03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

164. mál, almannatryggingar

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Áður en þessu frv. verður vísað til nefndar, sem ég á von á að verði gert, er eitt atriði sem ég vildi fá upplýst hjá hv. flm. Hvernig tengist þetta frv., sem nú er til umræðu, beinlínis hinu fyrra frv. um breytingar á lögum um fóstureyðingar? Verði frv. um breytingar á fóstureyðingarlöggjöfinni fellt er þá þetta frv. dregið til baka eða verður þá ekki unnið að því að koma því gegnum þingið? Og eins: Verði frv. um breytingar á lögum um fóstureyðingar samþykkt er þá tryggt að þetta frv. fari í gegn? Ég held að við þurfum að átta okkur á því hvort þessi frv. eru það nátengd að það verði annaðhvort að samþykkja þau bæði eða fella bæði.

Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Einstæðar mæður eru sá hópur í samfélaginu sem býr við hvað lökust kjör. Ég get vel stutt verulegar bætur þeim til handa án þess að tengja það öðrum málum.