.

5. Félagslegar aðstæður kvenna.

6. Konur og forusta.

7. Heilbrigði kvenna og heilsufar.

8. Listsköpun kvenna, bókmenntir.

9. Listsköpun kvenna, tónlist.

10. Listsköpun kvenna, myndlist.

11. Listsköpun kvenna, leiklist.

12. Listsköpun kvenna, byggingarlist.

13. Listsköpun kvenna, ballett.

14. Listsköpun kvenna, kvikmyndagerð.

Það væri vissulega fróðlegt, herra forseti, og freistandi að fjalla um alla þessa þætti, um listsköpun kvenna, tónlist, myndlist, leiklist, byggingarlist, ballett og kvikmyndagerð, en ég vil heldur beina athygli minni að ákveðnum þáttum sem snerta launakjör o.fl., en hvet þm. til að afla sér þessarar bókar.

Ég vil, herra forseti, því aðeins grípa niður í örfá atriði og kafla í þessari bók sem snerta það mál sem hér er til umræðu.

Það er í fyrsta lagi um launakjör kvenna, en í öðru lagi dagvistarmál sem eru í órofa samhengi við þau kjör sem flugfreyjur búa við. Ekki er það síst í ljósi þeirra staðreynda að flugfreyjur vinna 112-115 tíma utan venjulegs vinnutíma og þurfa því oft og tíðum að leita vistunar fyrir börn sín utan venjulegs dagvinnutíma og komast auðvitað ekki hjá því að greiða næturvinnuálag eða vaktaálag fyrir pössun þá sem þær þurfa að leita eftir fyrir börn sín þannig að því hlýtur að fylgja töluverður kostnaður fyrir flugfreyjur og hlýtur að minnka verulega þær himinháu tölur sem Flugleiðamenn bera á borð að séu þau kjör sem flugfreyjur búa við.

Í þriðja lagi tel ég nauðsynlegt að ræða nokkuð um atvinnuþátttöku kvenna til að færa rök fyrir mínu máli, að hjól atvinnulífsins snúast ekki án atvinnuþátttöku kvenna. Til að mynda er alveg ljóst hvað flugfreyjur eru Flugleiðum mikilvægar því hjól flugreksturs snýst ekki nema með atvinnuþátttöku flugfreyja. Kannske eru þær mikilvægustu starfsmenn í þjónustu félagsins því í raun má segja að þær séu andlit félagsins og flugfreyjur eru þeir aðilar sem flugfarþegar, sem Flugleiðir byggja afkomu sína á, eru í mestum tengslum við.

Ég tel einnig í fjórða lagi nauðsynlegt að vitna nokkuð til kaflans um heilbrigði kvenna og heilsufar í ljósi þeirra fullyrðinga minna að konur búa við mikið vinnuálag, kannske ekki síst flugfreyjur. Það er auðvitað ljóst að slíkt hlýtur að hafa mikil áhrif á heilsufar flugfreyja sem og annarra stétta sem við mikið vinnuálag búa.

Ég vitna fyrst, herra forseti, í kaflann um atvinnu og laun kvenna, en þann kafla hefur tekið saman Guðrún Guðmundsdóttir viðskiptafræðingur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Konur og karlar hafa hvorki sama vaxtarlag né líkamsburði. Handlagni virðist konum hins vegar ekki síður gefin en körlum og í könnunum mælist greind þeirra sú sama og karla. Í dag þar sem líkamsburðir virðast lítt verðlaunaðir kemur það því nokkuð á óvart að konur skuli að meðaltali mun tekjulægri en karlar. Sú er þó raunin, ekki bara á Íslandi, heldur almennt í heiminum hvort sem litið er til Vestur- eða Austur-Evrópu eða til ríkra eða fátækra landa.

Í kyrrstöðuþjóðfélagi 19. aldar var starfsskipting kvenna og karla fastmótuð. Konan var innandyra en karlmaðurinn utan. Bæði höfðu almennt nóg að starfa og ekki er hægt að segja til um hvort þeirra lagði meira fram til búsins. Líta má á þau sem sjálfstæða, jafnmikilvæga starfskrafta hjá sama fyrirtækinu.

Tæknibylting aldarinnar hefur umturnað atvinnuháttum og leitt til búseturöskunar. Karlmenn, sem frá fornu fari hafa unnið utan heimilis, hafa aðlagast breytingum í starfi og færst á milli starfa. Tæknibreytingar og breyttir fjölskylduhættir hafa einnig gjörbreytt heimilisstörfunum svo þau eru fljótunnari og léttari og víða hefur heilsdagsstarf eða meira orðið að hálfsdagsstarfi. Félagslega eru konur bundnar heimilinu og heimilisstörfum verður oft að sinna á óreglulegum tímum mestan hluta dagsins. Það hefur því í mörgum tilfellum verið útilokað fyrir konur að taka á sig störf utan heimilis og þegar konur hafa sótt út á vinnumarkaðinn hafa þær oftast orðið að skipta sér á milli starfanna á heimilinu og á vinnumarkaðinum, unnið slitrótt og oft hluta úr degi. Tæknibyltingin hefur þannig haft margþættari áhrif á störf kvenna en karla og það hefur verið erfiðara fyrir konur að aðlaga sig breyttum aðstæðum.“

Í töflu um almenna atvinnuþátttöku kemur fram að á árinu 1960 hafi konur á aldrinum 20-60 ára verið 31,4% þeirra sem voru á vinnumarkaðinum meðan karlar voru 94,7% . 77,7% kvenna voru úti á vinnumarkaðinum árið 1984, en 90,1% karla. Vitnað er til ýmissa úrtakskannana sem gerðar hafa verið í þessu skyni og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í könnunum jafnréttisnefnda Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Neskaupstaðar árið 1976 reyndist atvinnuþátttaka giftra kvenna 20-55 ára svipuð í Kópavogi (55,1% ) Hafnarfirði (57,3%) og Neskaupstað (55%) en mun minni í Garðabæ (48,9% ). Af þeim tiltölulega fáu sem unnu utan heimilis er einnig athyglisvert að í Garðabæ voru hlutfallslega fæstar í fullu starfi eða aðeins 26,8% sem svarar til þess að af giftum konum 20-55 ára í heild í Garðabæ hafi 13% verið fullvinnandi utan heimilis. Af þeim sem störfuðu utan heimilis voru 43,7% í fullu starfi í Kópavogi eða 27% allra, meira en tvöfalt hlutfall Garðabæjar. Í Hafnarfirði voru 40,9% þeirra sem störfuðu utan heimilis í fullu starfi og á Neskaupstað var hlutfallið 36,4%.“ Hér er vissulega um athyglisverðar tölur að ræða sem þm. ættu að gefa gaum. Og áfram stendur hér með leyfi forseta:

„Kvennaársnefnd stóð fyrir könnun á atvinnuþátttöku giftra kvenna 20-55 ára vítt og breitt um landið árið 1976 og voru þá 53,5% í starfi utan heimilis, þar af 35,4% í fullu starfi eða 19% allra giftra kvenna 20-55 ára. Þær tölur eru í góðu samræmi við framangreindar kannanir.

Undir lok kvennaáratugarins haustið 1984 var gerð ný könnun á vegum jafnréttisráðs sem er nokkuð sambærileg við könnun kvennaársnefndar þótt vægi einstakra úrtaksstaða hafi breyst og nýja úrtakið taki til kvenna á aldrinum 20-60 ára. Skv. könnun jafnréttisráðs voru 75,9% giftra kvenna í starfi utan heimilis og af konum í launuðu starfi unnu 46,4% fulla vinnu. Könnunin leiðir í ljós hve mikið stökk hefur orðið í atvinnuþátttöku giftra kvenna á áratugnum. Könnun jafnréttisráðs náði einnig til ógiftra kvenna og séu þær taldar með var atvinnuþátttakan 77,7%, þar af unnu 57,8% fulla vinnu.

Jafnréttisnefnd Kópavogs kannaði árið 1982 atvinnuþátttöku giftra kvenna í launuðu starfi og reyndust 60% þeirra vera í fullu starfi sem er veruleg aukning frá því sem áður er rakið um könnunina árið 1976.

Í könnun jafnréttisnefndar Reykjavíkur 1980-1981 kom fram að 65,6% giftra kvenna 20-60 ára væru starfandi, þar af 44% í fullu starfi eða 29% allra giftra kvenna.

Kjararannsóknarnefnd gerði víðtæka könnun árið 1981 sem gaf þá niðurstöðu að af konum innan ASÍ á almennum vinnumarkaði væru 69,4% í fullu starfi. Könnun kjararannsóknarnefndar meðal félagsmanna 14 verkalýðsfélaga árið 1983 gaf þá niðurstöðu að af öllum starfandi konum væru 49% í fullu starfi og 37% giftra kvenna. Báðar þessar kannanir náðu bæði til landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.“

Einnig er í þessari bók ítarlegur kafli um vinnutíma, og virðist ekki veita af að vitna nokkuð í hann með tilliti til þeirra umræðna sem átt hafa sér stað um vinnutíma flugfreyja. Í bókinni kemur fram að kjararannsóknarnefnd gerir að staðaldri kannanir á vinnutíma verkafólks og reiknar fjölda unninna stunda miðað við heils dags störf. Í töflu kemur fram meðaltal vikulegs fjölda greiddra stunda fyrir heils dags störf á höfuðborgarsvæðinu árin 1974-1984. Þar koma einnig fram töflur um meðaltalsvinnustundir verkakvenna og -karla og er niðurstaðan að könnun kjararannsóknarnefndar sýni að mikill munur sé á vinnutíma kynjanna, verkamenn vinni að meðaltali um 51 stund á viku eða 11 tíma yfirvinnu, verkakonur vinni hins vegar um 4 yfirvinnustundir á viku að meðaltali. Ein taflan sýnir samt sem áður að nokkuð hafi dregið saman með kynjunum fyrst og fremst vegna mikillar yfirvinnu. Árið 1974 var meðalvinnutími fullvinnandi kvenna 79,8% af meðalvinnutíma karla en árið 1983 85,8%.

