10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

106. mál, greiðsluskilmálar húsnæðislána

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 116 hef ég leyft mér að flytja frv. til laga um greiðsluskilmála húsnæðislána.

Það er nokkuð langt síðan þetta frv. var fram lagt, en ýmsar aðstæður hafa ráðið því að framsaga fyrir þessu máli hefur dregist eins lengi og orðið er og fer ég ekki nánar út í það.

Frv. þessu er, eins og segir í grg., ætlað að taka afdráttarlaust af allan vafa um þann sjálfsagða rétt fólks í þessu landi að eignast íbúðarhúsnæði án þess að fórna til þess rétti sínum til heilbrigðs lífs.

Frvgr. eru bara þrjár og hljóða þannig, með leyfi virðulegs forseta:

„1. gr. Tilgangur þessara laga er að tryggja réttláta greiðslubyrði af öllum lánum einstaklinga sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin afnota.

2. gr. Greiðslur af lánum, sem lánastofnanir veita eða hafa veitt einstaklingum vegna öflunar eigin húsnæðis, skulu miðast við að heildargreiðslubyrði hjá lántakanda verði ekki meiri en svo að hann geti framfleytt sér og sínum samtímis því að endurgreiða lánin á 40 árum.

3. gr. Lög þessi öðlist þegar gildi.“

Virðulegi forseti. Hvað 1. gr. viðvíkur, þ.e. tilgangi þessara laga að tryggja réttláta greiðslubyrði af öllum lánum einstaklinga sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis, er skemmst frá því að segja að undanfarin tvö ár hefur Húsnæðisstofnun haft uppi tilraunir eða viðleitni til að jafna greiðslubyrði einstaklinga af þeim lánum sem Húsnæðisstofnun sjálf hefur veitt. Sú viðleitni hefur greinilega borið árangur. Það er að vissu leyti ekki síst vegna þess að greiðslubyrði þeirra lána sem fólk hefur tekið hjá Húsnæðisstofnun er þegar léttasta byrðin sem fólk ber af húsnæðislánum. Byrðin af lánum sem það hefur tekið í bankastofnunum eða öðrum stofnunum en hjá Húsnæðisstofnun er miklu þyngri og það er sú byrði sem er að sliga fólk nú.

Á síðasta ári gerði Húsnæðisstofnun líka tilraun til að hjálpa fólki, sem átti í erfiðleikum við að standa skil á lánum sínum hjá öðrum lánastofnunum, með því að veita fólki viðbótarlán úr lánasjóði Húsnæðisstofnunar með nokkuð svipuðum kjörum og almennt tíðkast um lán þar, þ.e. um það bil 15 ára greiðslutíma. Þessi hjálp var náttúrlega vel þegin, en hún dugði því miður í flestum tilvikum afar skammt. Nú er komið að öðrum lánastofnunum en Húsnæðisstofnun að taka þátt í því að greiða fyrir fólki. Við erum ekki að tala um aukin útgjöld fyrir lánastofnanir. Þetta er útlátalaust fyrir þær. Hér er um það að ræða að breyta þeim lánum, sem fólk er með í bönkum og sjóðum sem lána til skamms tíma, í lengri lán og hér er líka um það að ræða að fólk, í samvinnu við þær lánastofnanir sem það skiptir við, skipuleggi skuldagreiðslur eða skuldabyrði sína þannig að það geti staðið undir henni með sæmilegum hætti eða eins og er sagt í 2. gr.: Hámark þeirrar kröfu sem hægt sé að gera í þessu tilviki er að heildargreiðslubyrði hjá lántakanda verði ekki meiri en svo að hann geti framfleytt sér og sínum samtímis því að endurgreiða lánin á 40 árum.

Ég tel að hér sé verið að tala um sjálfsagt sameiginlegt hagsmunamál lántakanda og lánastofnana. Það er afskaplega lítill tilgangur í því fyrir lánastofnanir að lána fólki peninga algerlega án tillits til þess hvort fólkið getur endurgreitt þessi lán eða hvernig. Auðvitað hlýtur það að vera báðum aðilum sameiginlegt hagsmunamál að þessi viðskipti gangi þannig fyrir sig að hvorugur aðilinn skaðist af þeim en báðir haldi sínu.

