19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

145. mál, stjórn fiskveiða

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Fyrst vildi ég aðeins víkja orðum mínum til hv. 3. þm. Suðurl. Ég ætlaði mér ekki að gerast þátttakandi í byggðakapphlaupi því sem fór fram í seinustu ræðu hans heldur aðeins að svara með nokkrum orðum þeim orðum sem hann beindi til mín í fyrri ræðu sinni þar sem hann gaf hugtakinu „frjáls samkeppni“ langt nef.

Ég ætla bara að minna þm. á það að vorið 1983 eða síðla vetrar bauð hann sig fram fyrir hönd flokks sem heitir Sjálfstfl. Þessi flokkur bauð sig fram undir sameiginlegri stefnuyfirlýsingu sem ég hef reyndar getið áður fyrr í mínu máli í annarri umræðu. Þar stendur undir yfirskriftinni „Frá upplausn til ábyrgðar“, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenska þjóðin verður að taka nýja stefnu, stefnu ábyrgðar í stað upplausnar, stefnu sem treystir atvinnu landsmanna með því að leysa atvinnulífið undan ofstjórn ríkisvaldsins og miðar að því að auka framleiðslu og bæta afkomu heimilanna,"- Ég endurtek: „með því að leysa atvinnulífið undan ofstjórn ríkisvaldsins og miðar að því að auka framleiðslu og bæta afkomu heimilanna“ - „stefnu sem leysir úr læðingi atorku og hugvit einstaklinga og leiðir til nýrra átaka í atvinnuuppbyggingu og hagsældar fyrir þjóðina:"

Ég vil meina að hv. þm. hafi ekki verið kosinn á þing fyrir tónlistarhæfileika sína eða sönghæfileika heldur hafi hann verið kosinn á þing vegna þess að kjósendur hans treystu því að hann ætlaði að standa fyrir og berjast fyrir þessum hugsjónum hér inni á þingi. Þegar hann svo kemur á þing gefur hann hugtaki eins og „frjálsri samkeppni“ langt nef.

Hv. 4. þm. Vestf. hélt ræðu við 1. umræðu þessa máls og sagði þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er hægt að venja hagsmunahópa eða jafnvel heilar stéttir með gjöf á ríkisjötuna. En það rekur að sláturtíðinni fyrr eða síðar. Þeir sem njóta öryggis ríkisafskiptanna í bili verða óþarfir til lengdar við framtíðarskipulag ríkishnappheldunnar. Þannig geta misskildir eiginhagsmunir leitt til sjálfstortímingar. Svo geta krosstré brugðist sem önnur tré ef ekki er að gáð.“

Hérna var hv. þm. að vara við afleiðingum þess að játast í ríkishnappheldu þá sem hér um ræðir. Vítin eru til að varast þau. Við skyldum horfa upp á það athugulum augum hver eru að verða örlög bænda t.d. hér á landi. Þeir játuðust í þessa ríkishnappheldu fyrir bráðum 60 árum síðan og hún hefur hert að þeim æ meir síðan þannig að nú er lífsafkoma þeirra gersamlega háð góðvilja ríkisvaldsins. Fækkunin í þessari stétt, sérstaklega á síðasta áratug, er ógnvænleg og þess er alls ekki langt að bíða að það verði engir bændur hér á landi heldur einhver tegund af ríkisbúskap í höndum ríkisins með fáeinu fólki sem mun þá streitast við að reyna að halda uppi þeirri framleiðslu sem nauðsynleg er fyrir landsmenn alla.