Hér er einnig fróðlegur kafli um hvernig atvinnuþátttakan er aldursskipt. Hér stendur:

„Atvinnuþátttaka hinna ýmsu aldurshópa er háð annars vegar hefðbundnum viðhorfum og hins vegar heimilisaðstöðu t.d. barnafjölda svo og fjölda í námi í viðkomandi aldursflokki. Af starfshlutföllum einstakra aldurshópa og breytingum síðasta áratug má fá vísbendingu um framvindu á komandi árum. Það er erfitt að finna fullkomlega sambærilegar tölur. Eldri tölur hagrannsóknardeildar Framkvæmdastofnunar ná aðeins til giftra kvenna en í nýjustu tölum Framkvæmdastofnunar eru starfshlutföll einstakra aldursflokka aðeins reiknuð fyrir allar konur.“ Síðan kemur fram að ýmsar ályktanir megi draga af þessu.

Hér er fróðleg tafla sem fjallar um hlutfallslegan fjölda kvenna með einhverjar launatekjur annars vegar og virka atvinnuþátttöku hins vegar, skipt eftir aldri. Þar kemur fram varðandi atvinnuþátttökuna árið 1970 að almenn atvinnuþátttaka þeirra sem voru á aldrinum 15-19 ára var um 82% en virk atvinnuþátttaka 57%. Og ef við tökum t.d. 25-44 ára var almenn atvinnuþátttaka 56% en virk 37%. Fram kemur að greinilegt sé að atvinnuþátttaka sé mest hjá yngri konum, en einnig sé ótvírætt að atvinnuþátttaka hefur ekki síður aukist hjá eldri konum. Þannig eru nú 3/4 kvenna á aldrinum 20-59 ára með virka atvinnuþátttöku, þ.e. starfa meira en 13 vikur á ári. Árið 1970 vann rúmlega þriðjungur kvenna 25-59 ára í meira en 13 vikur á ári. Síðan er bent á að tölur í einni töflunni sýni fram á að við nálgumst óðfluga það mark að allar konur sem aðstöðu hafa til séu virkar á vinnumarkaði þar sem konur á barneignaraldri eru með nær sömu atvinnuþátttöku og konur á miðjum aldri. Hæst er virk atvinnuþátttaka í dag hjá konum á fimmtugsaldri, tæp 80%, en minna má á að atvinnuþátttaka karla á þeim aldri er rúmlega 90%. Hér segir að einhver aukning muni enn verða. Aukning næstu ár muni hins vegar trúlega í meira mæli verða á þann hátt að þær konur sem eru í starfi fjölgi unnum stundum á viku en að hlutfall starfandi kvenna í hverjum aldursflokki aukist. Ýmsar kannanir sýna að barneignir og barnauppeldi, einkum umönnun yngri barna, dragi úr atvinnuþátttöku kvenna og hamli samfelldu starfi á vinnumarkaðinum. Sérstaklega á þetta við þau árin sem flestir karlmenn festa sig í sessi á vinnumarkaðinum.

Ég læt þetta nægja, herra forseti, að því er varðar vinnutíma og atvinnuþátttöku en sný mér að þeim kafla sem fjallar um vinnu á heimilunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Störf á heimilunum eru enn að stærstum hluta verkefni kvenna þó þátttaka karla í heimilisstörfum hafi vaxið hin síðari ár.“ Í töflu sem hér er birt koma fram meðaltöl vinnustunda utan heimilis og á heimili hjá báðum kynjum skv. könnun jafnréttisráðs 1984. Það skal tekið fram, eins og hér segir, að úrtakið nær jafnt til kvenna í sambúð og einhleypra. Getið er um meðalvinnutíma kvenna og maka þeirra utan heimilis og á heimilum. Þessu er skipt niður og gefnar upplýsingar um hvernig staðan er í Reykjavík, á Patreksfirði, Húsavík, Egilsstöðum og í dreifbýli. Fram kemur að meðalvinnutími kvenna utan heimilis sé 35 stundir, ef ég tek Patreksfjörð sem dæmi, og á heimili 26,4, samtals 61,4 vinnustundir. Ef teknir eru karlmenn er vinna utan heimilis 48,7 stundir, á heimili aðeins 10,3 á móti 26,4 hjá konum eða samtals 59.

Fróðlegt er einnig að skoða Reykjavík. Þar kemur fram að meðalvinnutími kvenna sé í Reykjavík utan heimilis 34,3 stundir, á heimili 17,7 eða samtals 52 stundir. Vinnutími karlmanna í Reykjavík utan heimilis er 48,3 stundir, á heimili 10,9 eða samtals 59,2. Og fróðlegt er að bera saman samanlagðan vinnutíma utan heimilis og á heimilinu. Þá kemur nokkuð fróðlegt í ljós. Í Reykjavík hafa karlmennirnir vinninginn að því er varðar vinnutíma utan heimilis og á heimili eða 59,2 stundir, meðan konur eru með 52. Á Patreksfirði er samtals vinna utan heimilis og á heimili hjá konum 61,4 stundir meðan karlmenn hafa samanlagðan vinnutíma utan heimilis og á heimili 59 stundir. Á Húsavík kemur fram að meðalvinnutími kvenna sé samanlagt 56,5 vinnustundir utan heimilis og á heimili meðan karlar þar hafa 43,8 stundir utan heimilis, á heimili 13,2 eða samanlagt 57 vinnustundir. Á Egilsstöðum eru samanlagðar vinnustundir kvenna utan heimilis og á heimili 59,2 meðan karlmenn hafa 65,6 samanlagt utan heimilis og á heimili. Ef tekið er dreifbýlið vinna konur 72,6 stundir samtals utan heimilis og á heimili meðan karlar vinna aðeins 54,6 samanlagt utan heimilis og á heimili.

Hér eru ýmsar fróðlegar töflur sem ég tel og vil benda þm. á að kynna sér sem ég vil nú ekki tefja tíma deildarinnar með að lesa. Þær fjalla um hlutfallslega skiptingu heimilisstarfa fólks í sambýli 1984, hlutfallslega verkaskiptingu kynja varðandi umönnun barna 1976 og hlutfallslega verkaskiptingu kynja varðandi umönnun barna 1984.

Hér kemur síðan kafli, herra forseti, sem er mjög mikilvægur og fjallar um launamál kvenna. Þar segir, sem reyndar er vitað, að atvinnuþátttaka kvenna hafi aukist verulega síðustu tvo áratugi og í ítarlegum kafla er fjallað um launakjör kvenna í dag og reynt að draga upp mynd af þróun síðustu áratugi. (Gripið fram í.) Sérstakur kafli er um launamismun og laun ýmissa stétta. Gríp ég hér niður í hluta af niðurstöðunni sem fram kemur.

Ef við berum tölurnar úr töflu 19 saman við tölurnar um laun allra kvenna og ársverk sem hlutfall af launum karla í töflu 18 kemur í ljós mikill munur. Meðaltímakaup verkakvenna 1983 var skv. töflu 19 85,6%. Meiri yfirvinna karla en kvenna hefur áhrif á niðurstöðuna sem er gefin. Sé munurinn á yfirvinnu kynjanna meiri hjá öðrum starfsstéttum en verkakonum og verkakörlum gæti það skýrt muninn að hluta.

Gefin er upp hver staðan er í afgreiðslu- og skrifstofustörfum og þar kemur fram að 18,2% kvenna starfi við verslun. Laun kvenna og ársverk sem hlutfall af launum karla í þeirri atvinnugrein reyndust 67,1%. Talað er um laun kvenna í hlutfalli af launum karla árið 1984. Þau voru í dagvöruverslunum sem hlutfall af hreinu tímakaupi 82,7%, í vefnaðarvöruverslun 84,1%, verslunarstörfum 75,6%, heildsöluverslun 91,4%, öðrum afgreiðslustörfum 67,9%. Og fjallað er sérstaklega um skrifstofustörf, laun kvenna í hlutfalli af launum karla á árinu 1984. Þá voru laun kvenna sem hlutfall af launum karla ef miðað var við hreint tímakaup 83,5% í almennum skrifstofustörfum, hjá bókurum og gjaldkerum 85,4% og í öðrum skrifstofustörfum 107,2%.

Bent er á með mjög ítarlegum dæmum hvernig konur í hverri starfsgreininni á fætur annarri raðist í lægstu launaflokkana meðan karlmenn raðist í þá hærri þar sem betri eru kjörin.

Í einum kaflanum um samantekt í launamálum segir: „Hér að framan hefur verið sýnt fram á að atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist hröðum skrefum. Hin síðari ár hefur ekki verið almennt atvinnuleysi heldur hefur það aðeins verið staðbundið og nánast alfarið árstíðabundið. Eftirspurn eftir fólki hefur þannig haldist í hendur við aukið framboð fólks til starfa. Þenslan á vinnumarkaðinum síðustu tvo áratugi hefur verið langmest í þjónustugreinum, einkum opinberri þjónustu en einmitt í þeim greinum er hlutfall kvenna af mannafla mest. Konur hafa valið störf á mun þrengra sviði en karlar. Annars vegar hafa þær sótt í störf sem eru sambærileg við verkefnin á heimilunum, þ.e. störf við uppeldi, umönnun og ræstingu, og hins vegar í almenn þjónustu-, afgreiðslu- og skrifstofustörf. Stóraukin eftirspurn á þessum sviðum hefur gert konum kleift að viðhalda þröngu starfsvali samhliða stóraukinni atvinnuþátttöku. Hefði konum ekki fjölgað jafnört og raun ber vitni á vinnumarkaði og þær haldið sig eins stíft við hefðbundið starfsval hefði orðið mikil mannekla á þessum sviðum. Það hefði hugsanlega leitt til breytinga á launahlutföllum til hagsbóta fyrir hinar hefðbundnu kvennagreinar.

