17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka forsetanum fyrir það tækifæri sem hann gefur mér til að bera af mér sakir. Þannig er að hv. 2. þm. Reykv. gat þess að í tillgr. er prentvilla sem ég leiðrétti í framsöguræðu minni áðan. Það hefur kannske farið fram hjá hv. þm. Þar sem stendur 5 á að vera talan 6.

Varðandi skipafélögin á árinu 1983. Það var af þeim verulegur gróði þá, um 200 millj. samtals eða svo. Ég taldi að þar væri um allt of háar fragtir að ræða og það ætti að pína þær niður, m.a. til að tryggja betri afkomu útflutningsframleiðslunnar í landinu. Það er bersýnilegt að fleiri en ég hafa talið að afkoma skipafélaganna væri góð. Einhverjir töldu t.d. að afkoma skipafélagsins Hafskips væri góð fram eftir öllu ári 1985. Einhverjir menn fóru að kaupa þar hlutabréf. Það er bersýnilegt að fleiri en ég hafa haft upplýsingar um að þarna væri um efnilega starfsemi að ræða. (Gripið fram í: Keyptir þú hlutabréf?)