04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

221. mál, gallar í varanlegri fjárfestingarvöru

Svavar Gestsson:

Herra forseti. 3. maí s.l. gaf fjh.- og viðskn. Nd. út svohljóðandi nál. á þskj. 840:

„Nefndin hefur athugað frv. um breyt. á 1. um lausafjárkaup og er samþykk því að það efnisatriði, sem er undirrót frv., varðandi skaðabætur vegna galla í varanlegri fjárfestingarvöru eins og steinsteypu þarfnist sérstakrar athugunar, enda sé með öllu óviðunandi að seljendur slíkrar vöru beri ekki raunverulega ábyrgð á vöru sinni, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. júní 1983. Hins vegar getur nefndin ekki fallist á frv. í núverandi mynd og telur að málið þarfnist sérstakrar athugunar. Með tilliti til þess að málið er brýnt telur nefndin að vinna eigi þegar sérstakt frv. um þetta atriði án tillits til endurskoðunar kaupalaganna að öðru leyti.

Nefndin telur eðlilegt að ríkisstj. láti vinna þetta verk og leggi fyrir næsta þing frv. um þetta efni.

Með tilvísan til þessa leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstj."

Undir nál. rituðu Páll Pétursson, Halldór Blöndal, Kjartan Jóhannsson, Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Svavar Gestsson.

Í tilefni af þessu nál. og þeirri niðurstöðu sem þar með var samþykkt hér á hv. Alþingi varðandi breytingar á kaupalögunum hef ég ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni lagt fram svohljóðandi fsp. til viðskrh. um aðgerðir til þess að tryggja rétt neytenda gegn svikum og göllum í varanlegri fjárfestingarvöru, svo sem steinsteypu:

„Hvað hefur ráðuneytið gert til undirbúnings að flutningi frv. til þess að tryggja rétt neytenda gegn svikum eða göllum í varanlegri fjárfestingarvöru, sbr. nál. fjh.- og viðskn. Nd. frá 3. maí 1985 á þskj. 840 og afgreiðslu deildarinnar á frv. til l. um breyt. á 1. nr. 39 frá 19. júní 1922 í framhaldi af því?"