04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

131. mál, Hollustuvernd ríkisins

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér er spurt: „Hvenær hyggst heilbrrh. ljúka endurskoðun laga um hollustuhætti og hollustuvernd.“

Skv. 10. tölul. í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 109/1984, en áður giltu lög nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, eins og lögin heita, skulu lögin endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku. Þetta þýðir að ef fyrri lögin hefðu áfram verið í gildi hefði þetta átt að vera fyrir 1. ágúst 1987 vegna þess að þau tóku ekki gildi fyrr en frá þeim tíma árs.

Lögin sem sett voru 1984 eru undirrituð 14. nóvember það ár. Þannig má segja að ákveðnir þættir laganna hafi verið endurskoðaðir þá og enn fremur voru breytingar gerðar á lögunum núna í vetur eins og hv. þm. greindi frá. Ætlun ráðuneytisins hafði verið að hefja frekari endurskoðun á þessu ári þannig að unnt yrði að leggja fram frv. til nýrra laga í upphafi næsta þings. Um frekari framkvæmd þess máls liggur meira fyrir snemma á þessu ári eða undir vorið vegna þess að ætlunin er að kveðja til aðila frá nokkrum stofnunum, þ.e. Sambandi ísl. sveitarfélagá og öðrum sem málið snertir til þess að standa að þeirri athugun.

Ég vil enn fremur benda á að nú sem stendur er unnið að athugun skv. 9. tölul. í ákvæðinu til bráðabirgða þess efnis hvort sameina eða samræma megi frekar en gert er með lögunum starfsemi aðila sem fara með ýmiss konar hollustuhátta- og heilbrigðiseftirlit og eftirlit til varnar skaðlegum áhrifum umhverfis á heilsufar manna. Að þessari athugun er unnið á vegum heilbr.- og trmrn., samgrn., landbrn., félmrn. og sjútvrn., en á vegum þessara ráðuneyta starfa aðilar sem fara með ýmiss konar heilbrigðiseftirlit, þ.e. Hollustuvernd ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins, Ríkismat sjávarafurða, yfirdýralæknir og Vinnueftirlit ríkisins. Ég vænti þess að niðurstöður þeirra athugana geti legið fyrir á næstunni.