20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

1. mál, fjárlög 1986

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hv. þm. Geir Gunnarsson hefur gert hér grein fyrir meginsjónarmiðum okkar Alþýðubandalagsmanna og er þar ekki mörgu við að bæta. Megineinkenni þessa fjárlagafrv. er í fyrsta lagi rangar áherslur af ýmsu tagi, halli, aðallega dulinn, sem á eftir að koma í miklu mæli í ljós og svo aftur það, sem oft hefur verið á bent í seinni tíð, að erlendar lántökur eru enn að aukast.

Þegar þessi stjórn kom til valda gaf hún þá yfirlýsingu að erlend langtímalán sem hlutfall af þjóðarframleiðslu skyldu ekki fara fram úr 60%. Þessi tala var komin upp í tæp 63% á s.l. hausti, í seinasta sinn sem hún var reiknuð út. En svo kænlega hefur ríkisstj. komið fyrir málum að u.þ.b, sem þessi frægi rammi hennar var kyrfilega sprunginn hættu hagfræðingar hennar að reikna þessa prósentutölu út. Nú var þetta kallað landsframleiðsla og þar með duttu tölurnar niður um 10%. Það sem áður hét 63% varð einhvers staðar á bilinu 52-53%.

Það er ekki nóg með að þessi kerfisbreyting sé mjög vel til þess fallin að rugla fólk í ríminu og gera því ókleift að átta sig á því hvernig ríkisstj. gengur að efna þetta heit sitt. Það er bókstaflega ekki hægt að fá neinar upplýsingar um hvernig þetta hlutfall kemur út miðað við gömlu reikningsaðferðina.

Við stjórnarandstæðingar í fjhn. Ed. óskuðum sérstaklega eftir því við Þjóðhagsstofnun að kannað yrði hver þessi prósentutala væri nú og yrði á,næsta ári miðað við gömlu útreikningsaðferðina, þ.e. miðað við þjóðarframleiðslu eins og hún var áður reiknuð út, þannig að menn mættu meta hvort þessi tala væri enn á uppleið hvort þetta fræga hlutfall væri enn á uppleið og hversu langt það væri komið fram yfir loforðin, heitin um 60% hámarkið. En svarið var: Því miður. Þetta gerum við ekki. Þetta verður ekki reiknað. Við snerum okkur til Seðlabankans og fengum sama svar þar. Sem sagt, það er reynt að telja manni trú um það á tölvuöld að þetta hlutfall verði ekki með neinum hætti reiknað út, það sé svo flókið mál að þar verði að hverfa frá.

Ég verð að óska hæstv. fjmrh. og ríkisstj. alveg sérstaklega til hamingju með þennan árangur því að ég minnist þess varla, jafnmarga og ágæta embættismenn og við eigum, að þeir hafi verið jafntalhlýðnir við fyrri ríkisstjórnir og þessa. Það er hreinlega neitað að reikna út dæmi sem kemur sér illa fyrir ríkisstj. Almenningur í landinu á þess engan kost að gera þann samanburð sem hann hlýtur að þurfa að gera til að átta sig á því hvernig ríkisstj. hefur staðið sig á þessu kjörtímabili.

Menn hljóta auðvitað að spyrja að því hvers vegna í ósköpunum halli svo á ágæfuhliðina í ríkisfjármálum. Þar hljótum við að grípa til margra skýringa. Ein er sú, sem ég nefndi áðan, að rangar áherslur eru á ferðinni. Menn gæta sín afskaplega lítið á stóru tölunum en spara þeim mun meira á pínulitlu tölunum sem engu máli skipta. Ég hygg að þetta sé ein helsta ástæðan fyrir því hversu illa hefur farið.

Ég nefni eitt dæmi. Það er ákveðið að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt sjávarútvegsins. Þarna er sannarlega engin smáupphæð á ferðinni, um hálfur milljarður kr. En það er engra tekna aflað í staðinn og engin sérstök tilraun gerð til að skera einhverja útgjaldaliði niður þar á móti. Þetta kemur bara inn í dæmið og gerbreytir því að sjálfsögðu án þess að nokkuð komi þar á móti. Þetta er ein af mörgum ástæðum fyrir því hversu mjög hefur sigið á ógæfuhlið hjá okkur.

Annað augljóst dæmi hefur margsinnis verið rakið af okkur Alþýðubandalagsmönnum, þ.e. hin mikla viðleitni núv. ríkisstj. til að veita atvinnurekendum ýmiss konar skattaívilnanir með glufum og smugum á núverandi skattakerfi sem eiga hvað drýgstan þátt í að svo mikið vantar upp á sem raun ber vitni, t.d. á þessu ári, að endar náist saman.

Þegar menn eru búnir að fara þannig að ráði sínu byrja menn að reyna að skera niður pínulitlu upphæðirnar. Skorin er niður félagsleg þjónusta af ýmsu tagi eða framkvæmdaframlög til sveitarfélaga. Aftur á móti munar menn ekkert um að láta 300 millj. kr. í flugstöð á Keflavíkurflugvelli þó að þar sé um að ræða upphæð sem er álíka há og öll framlögin til sveitarfélaga og framkvæmda á vegum þeirra í grunnskólum, heilsugæslustöðvum, flugvöllum og höfnum.

Málefni Pósts og síma eru svo sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Eru þau einungis nefnd sem eitt dæmi af mörgum um þær aðferðir sem nú er beitt til að freista þess að ná endum saman. Þetta dæmi hefur þegar verið rakið í þessari umræðu, en ég verð að vekja enn frekari athygli á því því að það er svo einstæður kapítuli í viðskiptum ríkisins við ríkisstofnanir að það má helst ekki leynt fara.

