19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ætli hæstv. menntmrh. sé oss einvers staðar nær? Ég ætlaði aðeins að bæta við leiðbeiningar mínar til hæstv. menntmrh. (Forseti: Það verður reynt að ná í hæstv. menntmrh.)

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að eiga örfá orð í viðbót við hæstv. menntmrh. þó ég skildi hæstv. ráðh. reyndar svo að hann væri heldur að biðjast undan því að ræða þessi mál mjög ítarlega hér af einhverjum ástæðum og teldi það ekki tímabært að eiga mikil orðaskipti um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég kemst þó ekki hjá því að benda á hver það var sem upphóf þær með ákveðnum ummælum hér. Það var ekki ég og hefði gjarnan mátt kyrrt liggja mín vegna, en ég kom hér upp vegna ákveðinna orða sem hæstv. ráðherra lét falla og bað um skýringar á þeim. Þær skýringar voru nú svona og svona, herra forseti. Það er nú þegar komið fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að ein aðalákúran, sem hæstv. ráðherra ætli að veita Lánasjóðnum hér, hún beindist í aðra átt, skeytið tók á sig beygju og hitti fyrir hæstv. fjmrh. og hans ráðuneyti og ganga nú gusurnar í ýmsar áttir frá hæstv. menntmrh. og verða þá bæði hæstv. fyrrv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. og formaður flokks hans fyrir.

Ég er þó alveg tilbúinn til þess að skoða það og ræða að ýmislegt mætti betur fara með rekstur Lánasjóðs ísl. námsmanna og reyndar þó ekki kannske ekki svo mjög reksturinn heldur skipulagið og úthlutunarreglur. Ég er í sjálfu sér mjög til í að ræða það að hægt sé að breyta þeim til betri vegar og gera þær sanngjarnari og hugsanlega einfalda þær eitthvað. En ég vil segja það við hæstv. ráðherra í fullri hreinskilni og honum til leiðbeiningar, vegna þess að ég tel mig hafa nokkra þekkingu á málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna, sem viðskiptavinur hans fram undir síðustu ár og sem umboðsmaður fjölmargra námsmanna, að það sem stendur að mínu viti mest fyrir þrifum skilvirkri starfsemi sjóðsins, það er mannekla og það eru ótryggar greiðslur, það óöryggi sem sjóðurinn hefur sífellt mátt búa við varðandi fjármagn. Þess er skemmst að minnast þegar íslenskir námsmenn erlendis máttu bíða í sex vikur umfram venjulegan skilafrest eftir sínum lánum. Áttu varla orðið fyrir mat sumir hverjir. Þetta var í tíð fyrrv. hæstv. menntmrh. Ragnhildar Helgadóttur. Auðvitað á að taka hart á því, hæstv. menntmrh., ef óreiða og lausung með fé á sér einhvers staðar stað, hvort sem það er hjá Lánasjóði ísl. námsmanna eða annars staðar, það er ekki skoðanamunur um það hér á hv. Alþingi og óþarft að ræða það frekar. Ef slíkt sannast á að sjálfsögðu að taka hart á því. En það er líka alvarlegur hlutur að halda nokkru slíku fram og jafnvel að taka sér þau orð í munn nema menn hafi verulega rökstuddan grun um að eitthvað slíkt sé á ferðinni og þess vegna held ég að orð hæstv. ráðherra hér áðan hafi í besta falli verið ógætileg og óheppilegt að nefna þessa hluti, óreiðu og lausung með fé, í sömu andrá og þessa stofnun.