Ég er sammála hv. 4. þm. Vestf. um það að með þessari löggjöf erum við að bjóða þessari sömu hættu heim. T.d. tel ég að þess sé mjög skammt að bíða að verslunin með kvótana, sem fram fer, komist á ríkishendi. Það verði því sjútvrh. eða ráðuneytið sem deilir og drottnar, þ.e. selur kvótana milli manna og landshluta. Þá er mjög stutt í það að veiðileyfasala verði að veruleika hérna. Kannske er það það sem sumir menn vilja, kannske er það það sem sumir menn keppa að.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði: Það verður aldrei hægt að nýta sameiginlega auðlind nema með einhvers konar kvótakerfi. Ég held að það sé rangt. Ég er honum aftur sammála um það að þetta sé sameiginleg auðlind okkar allra. Þá verða menn að reyna að svara þeirri spurningu: Ef maður ekki vill bara stjórna og stjórna hvernig vill maður þá fara að? Hver á þessa eign? Eru það útgerðarmenn? Eru það sjómenn? Eru það fiskvinnslueigendur? Er það fiskvinnslufólk? Er það sölufólkið sem selur framleiðsluna? Eru það farmennirnir sem flytja hana? Og þar fram eftir götunum.

Endanlega hlýtur maður að standa frammi fyrir því einfalda svari að sameiginleg auðlind þýðir að hún er eign alþjóðar. Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég lagt fram brtt. við þetta frv. Hún er ekki flókin. Hún snýst einfaldlega um það að viðurkenna þennan eignarrétt. Við erum allir sammála - og það eru allir landsmenn meira að segja, tel ég, líka - að það er okkur ekki í hag að ofnýta fiskistofnana. Þess vegna er eðlilegt að setja hámark á aflanýtingu hverju sinni. Í samræmi við þetta, þ.e. annars vegar að hámarka aflanýtinguna og hins vegar að viðurkenna eignarrétt allra landsmanna á henni, hef ég lagt fram brtt á þskj. 395 við framlagt frv. til l. um stjórn fiskveiða. Till. þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. orðist svo:

Fyrir 1. desember ár hvert skal Alþingi ákveða hámarksafla eftirtalinna fiskistofna: þorsks, ýsu, ufsa, karfa, grálúðu, skarkola, síldar, loðnu, humars, hörpudisks og rækju.“

Þar með eru þeir fiskistofnar taldir sem helst eru nýttir hér í dag. Það kann vel að vera að í framtíðinni komi fleiri fiskistofnar til nýtingar. Þá kemur það til álita hvort hámarka þurfi nýtingu þeirra líka.

„2. gr. orðist svo:

Ráðherra skal skipta aflamagni hvers stofns jafnt á alla landsmenn og úthluta hverjum sínum hluta af aflamagninu með bréfi fyrir 15. janúar næsta árs.“

Þetta er í sjálfu sér ekki flóknara mál en að leggja skatta á landsmenn og dreifa skattseðli til þeirra allra.

„3. gr. orðist svo:

Einstaklingum er heimilt að ráðstafa sínum úthlutunarbréfum að eigin vild.“

Það er verið að úthluta fólki verðmætum, verðmætum sem eru þekkt að nokkru leyti. Þá ætti fólki að vera heimilt að selja þessi verðmæti þeim sem hafa vilja því verði sem býðst. Ég get ekki í fljótu bragði séð að hægt sé að leysa með öllu einfaldari hætti vandamál eignarréttarins annars vegar og það vandamál að hagkvæmni ráði því hvernig þessir fiskistofnar eru nýttir. Það er þá sú hagkvæmni sem býður mestan ágóða.

Menn gætu spurt sem svo: Hvað þá með þá aðila, t.d. byggðarlög, sem ekki geta keypt aflakvóta? Ef menn eru sammála um það - það kemur í ljós þegar þeir kjósa - að hér skuli haldið uppi byggð í landinu öllu kjósa þeir til þess þá menn sem það vilja tryggja. Það er þá þeirra manna að aðstoða þau byggðarlög, sem skortir nægilegt aflamagn til að hafa af því viðurværi, ef þeir svo vilja, annars ekki. Svo einfalt er það.

Þessi till. er nokkuð seint fram komin en hún er til orðin af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarin tvö ár um þetta grundvallaratriði, þ.e. rétt Alþingis til að úthluta verðmætum með þeim hætti sem það hefur gert nú undanfarið og með þeim hætti sem það ætlar sér að gera í framtíðinni. Þar sem ég tel að réttlæti sé ekki fullnægt með þeirri aðferð, sem notuð er og nota á, hef ég lagt fram þessa brtt. við frv.