Það er sem sé ætlunin að hækka taxta Pósts og síma um 16% á næsta ári. En um leið er ákveðið að 13 af þessum 16% gangi til ríkisins sem arðgreiðsla sem mun nema um 188 millj. kr. Þegar svo bætist söluskattsinnheimta ofan á þessa hækkun er um að ræða hreina skattheimtu í ríkissjóð undir dulnefninu „arður frá Pósti og síma“ upp á hvorki meira né minna en 235 millj. kr.

Ég þekki ofurlítið til í fjmrn. og til vinnubragða þar og veit að fjmrh. hafa látið sér detta ýmislegt í hug til að drýgja tekjurnar í ríkiskassann, en það get ég fullyrt að þetta er frumlegasta aðferðin sem menn hafa látið sér til hugar koma, a.m.k. seinasta áratuginn, til að fjölga krónunum í kassanum. Þarna er sem sagt um skattheimtu að ræða sem er dulbúin og falin á einkar sérkennilegan hátt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar almennt um fjárlagafrv. en einungis láta mér nægja að drepa á þær brtt. sem við flytjum á þskj. 386, fimm þm. Alþb.

Þar leggjum við áherslu á að hækka í fyrsta lagi nokkra liði sem varða framkvæmdir sveitarfélaga. Við hefðum vissulega getað tekið alla þessa liði og gert tillögur um hækkanir en við látum þó nægja að leggja hér áherslu á tvo liði sérstaklega, þ.e. annars vegar dagvistarheimilin og hins vegar byggingu grunnskóla. Hins vegar er ljóst að ekki vantar síður fé í hafnirnar eða flugvellina og er satt best að segja hörmungarástand ríkjandi í samskiptum ríkisins við sveitarfélögin hvað þetta varðar.

Þá erum við með tillögu um Lánasjóð ísl. námsmanna sem nokkuð hefur verið fjölyrt um hér í þinginu seinustu dagana og þarf ekki að bæta þar miklu við. Upplýst hefur verið í fjvn. að það vanti a.m.k. 425 millj. til að lánasjóðurinn geti veitt hliðstæða þjónustu við námsmenn og hann hefur gert á undanförnum árum. Hækkunin, sem tilkynnt var í dag og kemur fram í till. fjvn., er ekkert annað en hækkun vegna verðlagsbreytinga. Verði ekki um aðrar hækkanir að ræða er ljóst að það verður að mestu leyti að fella niður lán á síðari hluta ársins. Það mundi aftur á móti tákna það að þúsundir námsmanna yrðu að hverfa frá námi. Ég hygg að þjóð okkar yrði varla gerður verri grikkur en einmitt sá að menn hyrfu í stórum stíl frá námi.

Við Alþýðubandalagsmenn leggjum hér áherslu á nokkur atriði íslenskrar menningar sem við teljum mjög vanrækt í þessu frv. Við leggjum áherslu á að byggingu Þjóðarbókhlöðunnar verði haldið áfram og teljum algerlega fráleitt að skera niður framkvæmdir þar, ekki síst í því ljósi að þessa dagana er ríkissjóður að kaupa mjög óvænt stórbyggingar og virðist alls ekki vera í eins miklum vandræðum með framlög til slíkra mála og ætla mætti af framlaginu til Þjóðarbókhlöðunnar. Auðvitað ber að halda byggingu hennar áfram og þess vegna gerum við tillögu um það.

Við höfum hvað eftir annað bent á meðferðina á Kvikmyndasjóði. Þarna er um að ræða yngstu grein íslenskrar menningar, kvikmyndalistina, sem hefur verið í miklum uppgangi. Ég tel að verið sé að greiða kvikmyndaiðnaðinum íslenska afar þungt og kannske örlagaríkt högg ef fjárveitingar til þessa sjóðs eru skornar svo niður sem hér er gerð tillaga um.

Það er líka ljóst að listir hafa fengið æ rýrari framlög úr ríkissjóði á undanförnum árum miðað við það sem áður var og þar þarf að bæta úr. Listamennirnir eru ekki beinlínis á launalista ríkissjóðs og því er alltaf hætta á því að ekki fáist fullar verðbætur á framlög til þeirra. Hér er gerð tilraun til að lyfta þessum fjárhæðum ofurlítið upp með hliðsjón af því hversu mjög þær hafa rýrnað á liðnum árum.

Ég vek á því athygli að í tillögu okkar eru gerðar tillögur um tekjuöflun eða niðurskurð framkvæmda sem nema hærri fjárhæðum en samanlögð útgjaldaupphæðin er sem við Alþýðubandalagsmenn gerum tillögu um. Í fyrsta lagi leggjum við til að lagður sé á sérstakur stóreignaskattur að upphæð 300 millj. kr., en í öðru lagi leggjum við til að framkvæmdir við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli frestist og að lán, sem áformað er að taka í flugstöðina, gangi til annarra málefna. Eins og ég hef þegar tekið fram ganga núna ár eftir ár til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli álíka háar fjárhæðir og ganga til allra grunnskóla, allra heilsugæslustöðva, allra flugvalla og allra hafna á landinu. Þetta er hneyksli. Ef menn telja sig hafa þörf fyrir það vegna tekjuleysis að skera niður framkvæmdir átti auðvitað fyrst af öllu að skera niður þessa framkvæmd.