19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það hafa þegar komið fram hér á Alþingi ýmsar hugmyndir um það hvernig standa beri að rannsókn þeirra viðskipta sem Hafskip hf. hefur átt við Útvegsbankann og aðra aðila. Ég er fylgjandi þeirri hugmynd að skipa nefnd alþm. til þess að kanna málið, skv. ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar, og var þess vegna meðflm. að þáltill. ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri hv. þm. í Nd. um það efni.

Það stjfrv., sem hér er til umræðu og leggur til að Hæstiréttur tilnefni þriggja manna nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf., er að mínu viti lakari kostur og óskynsamlegri fyrir margra hluta sakir. Ekki síst vegna þess að ég tel að slíkt fyrirkomulag muni ekki að fullu eyða tortryggni og grun manna um að verið sé að hylma yfir eða stinga einhverju undan. Enn fremur tel ég rangt að blanda Hæstarétti í málið á þessu stigi þar sem hann kynni að þurfa að taka á því síðar.

Hins vegar hefur þetta stjfrv. tekið verulegum breytingum til batnaðar við meðferð í hv. Ed. og er það vel. Þó var felld í Ed. mikilvæg brtt. frá þremur þm. stjórnarandstöðunnar sem hefði getað gefið Alþingi beina aðild að því að fylgjast með rannsókn málsins. Það fyrirkomulag er að vísu ekki hið ákjósanlegasta en miðað við aðstæður það eina sem gefið gæti Alþingi kost á því að sinna eftirlitshlutverki sínu þó að takmörkuðu leyti sé.

Ég hef því leyft mér, ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, að endurflytja þá brtt. sem flutt var í Ed. En til þess að auka líkur á því að hún verði samþykkt þá er hún flutt í breyttu formi, þar sem réttur alþm. til að hlýða á yfirheyrslur hefur verið felldur brott, og er það ekki síst vegna ummæla skiptaráðanda á fundi hv. fjh.og viðskn. um málið. Brtt. er því svohljóðandi:

„Á eftir 4. gr. komi ný grein svohljóðandi: Sameinað Alþingi kýs sex alþm. samkvæmt tilnefningu þingflokka til að fylgjast með rannsókn þessari og hafa þeir rétt til að kynna sér gögn málsins.“

Hógværari og lítillátari getur þessi tillaga ekki orðið sóma Alþingis vegna og því tel ég ekki hægt að sniðganga hana.