Í þessu sambandi má hins vegar ekki gleyma því að konur sinntu áður heima fyrir verulegum hluta þeirra verkefna sem þær sinna nú á vinnumarkaði. Sérstaklega má nefna umönnun barna, sjúkra og aldraðra, en raunar á það einnig við um ýmis verkefni í framleiðslu, svo sem margs konar vinnslu matar og fatasaum. Þessi atriði er óhjákvæmilegt að hafa í huga þegar afkoma þjóðarbúsins er metin yfir lengri tíma því að í þjóðartekjum teljast störfin á heimilunum ekki með, en þegar farið er að sinna þeim utan heimilis mælast tekjur. Þetta er óraunhæfur útreikningur, ekki síst ef tekið er tillit til þess að margir eru þeirrar skoðunar að umönnunarhlutverkinu sé verr sinnt nú en áður.

Í tekjuuppgjöri heimilanna er villan sú sama því starfsframlag húsmóðurinnar er þar ekki skráð og þar með reyndar skattfrjálst. Þenslan í þjónustugreinum er þannig að verulegu leyti afleiðing af aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Með þröngu menntunar- og starfsvali hafa konur að töluverðu leyti viðhaldið kynskiptingu vinnumarkaðarins og samkeppni kynjanna því verið minni en ella hefði verið. Karlar hafa á sama hátt haldið sig frá hefðbundnum kvennagreinum. Þessi skipting hefur án efa stuðlað að því að viðhalda launamun kynjanna.“

Niðurstaðan varðandi menntunarmál kemur fram hér í stuttu samandregnu yfirliti, en þar segir: „Eins og fram kemur í kafla lll um menntun hefur menntun kvenna aukist undanfarin ár, en hefðin setur enn sitt mark á menntunarvalið og eins vantar enn mikið á að konur fái almennt sambærilega starfsmenntun á við karla. Konur verða að sækja á um aukna og fjölbreyttari menntun til að jafna menntunaraðstöðu kynjanna. Er nauðsynlegt að efla endurmenntun og almennt fullorðinsfræðslu. Það þurfa allir að eiga þess kost að taka upp þráðinn að nýju hafi þeir horfið frá námi, endurnýja menntun sem ekki hefur verið nýtt um hríð og bæta við sig eða hefja sitt nám þótt fólk sé af yngsta skeiði.“

Herra forseti, síðan koma lokaorðin í kaflanum um launamálin og atvinnuþátttöku. Þar segir með leyfi forseta: „Í þessum kafla hefur verið sýnt fram á að atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist mikið á kvennaáratuginum. Í dag er það regla en ekki undantekning að gift kona starfi utan heimilis. Konur hafa þannig sótt fram á vinnumarkaðinn en tölur gefa ekki til kynna að launamunur kynjanna hafi minnkað. Þegar á heildina er litið er ekki að sjá að saman hafi dregið. Launamunur kynjanna í hverri starfsgrein fyrir sig er mun minni en meðallaunamunur allra karla og kvenna, en konurnar eru að stærstum hluta saman komnar í láglaunahópunum.“ Konur eru að stærstum hluta saman komnar í láglaunahópunum, segir hér. Áfram segir, með leyfi forseta: „Konur hafa aukið menntun sína og þær sækja í auknum mæli í hærra launaðar stöður þótt töluvert skorti á. Launamunur kynjanna virðist hins vegar fara vaxandi eftir því sem ofar dregur í kerfinu. Það er líka margt sem bendir til að í ýmsum greinum hafi straumur kvenna á vinnumarkaðinum ýtt karlmönnum upp tröppurnar svo að þeir hafi orðið yfirmenn yfir hópi kvenna, að fjölgun kvenna á vinnumarkaði hafi þannig hækkað karla í tign og launum. Konur verða að breyta starfsvali sínu og ryðja fordómum úr vegi. Konur eru ekki síður hæfar en karlar til flókinna og ábyrgðarmikilla starfa, en konur verða einnig að leggja áherslu á launajöfnuð almennt og að hin hefðbundnu kvennastörf verði metin til jafns við hin hefðbundnu karlastörf í launum.

Á næstu árum mun margt ráðast af atvinnuþróuninni almennt. Ef til atvinnuleysis kemur er konum víða hættara en körlum. Miklu skiptir einnig hvar þenslan verður og hvaða tæknibreytingar leiða til fækkunar fólks. Við óbreytt starfsval er staða kvenna háð áframhaldandi rekstri þjónustugreina þar sem flestar konur vinna. Ný tækni og þá fyrst og fremst tölvutæknin mun án efa draga úr starfsmannafjölda í einstökum greinum.

Því má samt ekki gleyma í umræðunni um hugsanlegar afleiðingar tölvubyltingarinnar að mikill fjöldi kvenna vinnur við störf sem ólíklegt er að tölvan leysi af hólmi, sbr. ræstingu, umönnun sjúkra og barna, svo og kennslu. Það er því erfitt að fullyrða um það hvort líklegt sé að konur sem heild verði frekar fyrir barðinu á tölvuhagræðingu en karlar. Það er þá auðvitað eins og allt annað í þessu samhengi háð því hvernig konur sjálfar bregðast við og í hve miklum mæli þær sækja inn á þau nýju svið sem tölvunni fylgja. Í framtíðinni mun atvinnuþátttaka kvenna enn aukast. Aukningin verður hins vegar trúlega fremur þannig að algengara verði að konur vinni fullt starf og þær verði reglubundið á vinnumarkaðinum en að konum á vinnumarkaði fjölgi til muna. Sú þróun ætti að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði og auðvelda þeim að klífa metorðastigann og ná hærri launum. Menntunarforsendur kvenna fara batnandi, starfsþjálfun eykst og starfsvalið ætti þess vegna að verða fjölbreyttara. Körlum er að skiljast að þeir eiga skyldum að gegna á heimilinu.

Með breyttri verkskiptingu og vonandi styttri vinnutíma karla utan heimilis mun tvöfalda álagið af heimilishaldi og starfi utan heimilisins verða léttara og jafnast á kynin. Sömuleiðis ætti vaxandi skilningur á nauðsyn félagslegrar þjónustu að stuðla að jafnrétti. Eins og þessi kafli sýnir er erfitt að spá um fortíðina og draga upp áreiðanlega mynd af því sem gerst hefur á liðnum árum. Það er erfiðara að spá um framtíðina og ráða í það hvað gerast muni á næstu árum. Framtíðin er hvorki fyrir fram gefin né óumbreytanleg. Það er hægt að hafa áhrif á þróunina. Að öllu samanlögðu er því sjálfsagt að konur horfi með sjálfstrausti og bjartsýni fram á veginn. Gangi þær sjálfar rösklega fram geta þær bætt stöðu sína, bæði á heimili og vinnustað og gert jafnréttisdrauminn að veruleika.“ Svo mörg voru þau orð.

Herra forseti. Ég sagði hér áðan að ég teldi nauðsynlegt að vitna hér aðeins í kaflann um heilbrigðismál, ekki síst með tilliti til þess mikla vinnuálags sem flugfreyjur búa við, en hér er kafli sem kallaður er Konur og atvinnuheilbrigði. Þennan kafla um heilbrigði kvenna og heilsufar hefur skrifað Jóhanna Bernharðsdóttir hjúkrunarfræðingur og hún segir um atvinnuheilbrigði:

„Atvinnuheilbrigði hefur verið til umfjöllunar undanfarin ár og nú gera menn sér grein fyrir því að atvinna hefur áhrif á heilsu þeirra. Viðhorf til þessara áhrifa hafa breyst þannig að nú er ekki lengur litið á fylgikvilla atvinnu sem eðlilegt ástand, heldur hefur verið leitað leiða til að koma í veg fyrir atvinnusjúkdóma. Konum á vinnumarkaði hefur fjölgað mikið s.l. 20 ár, eins og sjá má af tölum frá Þjóðhagsstofnun um virka atvinnuþátttöku kvenna. Hún var 43,9% árið 1963, 60% árið 1975, en árið 1983 er hún komin í 69,3%. Það er því augljóst að gefa verður gaum að atvinnuheilbrigði kvenna þegar fjallað er um heilbrigði þeirra.

Á s.l. 5 árum hafa verið gerðar nokkrar kannanir á heilsufari og starfsaðstöðu hér á landi. Í þremur þessara kannana voru konur í meiri hluta, enda um störf að ræða sem hafa að mestu verið unnin af konum. Hér er átt við könnun á vegum Verslunarmannafélags Reykjavíkur árið 1981. Í öðru lagi könnun á vinnuskilyrðum, kjörum, heilsufari og félagslegum aðstæðum fiskvinnslufólks 1982 og í þriðja lagi könnun á heilsufari, vinnutilhögun, aðbúnaði og félagslegum aðstæðum verkafólks í fata- og vefjariðnaði.

Í úrtaki könnunar V.R. voru konur 54% þátttakenda. Þar kom m.a. fram að 26% vinna meira en 50 klukkustundir á viku og 37% fannst streita fylgja starfinu. Algengustu sjúkdómseinkenni sem kvartað var um voru bakverkur, höfuðverkur og vöðvabólga. 3 af hverjum 5 höfðu fundið fyrir bakverk og höfuðverk á 12 mánaða tímabili og annar hver þátttakandi fann fyrir vöðvabólgu. Í könnun á fiskvinnslufólki voru konur 72% af þátttakendum. Þar kom fram að sjúkdómar og sjúkdómseinkenni voru mun algengari hjá konum en körlum. Stærsti flokkur sjúkdómseinkenna voru sliteinkenni í stoð- og hreyfikerfi. Þar af voru vöðvabólgur algengastar. 38% kvenna höfðu einhver einkenni af vöðvabólgu, en 12% karla. Við athugun á streitu kom í ljós að 38% kvenna höfðu einkenni um vinnustreitu.

