23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Forseti (Ingvar Gíslason):

Það er margt vel um þann lestur sem kom fram hjá hv. 10. landsk. þm., en það eru afar mörg fordæmi fyrir því að Alþingi hefur ekki í störfum sínum, ef ég má segja svo, virt þessi lög. Og kannske gildir svipað um þingstörfin, störf okkar þm., og heyskaparvinnuna. Þetta er skorpuvinna og við tökum stundum dálítið skarpt á og þá vinnum við mikið og vel. Nú höfum við unnið í þessu eina máli frá því kl. hálfsex. Þetta eru einir átta klukkutímar. Við fengum tveggja tíma matarhlé flestir. (GHelg: Hvað sagði, herra forseti? Átta klukkutímar?) Það eru um átta klukkutímar, kannske vel það, síðan við byrjuðum hérna. (GHelg: Ég vil vekja athygli á því að ég byrjaði störf í sambandi við Alþingi Íslendinga kl. 9 í morgun.) Ég var að nefna þetta eina mál, en hitt er alveg rétt að við höfum unnið hér frá morgni og alveg fram á þennan dag sem nú er upp runninn.

Eins og ég segi er mjög gömul venja hér í þinginu þegar þannig stendur á að við vinnum skorpuvinnu eins og bændur við heyskaparstörf, en hitt er annað mál að það sem hv. þm. var að segja er allt til eftirbreytni.