Það sem ég ætla að reyna að útskýra hægt og rólega og vandlega fyrir hæstv. menntmrh. er hvernig hann kemur aftan að námsmönnum. Ég er ekki að segja að hann muni ekki reyna að standa við sín orð gagnvart þeim námsmönnum sem þegar hafa fengið lánsloforð frá sjóðnum. En ég verð að benda hæstv. menntmrh. á það að í raun er verið að koma aftan að allri námsmannahreyfingunni í landinu sem gerði samkomulag við stjórnvöld um ákveðnar gjörðir, þ.e. hinar nýju og breyttu endurgreiðslureglur, gegn því að sjóðnum yrði tryggt fullnægjandi fjármagn til að veita full lán. Stjórnvöld eru einhliða að brjóta þetta samkomulag nú. Það var reyndar brotið með því að tefja um tvö ár að fjárveitingar til sjóðsins færu í það horf að hann gæti lánað 100% en það tókst þó í tíð forvera hæstv. núverandi menntmrh. Hæstv. ráðherra Ragnhildur Helgadóttir náði þó þeim árangri og það hef ég áður tekið fram að ég met við hana að í hennar tíð komust útlán í 100% í fyrsta sinn. En sú sæla virðist eiga að verða skammvinn og hæstv. núverandi menntmrh. ekki búinn að vera nema nokkrar vikur í þessu ráðuneyti þegar hann leggur í rúst alla þessa gjörð forvera síns í ráðuneytinu. Nei, það er fyrst og fremst þetta samkomulag, hæstv. menntmrh., sem ég tel að stjórnvöld, með slíkum niðurskurði á fjárveitingum til Lánasjóðsins, brjóti einhliða og komi þar með aftan að námsmönnum og þá liggur það vonandi alveg ljóst fyrir hvað ég átti við með því.

Ég held að hæstv. menntmrh. gæti litið í þá vinnu sem forveri hans t.d. var búinn að leggja í gagnvart Lánasjóðnum. Hann veit það sjálfsagt, hæstv. ráðherrann, að það var keypt vinna af einkafyrirtæki - ég held að það sé í Kópavogi - sem gerði úttekt á Lánasjóðnum og það er ekki nema ársgömul skýrsla eða svo. Ég er ekkert sérstaklega að mæla með henni, ég held reyndar að hún hafi verið meingölluð og tiltölulega vitlaus, þannig að ég tek nú hæstv. ráðherra frekar vara við því að fara mikið eftir henni, en þetta var þó hæstv. fyrrv. menntmrh. að gera og vafalaust veit arftaki hans í ráðuneytinu það.

Síðan var það nokkuð skondið að hæstv. menntmrh. skyldi einmitt taka dæmi um aukafjárveitingar sem hann hefði láta renna til Lánasjóðs ísl. námsmanna nú í haust. Hvað þýddi þessi aukafjárveiting, hæstv. ráðherra, annað en það að sjóðnum hafi ekki verið séð fyrir nógu fé við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga á síðasta ári og hefur hæstv. ráðherra einhverja ástæðu til að ætla að þetta fari öðruvísi en einmitt svona ef hann sker niður áætlanir sjóðsins um mörg hundruð milljónir? Nei, auðvitað þýðir það annað af tvennu að námslánin verða skorin niður við trog næsta haust, um helming eða svo af því sem þá lifir eftir af fjárlagaárinu, eða að stórfelldar aukafjárveitingar, og það er það sem mér þykir sennilegra, verði veittar fyrir haustúthlutun Lánasjóðsins á árinu 1986. Það er auðvitað hreinn skrípaleikur, herra forseti, og ég veit að virðulegur forseti mælir ekki með að standa þannig að hlutunum. Ég treysti auðvitað á að það verði þó gert og menn verði ekki látnir á kaldan klaka með sín mál næsta haust. Mér sýnist líta vel út með það að hæstv. menntmrh. muni næsta haust fá aftur erindi frá Lánasjóðnum og þá verður ekki beðið um 181 millj., heldur verður beðið um svona 6-800 millj. í aukafjárveitingu. Vafalaust mun hæstv. menntmrh. veita þær, að langmestu leyti, eða ég ætla a.m.k. að vona að hann geri það. En þetta er auðvitað hreinn skrípaleikur.