Í könnun á verkafólki í fata- og vefjariðnaði voru konur 82% af þátttakendum. Þar kom í ljós að algengustu sjúkdómseinkenni sem kvartað var um voru sliteinkenni í stoð- og hreyfikerfi. Um 45% kvenna höfðu sliteinkenni. Þar af var vöðvabólga algengust, en 30% kvennanna höfðu einhver einkenni hennar. Við athugun á streitu kom í ljós að 40% þátttakenda sögðust vera stressaðir. Alls voru 34% kvenna í fatasaumi og 23% kvenna í vefjariðnaði með einkenni um vinnustreitu.

Hér er vissulega um athyglisverðar tölur að ræða sem ber að gefa gaum þegar svo hátt hlutfall kvenna hefur þau sjúkdómseinkenni og þá sjúkdóma sem hér hafa verið tilnefndir, en hér er talað um vöðvabólgu og fleiri einkenni sem koma af miklu vinnuálagi sem fylgir mörgum störfum í hefðbundnum kvennastarfsgreinum.“

Og áfram segir hér, með leyfi forseta: „Þegar þessar niðurstöður eru bornar saman má sjá að oftast er kvartað um vöðvabólgu og enn fremur er áberandi hversu algeng vinnustreita virðist vera. En hvað er til ráða við vöðvabólgu og streitu, þessum algengu og alvarlegu vandamálum sem hrjá svo stóran hóp íslenskra kvenna á vinnumarkaðnum?

Ein algengasta orsök vöðvabólgu er einhæf vinna þar sem sömu hreyfingarnar eru sífellt endurteknar. Algengt er að fólk vinni mikið í sömu líkamsstöðu, standandi á sama stað eða sitjandi. Tengsl virðast vera á milli vöðvabólgu og streitu þannig að erfitt getur verið að rjúfa þann vítahring sem myndast við kvíða, taugaspennu, þunglyndi, svefntruflanir og vöðvabólgu. Til að ráða bót á þessu þarf margt að koma til. Má þar í fyrsta lagi nefna fræðslu um atvinnuheilbrigðismál í tengslum við vinnustaðina sjálfa. Í öðru lagi fyrirbyggjandi heilsuvernd eins og líkamsrækt og slökunaræfingar og í þriðja lagi þyrfti að draga úr vinnuálagi og bæta vinnuaðstöðu.“

Hér kemur mjög skýrt fram í þessari úttekt að ein leiðin til að ráða bót á þessu er að draga úr vinnuálagi“. Og áfram segir hér: „Mikilvægt er að fólk fylgist með aðbúnaði á eigin vinnustað og áhrifum atvinnu á heilsufar. Nauðsynlegt er að vera vakandi gagnvart hinum margvíslega nýja tæknibúnaði á vinnustöðum. Búnaður þessi er í stöðugri þróun og það getur verið erfitt að fylgjast með áhrifum hans á heilsufar. Mikið er nú rætt um hvort samband sé milli fósturskaða eða fósturláta og skaðlegra umhverfisáhrifa. Í því samhengi verður ekki gengið fram hjá tæknivæðingu í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Hún hefur m.a. leitt til þess að æ fleiri konur vinna nú við tölvur og tölvuskjái.

Eitt aðaláhyggjuefnið í sambandi við áhrif tölvuskjáa á heilsufar hefur verið hvort svo hættuleg geislum stafi frá tölvuskjám að hún geti valdið fósturláti hjá konum sem starfa við tölvur. Einnig velta menn því fyrir sér hvort þess háttar vinna hafi varanleg áhrif á þroska fósturs. Í Bandaríkjunum og Svíþjóð hefur geislun frá tölvuskjám verið rannsökuð. Þar hefur komið fram að geislamagn er hið sama og frá venjulegu sjónvarpstæki, þ.e. svo lítil að geislun telst ekki skaðleg heilsu fólks. Í bæklingi frá Vinnueftirliti ríkisins um vinnu við tölvuskjái kemur fram að skv. frumniðurstöðum sænskrar rannsóknar á vinnu við tölvuskjái og tengslum við fósturskaða hafi ekki komið í ljós rök fyrir því að vinna við tölvuskjái valdi fósturskaða. Erfitt er í framkvæmd að rannsaka hvernig vinna við tölvur tengist fósturskaða eða fósturláti því nauðsynlegt væri að hafa samanburðarhóp í öðrum störfum. Í Bandaríkjunum er unnið að slíkum rannsóknum, en niðurstöður liggja ekki fyrir þegar þetta er skrifað.“

Síðan eru hér athyglisverðir kaflar um konur, hjarta- og æðasjúkdóma, konur og krabbamein, brjóstkrabbamein, lungnakrabbamein, leghálskrabbamein og fleira fróðlegt sem hér kemur fram sem ég held að ég bíði aðeins með að fara yfir.

Í kafla sem fjallar um félagslegar aðstæður kvenna, sem Erla Þórðardóttir félagsráðgjafi hefur tekið saman, er ýmislegt fróðlegt að finna. Ég nefni að hún fjallar hér í ítarlegu máli um félagslega samhjálp, um skattamál, skattlagningu, þróun skattamála eftir 1950 og hún fjallar um lagaákvæði sem snerta jafnréttismál, um dagvistun og þróun dagvistarmála, um dagvistaráætlanir menntmrn., en það er einmitt sá kafli sem ég tel nauðsynlegt að vitna nokkuð til, sem fjallar um dagvistarmál, því eins og ég sagði áðan eru dagvistarmálin í órofatengslum við þau kjör sem konur búa við á vinnumarkaðnum. Því tel ég rétt, herra forseti, að draga upp nokkra mynd af þeirri þróun sem orðið hefur í dagvistarmálum á þessu tíu ára tímabili.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Uppbygging í dagvistarmálum á fyrri hluta aldarinnar var aðallega á Reykjavíkursvæðinu. Hún hófst með stofnun Barnavinafélagsins Sumargjafar 1924 sem hóf starfrækslu fyrsta barnaheimilisins þegar á því ári. Verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði hóf rekstur dagheimilis 1937 og var það fyrsta dagheimilið sem rekið var allt árið. Uppbygging dagvistarþjónustu á vegum Sumargjafar hélt áfram á næstu árum en 1942 lagði Reykjavíkurborg í fyrsta sinn fram húsnæði til rekstrar barnaheimilis. Upp frá þessu keypti eða byggði Reykjavíkurborg flest ný dagvistarheimili, en fól Sumargjöf rekstur þeirra þar til 1. janúar 1978 er borgin yfirtók einnig rekstur þeirra. Meiri hluti barnaheimila utan Reykjavíkur, sem reist eru fyrir 1973, eru byggð af kvenfélögum og á Akureyri barnavinafélagi, en eftir setningu laga um byggingu og rekstur dagvistarheimila 1973 tóku ríki og sveitarfélög við.“

Síðan eru rakin þau lagaákvæði sem snerta rekstur dagvistarheimila og síðan kemur kafli um þróun dagvistarmála. Hér er athyglisverð tafla um fjölda dagvistarrýma, sem bæst hafa við á hverju ári frá 1975 til 1984, og kemur þar fram ljóslega að á undanförnum fjórum árum hefur dregið verulega úr uppbyggingu að því er varðar fjölda vistrýma. Við getum tekið hér samanburð um fjölda vistrýma í leikskólum sem var 1974 3144 og 1979 hafa þau aukist í 4500, dagheimili: 1365 í 1890, skóladagheimili: 101 í 216, en eftir 1980 virðist vera töluverður samdráttur að því er þetta varðar.

Hér er vitnað til þeirrar tíu ára áætlunar í dagvistarmálum sem gerð hefur verið á vegum menntmrn. um byggingu dagvistarheimila 1981-1990. „Til undirbúnings þessari áætlun“, segir hér, „var leitað upplýsinga hjá sveitarfélögum um áætluð dagvistarrými og einnig var höfð til hliðsjónar áætlun Reykjavíkurborgar um uppbyggingu dagvistarþjónustu á þessu tímabili. Tvennar forsendur voru lagðar til grundvallar áætluninni, önnur varðandi þörf fyrir dagvistun og hin varðandi lengd dagvistar. Forsendan um þörf var tvískipt og var miðað við færri rými í hverjum aldurshópi í forsendu 1 en í forsendu 2.“ Síðan er fjallað ítarlega um þessa áætlun sem gerð hefur verið af hálfu menntmrn. Hér er rætt um tilgang dagvistunar, en þar segir með leyfi forseta:

„Eins og fram hefur komið voru fyrstu lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila sett 1973. Fyrir þann tíma var uppbygging dagvistarþjónustu aðallega á Reykjavíkursvæðinu. Með setningu laganna urðu ríkisframlög til að ýta undir byggingu dagvistarstofnana annars staðar á landinu og síðan hafa jafnt og þétt bæst við ný dagvistarheimili. Langt er frá því að þörf fyrir dagvistun sé fullnægt og ekki eru líkur á að takist að framfylgja tíu ára áætlun Reykjavíkurborgar um uppbyggingu dagvistarþjónustu 1981-1990 þannig að í lok þessa tímabils verði nægileg dagvistun fyrir hendi í Reykjavík.

Sama er að segja um tíu ára áætlun frá menntmrn. um byggingu dagvistarheimila fyrir sama tímabil. Í lögum um dagvistarheimi nr. 112/1976 segir um tilgang dagvistunar að hann sé að búa börnum uppeldisskilyrði sem efli persónulegan og félagslegan þroska þeirra undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum. Þarna er höfuðáherslan á uppeldisþáttinn en af umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum áratugum má ljóst vera að krafan er einnig um að losa vinnuafl og gefa konum valkost og starfsvettvang.

