23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég er raunar undrandi á þeim málflutningi sem hér hefur verið hafður í frammi því að það liggur ljóst fyrir þeim sem hafa skoðað þetta mál að verið er að ræða um allt annað en það frv. sem hér liggur fyrir. Þetta frv. er ekki um jafnrétti. Þetta frv. er ekki um félagslega aðstöðu kvenna eða annarra í þjóðfélaginu. Þetta frv. er ekki um dagheimili og þetta er ekki um launamismun kynjanna, hvað þá um tölvuskjá. (JS: Er þetta ekki um launamismunun?) Og það er ekki um kaup og kjör flugfreyjufélagsins eða annarra starfshópa í þjóðfélaginu.

Til hvers er þessi umræða sem hér hefur farið fram? Hún er ekki til þess að hjálpa flugfreyjum. Hún breytir ekki þeirra máli öðruvísi en þannig að hún gæti leitt til þess að þær yrðu nokkrum dögum lengur í verkfalli. Hún gæti breytt því, öðru ekki.

Svo var þessi hv. þm. að tala um það hvort menn væru með á nótunum. Ég held að það hljóti að vera alveg ljóst fyrir þingheimi að síðasti ræðumaður er ekki með á nótunum, hefur ekki einu sinni lesið það frv. sem hér liggur fyrir. Hvernig var spurningin sem hún lagði fyrir mig? Ég ætla að lesa hérna 2. gr. Þar er svarið, alveg skýlaust. Það verður að ætlast til þess að þegar þm. halda langar ræður viti þeir a.m.k. um hvað þeir eru að tala. (Gripið fram í: Líka þegar þær eru stuttar.) 2. gr. er þannig, með leyfi forseta:

„Kjaradómurinn skal við ákvörðun kaups og kjara flugfreyja hafa til viðmiðunar við úrskurð sinn síðastgildandi kjarasamning aðila, almennar kaup- og kjarabreytingar sem orðið hafa síðan hann tók gildi svo og breytingar á launum annarra starfsmanna Flugleiða hf.“

(JS: Fá þær þetta strax?) Auðvitað fá þær það þegar kjaradómurinn liggur fyrir. (JS: 1. desember?) Auðvitað fá þær það. Ef hv. þm. skilur mælt mál, en ég fer nú að efast um það.

Ég ætla að láta þetta nægja. En flugfreyjur geta þakkað hv. síðasta ræðumanni það ef þær verða í verkfalli nokkra daga. Það getur vel verið að þær líti á það sem kjarabót en ég lít ekki þannig á það og treysti alveg þeim mönnum sem verða kvaddir í kjaradóminn til að leysa þetta mál samviskusamlega.

Gerð er tillaga um að Þjóðhagsstofnun leggi mat á þessar kröfur sem liggja fyrir. Ætlum við hér á Alþingi að fara að úrskurða eitthvað um kaup og kjör þessara kvenna? Okkur kemur þetta bara ekkert við. Það er kjaradómur sem á að biðja um slíkt mat. Við erum ekki að kveða hér upp úrskurð um þeirra laun. Það snýst ekkert um það. Þetta snýst um það hvort Alþingi grípi inn í, reyni að leysa verkfallið með ákveðnum hætti. Ég væri ekki tilbúinn að taka þátt í því að úrskurða um kaup þessara kvenna, langt í frá.

Hv. 3. þm. Vestf. endaði sína ræðu á þá leið að hann liti svo á að eftir að lögin taka gildi, þ.e. eftir 31. des., geti verkfall haldist áfram án þess að boðað verði til nýs verkfalls. Þetta kom fram í nefndinni og formaður samninganefndar flugfreyjufélagsins taldi eins og ég að þær mundu þurfa að boða verkfall enda geta þær það strax og þær eru búnar að segja upp. Verkfall getur hafist 1. jan. þó að þær boði verkfall. Ef þær segja upp þessum kjaradómi 15. des., eins og þær geta skv. þessum lögum, geta þær boðað verkfall viku síðar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Ég vil bara ítreka það að þó að það væri ekki langur tími sem samgn. hafði til umráða var kallað á alla aðila. Allir fengu að leggja fyrir okkar gesti allar þær spurningar sem menn vildu og þar voru greið svör. Það kom fram hjá sáttasemjara að svolítil hreyfing hefði orðið á öðrum fundi sem haldinn var að hans tilhlutan. Síðan voru haldnir átta fundir og samningar hreyfðust ekki neitt á þeim fundum út af umræðum sem hér hafa farið fram.