17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

18. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þeir verða svo skemmtilega kvikusárir íhaldsmennirnir þegar þessi mál ber á góma að ég get ekki stillt mig um að leggja orð í belg. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á að þeir koma hér upp og halda mjög skrýtnar ræður hver á fætur öðrum, hv. þm. Sjálfstfl., og gjarnan um allt annað en dagskrármálið. Þannig hljóp hér í ræðustól hv. 4. þm. Norðurl. v. og hélt sögulega ræðu um bágindin í heiminum og á Íslandi og að þau væru vaxandi, en rakti það síðan ár ef ekki áratugi aftur í tímann og kenndi öllum öðrum um en sér og sínum flokksbræðrum sem væru engilhreinir og einir saklausir í þessum efnum. Það er þá væntanlega upp rennandi betri tíð með blóm í haga úr því að Sjálfstfl. er svo vel af guði gerður að hann er einn alsaklaus af syndum fortíðarinnar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Honum hlýtur þá að duga nokkurra ára stjórnarseta til að kippa þessu öllu í lag.

Og hvernig gengur, hv. þm.? Er þetta allt á réttri leið?

Ég vil einnig benda vini mínum hv. 2. þm. Reykv. á að rökfræðilega séð er ein stór þversögn í hans málflutningi hér. Hann hóf ræðu sína á því, fyrri ræðu sína væntanlega, að segja að þetta væri allt óþarft vegna þess að nú væri frjáls samkeppni, nú væri verðlag frjálst og þar af leiðandi væri vöruverðið lækkandi og þetta væri allt í góðu lagi. Þá spyr ég hv. þm.: Hvers vegna ekki könnun? Hefur hv. þm. þá ekki áhuga á að fá það fram ef það er trúa hans að vöruverð á Íslandi sé lægra og þetta sé allt í betra horfi vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið? Af hverju er hv. þm. þá svo mikið á móti því að skoða þá hluti? Því má það þá ekki koma fram? Ég skil ekki hv. þm. Ég verð að viðurkenna það.