Hvað varðar ákvæði laganna um sérmenntað fólk í uppeldismálum má segja um þróunina á síðustu tíu árum, þar sem dagvistarheimilum hefur fjölgað jafnt og þétt, að stöðugir erfiðleikar hafa verið á að uppfylla það skilyrði. Það hefur orðið æ erfiðara að fá fósturmenntað fólk til starfa á dagvistarheimilum og jafnframt hafa mannaskipti orðið tíðari. Hreyfing á starfsfólki 1984 var rúmlega 60%. Þróun þessi leiddi síðar til þess að á árinu 1985 voru stofnuð samtök foreldra barna á dagvistarheimilum svo unnt yrði að fá nægilega margt sérmenntað fólk til starfa og draga úr mannaskiptum. Við mannaráðningar á dagvistarheimilum hefur í framkvæmd verið gengið út frá því að forstöðumenn dagvistarheimila væru fósturmenntaðir og um helmingur annars starfsfólks sem annast börn. Reynst hefur erfitt að fullnægja síðara skilyrðinu og mun það víða vera svo að innan við helmingur þeirra starfsmanna sem annast börnin að forstöðumönnum meðtöldum séu fósturmenntaðir.

Fram hefur komið að lág laun ráði nokkru um hve erfitt er að fá fósturmenntað fólk til starfa á dagvistarheimilum. Hér er um starf að ræða sem nær eingöngu er unnið af konum og var áður leyst af hendi inni á heimilunum án launa. Benda má á hugsanleg tengsl þessara þátta við kynskipta launastefnu í framkvæmd. Meðallaun karla voru tæplega 54% hærri en meðallaun kvenna á vinnumarkaðinum 1983.

Í umræðu um dagvistarmál í borgarstjórn Reykjavíkur 1985 kom fram að uppsagnir fóstra væru óvenjumargar 1984 og sú ástæða sem þar má nefna helsta fyrir uppsögn eru launamál.

Ef litið er á leikskólaþjónustu í dagvistun sérstaklega hefur áherslan aðallega beinst að uppeldisþættinum og álit margra er að leikskólavist eigi að vera opin öllum börnum á forskólaaldri 2-5 ára. Uppbygging á þessu sviði hefur verið mikil og fjöldi leikskólarýma hefur því tvöfaldast á tíu ára tímabili. Á sama tíma fjölgar börnum á þessum aldri um tæp 1000 eða úr 16 892 í 17 672. Leikskólaþjónusta nær þó einungis til um 35% barna.

Herra forseti. Þar sem dagvistarmálin gegna svo mikilvægu hlutverki að því er varðar kjör kvenna á vinnumarkaðnum vil ég vitna í bók frá jafnréttisráði, sem fjallar um könnun á stöðu íslenskra kvenna, eftir Fríðu Björk Pálsdóttur, þar sem hún fjallar einmitt um daggæslu barna. En þar kemur fram hjá Fríðu, með leyfi forseta:

„Mikilvægt þótti að kanna hvar börnin væru á meðan konur væru í vinnu utan heimilis. Í skýrslu Reykjavíkurborgar um dagvistun barna í Reykjavík kemur fram að margar konur fara að vinna utan heimilis áður en barnið fær dagvistarrými og hefur hlutfallið hækkað frá árinu 1982. 57,6% mæðra, sem voru á biðlista um leikskólarými árið 1984, voru konur sem vinna utan heimilis, 33,8% voru heimavinnandi konur og 8,6% nemar. Börn í dagvistun í Reykjavík voru 31. desember 1984 4588 að tölu, þar af 2088 í leikskólum, á dagheimilum voru 1363, 80 voru á dagvistarheimilum einkaaðila og 1057 hjá dagmæðrum. Á biðlista voru 1616 börn.

Í Reykjavík eru ellefu skóladagheimili, 26 dagheimili, 23 leikskólar og 33 gæsluvellir. Um haustið 1984 voru 345 dagmæður með leyfi og hafði hver þeirra að meðaltali 3, 1 barn á framfæri sínu. Þetta er vissulega athyglisverð tala, þegar til þess er litið hve mikill skortur er á dagvistarrými, að 345 dagmæður bjarga vissulega því sem bjargað verður í þessu efni, en þær hafa að meðaltali í gæslu 3,1 barn hver.

Á Patreksfirði er einn leikskóli og voru þar 60 börn í leikskólanum 1. desember 1984. Á Húsavík voru 38 börn með dagheimilisrými og 84 börn með leikskólarými á stærsta daggæsluhúsi á landinu. Er þar bæði starfræktur leikskóli og dagheimili. Á Egilsstöðum er einn leikskóli sem veitti 59 börnum rými þann 1. desember 1984.

Niðurstöður fyrir árið 1984 sýna að leikskólarými eru algengust eða 14,6%, leikskóli eða dagmamma 14%. Ýmis önnur ráð, t.d. að barnið eða börnin séu heima hjá föður eða ömmu eða hjá föður og í skóla, í vinnunni, eru líka tilgreind hér. Ýmis önnur ráð eru hlutfallslega algengust í Reykjavík og á Húsavík, eins og tafla sem kemur fram í þessari bók sýnir. Í Reykjavík eru leikskóli og dagmamma algengasta daggæslan fyrir barnið eða börnin auk ýmissa annarra ráða. Á Patreksfirði svöruðu flestar konur að þau væru heima, á Húsavík eru leikskólar hins vegar algengastir og á Egilsstöðum leikskóli og dagmamma.“

Auðvitað mætti margt fleira, herra forseti, taka til úr þessari bók, sem ég hef verið hér að vitna til, sem nefnd hefur verið „Konur-hvað nú?" og gefin hefur verið út vegna þessa lokaárs kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Þessi bók er staðfesting á því að mikið þarf að gera til að uppræta þann launamismun sem ríkir á vinnumarkaðnum svo dæmi sé tekið. Hún lýsir mjög vel stöðu kvenna á vinnumarkaðnum og í þjóðfélaginu almennt.

Herra forseti. Ég mun láta nægja það sem ég hef lesið úr þessari bók að sinni þó að ýmsir fleiri kaflar hennar ættu erindi í þá umræðu sem hér fer fram.

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að ítreka enn frekar en ég hef gert launamismun kynjanna á vinnumarkaðnum og launakjör kvenna almennt, ekki síst í hefðbundnum kvennastarfsgreinum, nú þegar við fjöllum um launakjör flugfreyja og það frv. sem hér er til umræðu um kjaradóm í verkfallsdeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Það er staðreynd, sem konur hafa lengi þurft að búa við, að atvinnurekendur kaupa vinnuframlag kvenna ódýru verði. Það er staðreynd að alls staðar í heiminum eru konur notaðar sem ódýrt vinnuafl. Það er staðreynd að af hverjum þremur sem teljast til fátækra í heiminum eru a.m.k. tvær konur. Það er staðreynd að helmingur fjölskyldna í heiminum sem skilgreindar eru sem fátækar eru fjölskyldur einstæðra mæðra. Það er staðreynd að þrátt fyrir að konur vinni 75% allrar vinnu í heiminum, launaða og ólaunaða, þiggja þær aðeins 10% allra launa og eiga aðeins 1% allra eigna. Það er staðreynd að störf í hefðbundnum kvennastarfsgreinum eru lægst launuðu störfin í þjóðfélaginu, en í þeim störfum eru m.a. 73% einstæðra mæðra eða um 5000 konur með 7000 börn á framfæri sínu. Það er staðreynd hvað snertir konu með eitt barn á framfæri sínu og 16- 17 þús. kr. dagvinnutekjur, eins og algengt er að flugfreyja t.d. hafi, að þegar hún hefur greitt 10 000 kr. húsaleigu og rúmlega 3000 kr. í barnagæslu á hún 3- 4000 kr. eftir í 30 daga fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Þurfi hún að kaupa einkagæslu fyrir barn sitt á hún ekkert eftir fyrir mat og öðrum nauðsynjum.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að runninn er upp sá merkisdagur 24. október 1985, en þá eru tíu ár liðin frá því að konur vöktu með eftirminnilegum hætti athygli á kjörum sínum og lögðu niður vinnu. Þessi bók, sem ég hef hér vitnað í, ber þess glöggt vitni að lítið hefur þokað á þessu tíu ára tímabili til að uppræta launamismun þann sem er á vinnumarkaðnum milli kynja. Á morgun mun mikill fjöldi kvenna efalítið leggja niður vinnu og taka þeirri áskorun sem komið hefur frá 84 konum m.a. sem sent hafa frá sér þá áskorun ásamt mörgum fleiri að leggja niður vinnu. En hverju eru konur til að mynda að mótmæla á morgun að því er varðar launamál þeirra? Þær mótmæla því hvernig lögin um launajafnrétti kynjanna eru þverbrotin í þjóðfélaginu, m.a. með því að konur sem vinna við almenn afgreiðslustörf í dagvöruverslunum þurfa að vinna 444 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla fyrir almenn afgreiðslustörf. Þær mótmæla því á morgun að konur í vefjariðnaði þurfa að vinna 252 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla í vefjariðnaði. Þær mótmæla því að konur sem eru verslunarstjórar þurfa að vinna 1056 dagvinnustundum lengur á ári til að hafa sömu árstekjur í dagvinnu og karlar sem eru verslunarstjórar. Þær mótmæla því að konur við almenn skrifstofustörf þurfa að vinna 480 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla við almenn skrifstofustörf. Þær mótmæla því að hefðbundin kvennastörf eru metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf, en ófaglærða saumakonan þarf til að mynda að bæta við sig 444 dagvinnustundum á ári til að ná ársdagvinnutekjum ófaglærða trésmiðsins. Þær mótmæla því á þessum degi, 24. október, að konur við verksmiðjuvinnu þurfa að vinna 264 dagvinnustundum lengur á ári til að ná dagvinnutekjum karla í verksmiðjuvinnu. Þær mótmæla því að konur sem vinna í pakkhúsum þurfa að vinna 192 dagvinnustundum lengur á ári til að ná ársdagvinnutekjum karla við pakkhúsvinnu. Þær mótmæla því að konan í byggingavöruversluninni þarf að vinna 552 aukadagvinnustundir á ári til að ná árstekjum karlsins sem vinnur við hlið hennar í byggingavöruverslun.

