28.01.1986
Sameinað þing: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

Um þingsköp

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hér var dreift á hv. Alþingi í gær svari við fsp. hv. þm. Helga Seljans og Sighvats Björgvinssonar um útflutning á ferskum fiski. Þar eru upplýsingar um hve mikið hefur verið flutt út á síðasta ári, og ég var að vekja athygli á því að það væru ekki 10%, eins og ráðherra nefndi hér áðan, heldur um 20% af þeim afla sem leyfður er skv. kvóta. 26,6 þús. tonn í gámum og 26,5 þús. tonn í veiðiskipum. (Gripið fram í.) Botnfiskaflinn? Það er kvótaaflinn fyrst og fremst sem er seldur svona.

En það sem ég vildi vekja sérstaka athygli á er að í svarinu er fram tekið að að jafnaði megi gera ráð fyrir að munur á verði sé 80%, og eins og sölunni hefur verið háttað að undanförnu gæti verið um tvöföldun verðs að ræða. Ég vil vefengja þessar tölur, ekki að því leyti til að ég tel að það sé rétt að miðað við frádreginn beinan kostnað séu hlutirnir þannig að hér sé jafnvel um tvöföldun verðs að ræða, þ.e. þegar búið er að draga frá flutningskostnað og sölutoll, sölukostnað erlendis. En það gleymist ansi stór hlutur, og ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því og ég óska eftir að þar um komi frekari svör. Það er rýrnunin á þessum afla. Það er rýrnunin á þeim afla frá því að hann er sendur úr íslenskri höfn eða úr íslensku veiðiskipi þar til hann er seldur erlendis.

Mér er kunnugt um að flestir telja að rýrnunin sé að lágmarki 10%. Í öðrum tilfellum getur þessi rýrnun verið allt upp í 25%. Hver verður þá verðmismunurinn? Mér er kunnugt um að það gerist æ oftar að fiski er landað beint úr veiðiskipum í gáma án þess að vigtað sé þegar komið er í viðkomandi fiskihöfn. Það veit enginn hver rýrnunin er en mér er einnig kunnugt um að annar háttur var hafður á við þessar aðstæður á s.l. vori vestur á Snæfellsnesi. Þeir sem voru að landa í gáma vigtuðu fiskinn upp úr bátum. Síðan kom fram hvað mikið var selt erlendis. Reynslan varð sú að rýrnunin var 24%.

Það er hægt að slá upp svona tölum sýknt og heilagt í fjölmiðlum og jafnvel gefa um það svar hér á hv. Alþingi að verðmismunur hér að lútandi sé 80-100%, en þessar tölur eru ekki réttar nema sá þáttur sem ég hef hér nefnt sé einnig tekinn til greina. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra að við fáum frekari svör um þennan þátt í sambandi við verðviðmiðun á afla lönduðum hér heima og erlendis.