16.12.1985
Neðri deild: 31. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

186. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal játa að það er hálfeinkennilegt að standa hér og skilja ekki almennilega þetta frv. Þar koma auðvitað til annir þm. þessa dagana.

Breytingin sem varð á almannatryggingalögum varðandi fleirburafæðingar varð að lögum vegna frv. sem ég flutti sjálf og hélt ég þar af leiðandi að ekki gæti orðið um þá erfiðleika að ræða sem hæstv. ráðh. er að reyna að lagfæra hér.

Í 11. mgr. 16. gr. stendur, með leyfi forseta: „Sé móður nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að hefja töku fæðingarorlofs meira en einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag skal hún eiga rétt á greiðslu skv. 6. mgr. og 7. mgr., þó aldrei lengur en fjóra mánuði.“

Ég hélt að það leiddi af sjálfu að hafi foreldrar fengið lengt fæðingarorlof vegna fleirburafæðingar stæði sams konar mánuður til boða.

Ég skal fúslega viðurkenna, hæstv. ráðh., að ég hef ekki skoðað þetta vandlega sökum ótal annarra mála sem hér eru í gangi. Og þar sem ég á sjálf sæti í hv. heilbr.- og trn. lofa ég að gera það, en ég játa hreinskilnislega að ég sé ekki alveg augljósa þörf fyrir þessa breytingu. Komist ég að raun um að svo sé er mér ljúft og skylt að veita henni brautargengi gegnum hið háa Alþingi. En ég þóttist hafa athugað þetta svo gaumgæfilega þegar breytingin var lögð til og ég skrifaði mitt frv., að ég hélt að þessa gerðist ekki þörf. En ég held að ástæðulaust sé að ræða það mikið heldur bíða meðferðar í hv. nefnd.