Í þeim samanburði sem ég hef hér tilgreint er miðað við hreint tímakaup í dagvinnu á 2. ársfjórðungi 1985. Ef reiknað er út meðaltal launamismunar hjá samtals átta konum, þ.e. einni úr hverri ofangreindra starfsgreina sem ég hef hér tilgreint, hafa þessar átta konur samtals tæpum 480 þús. kr. minna í árstekjur en átta karlar sem vinna við hlið þeirra í sömu eða sambærilegri starfsgrein. Meðaltalið er því um 60 þús. kr. launamismunur á hverja konu á ári. Gerum ráð fyrir að ofangreindar forsendur endurspegli meðaltal af þeim launamismun sem ríkir milli kynjanna á vinnumarkaðnum og reynum að nálgast eftir þeirri leið um hve háa fjárhæð er að ræða í launamismun hjá konum og körlum á hverju ári í þjóðfélaginu. Í fjórum stærstu heildarsamtökum launafólks eru 40 000 konur. Ef við gefum okkur að fjórði hluti þeirra eða 10 000 konur búi við launajafnrétti, en meðaltal launamismunar hjá þeim 30 000 konum sem eftir standa sé það sem ofan greinir, þá lætur nærri að haft sé af konum á hverju einasta ári um 1 milljarður og 800 millj. kr. Þá hefur ekki verið reiknað með launamismun kynjanna í yfirvinnu, bílafríðindum eða öðrum fríðindum sem karlar hafa umfram konur á vinnumarkaðnum. Og ef litið er á álagningu skatta vegna ársins 1985 eða tekna 1984 gefur það nokkra vísbendingu um hve gífurlegur munur er á kjörum kvenna og karla einnig í því efni.

Rætt hefur verið töluvert í þessari umræðu um ökutækjastyrk og dagpeninga. Lítum á hvernig þetta lítur út samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skattframtölum. Þar kemur fram meðaltal ársgreiðslna vegna bifreiðahlunninda á árinu 1984, vegna ökutækjastyrks, vegna dagpeninga, ferðapeninga, risnu, fæðishlunninda, fæðispeninga, annarra hlunninda og fatnaðar. Þar kemur fram um fjölda karlmanna sem fengu bifreiðahlunnindi að meðaltalið hjá þeim var 43 000 1984 meðan það var hjá konum 10 000 kr. Ökutækjastyrkur 44 000 hjá karlmönnum, 17 885 hjá konum. 12 500 karlmenn fengu ökutækjastyrk en 2700 konur. Dagpeningar. Fjöldi þeirra sem fékk dagpeninga, ferðapeninga eða risnu 4517, meðaltal á mánuði hjá körlum 34 302, hjá konum 12 074 og aðeins 653 konur á móti 4517 körlum fengu dagpeninga, ferðapeninga eða risnu. Og ef litið er til fæðishlunninda, fæðis sem vinnuveitandi lætur í té endurgjaldslaust, þá eru það 1121 karlmaður sem fékk fæðishlunnindi að meðaltali 14 935 kr., en aðeins 118 konur á móti þessum 1121 karlmanni og upphæðin var að meðaltali 10 006 kr. Ef litið var á fæðispeninga var um að ræða 6338 karla sem höfðu að meðaltali 15 200 kr., en 750 konur sem höfðu að meðaltali 4920 kr.

Það sem sérstaka athygli hlýtur að vekja er hvað hlutur kvenna í öllum hlunnindagreiðslum er mikið minni en karla, bæði að því er varðar upphæð og fjölda þeirra sem hlunninda njóta. Ökutækjastyrkur eiginmanna er að meðaltali 146% hærri en eiginkvenna og aðeins 2701 kona fær ökutækjastyrk á móti 12 542 körlum. Eiginmenn hafa 210% hærri meðaltalsgreiðslur í fæðispeninga en eiginkonur á vinnumarkaðnum og fjöldi kvenna sem fæðispeninga nýtur er 750 á móti 6338 körlum.

Ég taldi vitaskuld rétt, herra forseti, að vekja athygli á þessum upplýsingum um launamismun kynjanna á vinnumarkaðnum og ef litið er til álagningar 1985 og tekjur samkvæmt skattframtölum skoðaðar vegna álagningar 1985 kemur fram meðaltal árslauna fyrir árið 1984. Þá eru launþegar sundurliðaðir eftir yfirliti ríkisskattstjóra. Eiginmenn sem eru launþegar fá 396 000 að meðaltali, en eiginkonur í launþegastétt 157 000. Atvinnurekendur: Karlar í launþegastétt 197 000 á móti karlkyns atvinnurekendum í launþegastétt 396 000 og kvenkyns atvinnurekendur 95 000 á móti konum í launþegastétt 157 000. Samkvæmt þessu er meðaltalið hjá launþegum 195 000 á árinu 1984 en atvinnurekendum 149 000.

Herra forseti. Ég mun nú senn fara að ljúka máli mínu, en ég tel þó rétt áður en svo verður að vekja athygli á riti, sem nýverið er komið út, um staðreyndir á stöðu kvenna á vinnumarkaðnum. Þetta rit er gefið út af framkvæmdanefnd um launamál kvenna og vil ég vitna í formálann í þessu riti, en þar kemur fram tilgangurinn með útgáfu þessa rits og þar koma fram tildrögin og aðdragandinn að stofnun framkvæmdanefndar um launamál kvenna og það sem er kannske athyglisvert og eftirtektarvert við stofnun þessarar framkvæmdanefndar, sem nú hefur starfað á þriðja ár, er það að konur, þvert á öll pólitísk bönd, tóku þar höndum saman, konur í stjórnmálaflokkum, í kvennasamtökum og í stéttarfélögum, til þess að leggja á ráðin um hvernig best væri unnið að því að uppræta þann launamismun sem ríkir á vinnumarkaðnum. Ég vil því lesa þennan stutta formála sem þessu riti fylgir, með leyfi forseta:

„Framkvæmdanefnd um launamál kvenna var stofnuð 3. okt. 1983, en upphaf að stofnun nefndarinnar má rekja til ráðstefnu sem Samband Alþýðuflokkskvenna gekkst fyrir um launamál kvenna. Í lok ráðstefnunnar var samþykkt tillaga undirrituð af átta konum úr stéttarfélögum og stjórnmálaflokkum um að leita samstöðu um skipun framkvæmdanefndar um þátttöku kvenna í launþegahreyfingunni svo og öðrum áhugaaðilum um launajafnrétti kynjanna er skipulegðu aðgerðir sem leitt gætu til úrbóta þannig að komið yrði í veg fyrir launamisrétti kynjanna. Framkvæmdanefnd um launamál kvenna er skipuð 19 konum. Eru þar fulltrúar allra flokka og samtaka á Alþingi svo og fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi íslenskra bankamanna, Bandalagi háskólamanna, Starfsmannafélaginu Sókn, Verkakvennafélaginu Framsókn, Snót Vestmannaeyjum, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, jafnréttisráði, Bandalagi kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Kvennaframboðinu í Reykjavík.

Strax á fyrsta fundi nefndarinnar kom fram að brýnt væri að fá virk tengsl við konur um land allt og koma á góðu samráði og samvinnu við konur í verkalýðshreyfingunni. Til að ná því markmiði hefur framkvæmdanefnd um launamál kvenna haldið 13 fundi víðs vegar um landið. Einnig hafa verið haldnir samráðsfundir með konum í stjórnum og samninganefndum heildarsamtaka launafólks svo og sérstakur fundur með þeim konum sem sátu ASÍ-þing í nóvember 1984. Á þeim fundi kom fram að nauðsynlegt væri að konur, hvar í stéttarfélögum sem þær standa, bæru reglulega saman bækur sínar um stöðuna í launamálum kvenna og leituðu sameiginlegra leiða til úrbóta. Auk ofangreindra funda hefur megináherslan verið lögð á að koma á framfæri upplýsingum um stöðuna í launamálum kvenna. Í upphafi starfsins óskaði því nefndin eftir því við þjóðfélagsfræðingana Esther Guðmundsdóttur og Guðrúnu Sigríði Vilhjálmsdóttur að þær söfnuðu saman öllum tiltækum upplýsingum úr könnunum sem gerðar hafa verið og snerta launamun kynjanna sérstaklega. Hefur gagnasöfnun og úrvinnsla þessa verkefnis því staðið yfir síðan síðla árs 1983. Nokkrar upplýsingar úr þessari könnun voru gefnar út í bæklingi í febrúar 1984 sem dreift var á fundum á vinnustöðum. Niðurstaðan úr ofangreindri úttekt liggur nú fyrir og birtist í þessu riti. Hér hefur verið um umfangsmikið og tímafrekt starf að ræða, en í þessari úttekt er safnað saman helstu upplýsingum sem fyrir liggja um stöðuna í launamálum kvenna.

Það er von Framkvæmdanefndar um launamál kvenna að þessi úttekt, sem nú liggur fyrir, muni koma að gagni í baráttunni fyrir launajafnrétti kynjanna. Væntir nefndin þess að sem flest stéttarfélög og aðrir sem að launajafnrétti kynjanna vinna taki þessa skýrslu til umfjöllunar í sínum félögum og að niðurstaða þessarar úttektar geti orðið stéttarfélögum stuðningur í baráttunni fyrir bættri stöðu kvenna á vinnumarkaðinum.“

Þessa úttekt, sem ég hef hér vitnað til, unnu þjóðfélagsfræðingarnir Esther Guðmundsdóttir og Guðrún Sigríður Vilhjálmsdóttir. Hér er um ítarlegt rit að ræða upp á 80 blaðsíður. Í inngangi kemur fram samantekt þeirra Estherar Guðmundsdóttur og Guðrúnar Sigríðar Vilhjálmsdóttur sem ég tel að eigi fullt erindi inn í þessa umræðu og vil vitna til, með leyfi forseta:

„Allt fram til ársins 1961 var leyfilegt í sumum tilvikum að greiða konum lægri laun en körlum fyrir sömu störf, en þá voru sett lög um launajöfnuð karla og kvenna. Skv. þeim skyldu laun kvenna hækka í áföngum á árunum 1962-1967 til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkamannavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofustörfum og skyldi fullum launajöfnuði náð 1. janúar 1967.

Árið 1976 voru síðan sett lög um jafnrétti kvenna og karla þar sem m.a. er kveðið á um að þeim skuli greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þar með var fullu lagalegu jafnrétti kynjanna náð á vinnumarkaðinum.

Þrátt fyrir þessa lagasetningu ríkir enn töluverður launamismunur milli kynja, misjafnlega mikill þó eftir aðstæðum. Konur hafa ítrekað lýst því yfir að þær telji hlut sinn fyrir borð borinn í launamálum. Hefðbundin kvennastörf séu mun lægra metin en hefðbundin karlastörf og þar sem konur og karlar vinni sömu störf beri karlar mjög oft meira úr býtum en þær.

Stofnun Framkvæmdanefndar um launamál kvenna haustið 1983 var því svar kvenna við þeirri óánægju sem ríkti þeirra á meðal með kjör sín á vinnumarkaðinum. Konur úr ýmsum áttum bundust samtökum um að gera átak og rétta hlut sinn. Að tilstuðlan framkvæmdanefndarinnar var fljótlega hafist handa um söfnun tiltækra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á stöðu kvenna í launamálum hér á landi og þá sérstaklega hvort og hve mikill launamismunur ríkti milli kynja. Var undirrituðum falið þetta verkefni“ - en þennan inngang skrifa þær Guðrún Sigríður Vilhjálmsdóttir og Esther Guðmundsdóttir.

„Það var ekki hugmyndin að gera nýjar kannanir heldur að vinna úr því efni sem fyrir lá. Efnissöfnun og úrvinnsla fór að mestu leyti fram á tímabilinu október- desember 1983. Þá um áramótin voru lagðar fram bráðabirgðaniðurstöður og á grundvelli þeirra var útbúinn lítill blöðungur með nokkrum staðreyndum um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum sem dreift var á vinnustaði og víðar. Þar sem von var á nýjum upplýsingum um þessi mál, þar á meðal niðurstöðum launakönnunar kjararannsóknarnefndar, var ákveðið að bíða með að ljúka skýrslugerðinni um sinn. M.a. af þeim sökum hefur útkoma hennar dregist.

Við gerð þessarar skýrslu hefur verið leitað fanga víða og er hér með komið á framfæri þökkum til þeirra mörgu aðila sem lögðu lið við útvegun þeirra.“ - Þá er vitnað til heimilda sem stuðst hefur verið við og síðan segir:

„Úr fyrirliggjandi gögnum hafa verið unnar margvíslegar töflur og myndir sem sýna samanburð kvenna og karla með tilliti til atvinnuþátttöku, vinnutíma, starfa og síðast en ekki síst launa. Er áhersla lögð á að töflur og myndir tali sínu máli með þeim skýringum sem þeim fylgja, en jafnframt er reynt að draga fram í texta það helsta sem þar kemur fram. Hér er því aðallega um safn staðreynda að ræða án þess að lagt sé mat á það svo að heitið geti.“

Síðan segir um atvinnuþátttöku: „Á undanförnum árum hefur atvinnuþátttaka kvenna farið stöðugt vaxandi og er nú svo komið að um 80% kvenna hafa einhverjar launatekjur, en 67% kvenna á aldrinum 15-74 ára eru virkar í atvinnulífinu. Þær vinna sem svarar 14 vikum eða meira á ári. Atvinnuþátttakan nær hámarki hjá giftum konum á aldrinum 45-49 ára, en hjá körlum á aldrinum 35-49 ára. Athyglisvert er að atvinnuþátttakan er mjög svipuð hjá giftum og ógiftum konum, en hvað landshluta snertir er hún heldur meiri utan Reykjavíkur en í höfuðborginni.“

Síðan er fjallað hér um fullt starf, hlutastarf og vinnutíma. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutastörf eru mun algengari hjá konum en körlum og árið 1982 voru 63% þeirra kvenna sem voru á vinnumarkaðinum í hlutastarfi en 37% í fullu starfi. Vinnutími kvenna utan heimilis er almennt styttri eins og raunar tölurnar um hlutastörf bera með sér. Yfirvinna er fátíðari hjá konum nema þeim sem vinna vaktavinnu. Á undanförnum árum hefur meðalvinnutími verkakvenna í fullu starfi verið á bilinu 43-44 klst. á viku, en 51-54 hjá verkamönnum.

En vinnudagur kvenna er ekki styttri en karla þegar á heildina er litið. Skv. jafnréttiskönnun í Reykjavík veturinn 1980-1981 kom fram að þegar lagður var saman vinnutími fólks heima og heiman var heildarvinnutími síst styttri hjá konum en körlum. Þar kom einnig fram að þáttur karla í heimilisstörfum var litlu meiri þegar konurnar voru í fullu starfi eða hálfu en þegar þær voru alveg heima.“

Þá er fjallað um störfin og hér segir, með leyfi forseta:

„En hvaða störfum gegna konurnar á vinnumarkaðinum? Hér á landi sem víðast annars staðar einkennist vinnumarkaðurinn af tvískiptingu sem felst í því að annars vegar eru störf sem krefjast góðrar starfsþjálfunar, veita góð laun, atvinnuöryggi og framavonir. Hins vegar eru störf sem krefjast lítillar starfsþjálfunar, veita lág laun, litlar framavonir og í þeim er mikil hreyfing á fólki. Sú staðreynd að fyrri hópinn fylli einkum karlmenn og þann síðari einkum konur er sjálfsagt engin tilviljun.

Með aukinni atvinnuþátttöku og menntun kvenna á síðustu árum hefur starfssvið þeirra breikkað og konur hasla sér nú völl á æ fleiri sviðum. Af þeim gögnum, sem fyrir liggja, er þó ljóst að mjög stór hluti kvenna er annaðhvort í ófaglærðum störfum eða almennri þjónustu eða skrifstofustörfum. Lítill hluti þeirra er í störfum sem krefjast starfsmenntunar eða veita mannaforráð.“

Síðan er fjallað um launin og þar segir: „Niðurstaðan af samanburði á launum kvenna og karla á grundvelli fyrirliggjandi gagna sýnir svo að ekki verður um villst að verulega hallar á konur í launum.

Í þessari athugun hafa laun kynjanna verið borin saman á ýmsa vegu til að fá fram sem raunhæfasta mynd og til að draga úr þeim áhrifum sem hlutastörf kvenna og lengri vinnutími karla en kvenna geta haft á launamuninn hefur verið kappkostað t.d. að miða við þá sem eru í fullu starfi og við dagvinnulaun eftir því sem heimildirnar leyfa.

Borin hafa verið saman dagvinnulaun með eða án bónuss og einnig meðaltímakaup kvenna og karla meðal nokkurra starfsstétta, eins og verkafólks, verslunar- og skrifstofufólks, og skoðað bæði með tilliti til höfuðborgarsvæðisins og utan þess.

Þá var athugað hvernig skiptingu kynja er háttað eftir launaflokkum og í sumum tilvikum einnig eftir störfum hjá ríki og borg, bæjarfélögum og bönkum.

Til eru ítarlegar upplýsingar um meðallaun á ársverk og hefur verið gerður samanburður á þeim eftir kynjum með hliðsjón af aldri þeirra og hjúskaparstöðu, atvinnugreinum og kjördæmum.

Bornar hafa verið saman atvinnutekjur karla og kvenna skv. skattframtölum eftir vinnuframlagi og atvinnustéttum.

Borin hafa verið saman laun kynjanna eftir menntun og störfum.

Enn fremur hafa laun háskólamenntaðra kvenna og karla verið skoðuð, bæði þeirra sem starfa hjá ríkinu og hinna sem starfa á einkamarkaði.

Loks má nefna, þó að ekki sé þar með allt upp talið, að athugaður var hlutur kvenna í fastri yfirvinnu hjá hinu opinbera svo og hlutdeild þeirra í svokölluðum bílastyrkjum.

Launamunurinn, sem fram kemur við allan þennan samanburð, er mismunandi mikill eftir atvikum. Skulu hér tekin nokkur dæmi.

Árið 1983 vantaði 7% á að verkakonur hefðu sambærilegt meðaltímakaup og verkamenn. Miðað við hreint tímakaup í dagvinnu (án bónuss) var munurinn 13%, en með bónus minnkaði hann í 2%.

Skv. launakönnun kjararannsóknarnefndar á launakjörum meðal 14 aðildarfélaga ASÍ í lok árs 1983 voru meðalatvinnutekjur fullvinnandi karla um 16% hærri en kvenna. Þá reyndust 44% fullvinnandi kvenna vera með dagvinnutekjur undir 13 þús. kr. á mánuði samanborið við 21% karla.

Árið 1983 voru karlar við verslunarstörf með 29% hærra dagvinnukaup en konur. Árið 1983 voru karlar við skrifstofustörf með 30% hærra dagvinnukaup en konur. Meiri hluti kvenna sem starfar hjá ríkinu, bæjarfélögum og bönkum eru í launaflokkum um eða undir miðju launastigans.

Meðallaun kvenna á ársverk eru hæst hjá ógiftum konum 25-44 ára og samsvara þau meðallaunum 15-19 ára pilta, 65-69 ára ókvæntra karla og 70-74 ára kvæntra karla. Konur ná hæstu hlutfalli af meðallaunum karla á ársverk í landbúnaði eða 86%, en þar eru meðaltekjur karla langlægstar.

Árið 1982 voru meðalatvinnutekjur kvenna skv. skattframtölum 82 þús. kr. en karla 171 þús. kr. eða tvöföld laun kvenna. Aðeins 5,5% kvenna náðu þessum meðaltekjum karla. Af 19 atvinnustéttum framteljenda í fullu starfi árið 1982 náðu konur hæstu hlutfalli af launum karla í atvinnustéttinni kennarar og skólastjórar eða 69%. Meðalárstekjur kvenna í fullu starfi, sem starfa á sjúkrahúsum, elliheimilum og barnaheimilum, voru 136 þús. kr. eða 46% af meðaltekjum karla í sömu stétt.

Meðal starfsmanna á einkamarkaði er launamunur kynja fyrir dagvinnu meiri hjá þeim háskólamenntuðu en hinum sem ekki hafa slíka menntun eða 47% á móti 37% skv. könnun Hagstofu Íslands árið 1984. Heildarlaun félagsmanna BHM skv. skattframtölum sem eru í fullu starfi eru lægst í þeim félögum þar sem konur eru meiri hluti félagsmanna skv. könnun Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1983. Háskólamenntaðar konur í níu aðildarfélögum BHM, sem starfa hjá hinu opinbera, eru með 68-83% af heildarlaunum háskólamenntaðra karla í þeim félögum, en hér er eingöngu um starfsmenn í fullu starfi að ræða.

Árið 1982 voru konur 15% þeirra opinberu starfsmanna sem fengu greidda fasta yfirvinnu. Fengu konur að meðaltali 13 þús. kr. en karlar 25 þús. kr. Þá voru konur 13,7% þeirra opinberu starfsmanna sem fengu greiðslur vegna bifreiða sinna árið 1982, konur að meðaltali 6 þús. kr. en karlar 15 þús. kr.

Það vantar ekki að heimildirnar gefi til kynna verulegan launamismun kynja eins og dæmin hér að framan sýna og er ljóst að það gildir einu hvort um faglærða eða ófaglærða er að ræða, háskólamenntaða eða þá sem minni menntun hafa. Konurnar standa ávallt höllum fæti. Þótt heimildirnar veiti mjög mikilvægar upplýsingar um hve mikill launamunur ríkir milli kynja eru þeim takmörk sett með að brjóta hann til mergjar. Þær svara yfirleitt ekki spurningunni um hvernig samsetningu launanna er háttað svo fullnægjandi sé, svo að hægt sé að sjá hvert rekja megi launamuninn, að hve miklu leyti það sé vinnutíminn, lengd starfsaldurs eða menntun, mismunandi störf kvenna og karla og röðun þeirra á launaflokka, yfirvinnugreiðslur, þ.e. föst yfirvinna, yfirborganir og aðrar greiðslur umfram samningsbundna taxta sem skýri launamuninn svo að dæmi séu tekin um þau atriði sem helst hafa verið nefnd til skýringa á launamuni kynjanna.

Í Noregi hafa menn reynt að nálgast launamuninn með athugun sem þar var gerð meðal hinna starfandi. Þar í landi eru laun kvenna 70% af launum karla. Niðurstaða könnunarinnar var sú að menntun skýrði fjórðung launamismunarins, aldur, starfsaldur og starfsreynsla annan fjórðung og tegund starfsins og starfssvið enn einn fjórðunginn en svo var ekkert getið um þann fjórðung sem á vantaði. Spurningin er hvort hann nái til mismunar á grundvelli kyns. Væri fróðlegt að sjá niðurstöður af sambærilegri könnun hér á landi.“

Síðan kemur hér í lokin, herra forseti: „Á Alþingi árið 1984 lýsti forsrh. Steingrímur Hermannsson sig reiðubúinn að beita sér fyrir gerð samanburðarkönnunar á launakjörum kvenna og karla í samráði við aðila vinnumarkaðarins þar sem leitað var eftir upplýsingum um heildarlaun og samsetningu þeirra í einstökum atriðum, svo og um starfshlutfall, starfsheiti, starísaldur, skólagöngu o.fl. Ætti slík könnun að geta sýnt fram á í hverju launamunur kynja er fólginn, en með þá vitneskju yrði hægt að vinna meira markvisst að bættri stöðu kvenna í launamálum hér á landi.“

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Ég vil minna á það að við 1. umræðu þessa máls hér fyrr í dag óskaði ég m.a. eftir því að Þjóðhagsstofnun væri falið að meta þann útgjaldaauka sem kröfur flugfreyja hafa í för með sér vegna þess að Flugleiðamenn hafa einhliða og sjálfir lagt mat á það án þess að hlutlaus aðili hafi komið þar nærri. Þeir hafa borið það á borð fyrir alþjóð að hér sé um 100 millj. kr. útgjaldaauka að ræða og þeir segja að kröfur flugfreyja þýði 126% hækkun. Til að meta stöðuna, hvort um óbilgjarnar kröfur sé að ræða og hvort útgjaldaauki Flugleiða sé með þeim hætti sem þeir hafa gefið í skyn tel ég brýnt að Þjóðhagsstofnun leggi mat á þessar tillögur.

Mér er tjáð að það hafi ekki reynst unnt í nefndinni, þeir bera því við, svo mikill er flýtirinn að koma lögum yfir flugfreyjur taka af þeim samningsréttinn um sín kaup og kjör. Ég harma þetta, herra forseti, og ítreka þá ósk mína að þessar upplýsingar liggi fyrir.

Ég hefði óskað eftir því, herra forseti, að 3. umræðu um þetta mál yrði frestað þangað til Þjóðhagsstofnun hefur haft tækifæri til að leggja mat á þessar tillögur þannig að hún færi þá ekki fram fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Ég kem þessari ósk hér með á framfæri við hæstv. forseta.

Ég vil þó vekja athygli á því varðandi það að umræðan gæti farið fram á morgun er ljóst að miðað við þann dag sem er í dag, 24. okt., þar sem konur munu vafalaust í ríkum mæli leggja niður störf sín - m.a. hafa þær konur, sem sæti eiga hér á Alþingi, allar með tölu undirritað áskorun til íslenskra kvenna um að leggja niður störf - er konum, sem sæti eiga hér á Alþingi, ekki stætt á því að vera sjálfar við vinnu þennan dag. Þess vegna hlýt ég að fara fram á það, herra forseti, að þessari 3. umræðu verði frestað fram á föstudag og ættu þá þær upplýsingar, sem ég hef beðið um að yrðu lagðar fyrir hér og kæmu fram hér í umræðunni, að liggja fyrir og Þjóðhagsstofnun að geta haft eðlilegan tíma til að skoða þær forsendur sem Flugleiðir gefa sér í þessu máli.

Ég vil minna á að fyrr hér í máli mínu beindi ég ákveðnum spurningum til hæstv. sjútvrh., sem gegnir starfi forsrh., sem snerta þær samanburðarkannanir sem hæstv. forsrh. fyrir meira en ári síðan lofaði að framkvæmdar skyldu verða. Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort hann gæti gefið þær upplýsingar inn í þessa umræðu hvar á vegi þessi samanburðarkönnun væri.

Ég beindi máli mínu til hæstv. samgrh., sem mælir fyrir þessu frv. til l. um kjaradóm í verkfallsdeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf., og ég spyr hann og ítreka þá spurningu: Ef úrskurður kjaradóms liggur ekki fyrir fyrr en 1. des. er það þá hugmyndin að flugfreyjur verði án þeirra kjarabóta sem aðrir hafa fengið á almenna vinnumarkaðinum?

Ég óska einnig eftir því að hv. formaður samgn. svari deildinni því hvort þetta ákveðna atriði, sem ég hér nefndi, hafi komið til umræðu í nefndinni. Þetta hlýtur að vera mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hér fer fram.

Í síðasta lagi beindi ég máli mínu til formanns Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., og spurði hann um þá nefnd sem hann beitti sér fyrir að komið var á fót fyrr á þessu ári. Fulltrúum allra stjórnmálaflokka var boðin þátttaka í því starfi sem þar fer fram. Ég á sæti í þeirri ráðgjafarnefnd sem starfa á með þessari nefnd. En mér vitanlega hefur sú nefnd ekki verið kölluð saman. Ég óska einnig eftir upplýsingum um það.

Ég þarf varla nú að láta koma sérstaklega fram afstöðu mína til þessa máls. Í 1. umræðu fór ég mjög vandlega ofan í saumana á hinum raunverulegu launakjörum sem flugfreyjur búa við. Ég tel ekki ástæðu til nema tilefni gefist annaðhvort við þessa umræðu eða við 3. umræðu að endurtaka það sem ég sagði hér við 1. umræðu og rekja lið fyrir lið hvernig fjölmiðlar hafa dregið upp ranga og villandi mynd af kjörum flugfreyja. Það er ljóst og liggur fyrir að 60% af vinnutíma sínum vinna flugfreyjur utan dagvinnutíma. Þær vinna á lögskipuðum frídögum, um helgar og aðra daga - á dögum sem aðrar stéttir í landinu sem við vinnu eru hafa vaktaálag eða álagsgreiðslur. Það er það sem þær eru að biðja um, það er þeirra meginkrafa.

Ég vil segja það, herra forseti, að það er köld kveðja til íslenskra kvenna á þessum degi sem nú er runninn upp, 24. október, að þessi dagur skuli vera notaður hér á Alþingi Íslendinga til að setja lög á eina af kvennastéttunum í landinu. Þetta er köld kveðja, herra forseti. Ég mótmæli þeirri fyrirætlan og því sem hér liggur í loftinu, að setja eigi lög á flugfreyjur. Ég mótmæli því og mun greiða atkvæði gegn þessu frv.