Þessi stuttu lán til fólks sem stendur í fjárfestingum, eins og hefur verið stundað hér, hafa bæði stuðlað að og stafað af - það er erfitt að gera grein fyrir því hvort er eggið og hvort er hænan í þessum leik - að veltuhraði þeirra peninga sem verið er að lána til einstaklinga er gífurlega mikill. Það virðist eins og það sé bönkunum ákveðið kappsmál eða hagsmunamál að halda þessum veltuhraða uppi og auka hann ef nokkuð er. Við vitum af hverju þetta stafar. Þetta stafar að nokkru leyti af því að það fé sem bankarnir hafa til umráða til að lána einstaklingum er takmarkað vegna þess að mjög stór hluti innistæðna í bönkunum er bundinn í annars konar lánum. Til þess, eins og bankarnir orða það, að geta sinnt sem flestum auka þeir veltuhraða þeirra takmörkuðu peningaupphæða eða „fjármuna“, eins og kallað er, til að geta dreift „fyrirgreiðslu sinni“, eins og bankarnir kalla það, til fleiri. - Í framhjáhlaupi verð ég að viðurkenna að mér finnst betur fara á að tala um peninga en fjármuni því að hér erum við að tala um peninga. Auk þess er afskaplega leiðinlegt orð sem notað er í viðskiptum banka við einstaklinga og fyrirtæki, en það er „fyrirgreiðsla“. Auðvitað er ekki um fyrirgreiðslu að ræða þegar einstaklingur fær lán í banka. Það er einfaldlega um viðskipti að ræða, leigu á peningum.

Þess vegna, virðulegi forseti, álít ég að hér hvíli ábyrgðin ekki bara á herðum þeirra einstaklinga sem leita eftir lánum til bankanna og bjóða fram persónulegar ábyrgðir eða veð. Ábyrgðin hvílir auðvitað líka á bönkunum. Þá á ég ekki bara við þeirra ábyrgð að því leyti að ávaxta það fé sem þeim hefur verið falið af sparifjáreigendum heldur líka þá ábyrgð að þau viðskipti sem þeir stofna til við lántakendur sína séu með það eðlilegum hætti að, eins og ég sagði í upphafi máls míns, hvorugur skaðist af en báðir haldi sínu.

Hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. létu að því liggja í máli sínu fyrir áramót að þeir mundu mælast til þess við bankana að þeir tækju upp þau vinnubrögð sem er lýst í þessu frv. Ég verð að viðurkenna að ég taldi kannske þar af leiðandi minni ástæðu til að flytja þetta frv. úr því þessir háu herrar voru búnir að taka upp á sína arma það markmið sem þessu frv. er ætlað að fullnægja. En nú er reynslan sú að annaðhvort hafa bankarnir ekki hlustað mjög grannt á hæstv. forsrh. eða fjmrh. eða þá að þessir hæstv. ráðh. hafa ekki komið þessum tilmælum sínum til bankanna. Mig grunar, ég hef reyndar fyrir því orð bankamanna, að þessi tilmæli hafi alls ekki komið frá fjmrh. eða forsrh. til bankanna. Til þess að létta þessum háu herrum róðurinn væri auðvitað einfaldast að samþykkja stuttleg lög eins og þau sem hér er verið að leggja til.

Nú geta menn sagt sem svo: Til hvers að vera að lögbinda atriði sem þessi sem raunverulega ættu að tilheyra því sem menn kalla frjálsa samninga og sjálfsagða hluti? Vandræðin eru þau að menn líta greinilega ekki á þetta sem sjálfsagða hluti. Vandræðin eru þau að fjöldi fólks á eignir sínar undir hamrinum, þ.e. á alls ekki lengur sínar eignir í raun og veru, vegna þess ástands sem skapast hefur af þeim orsökum að menn líta ekki á samningsgerð á borð við þessa sem sjálfsagðan hlut. Vegna þess að það eru mannréttindi að menn eigi þak yfir höfuðið verður stundum að grípa inn í viðskipti um jafnsjálfsagða hluti og þessa með lagagreinum sem fyrst og fremst er ætlað að tryggja einstaklingum þann rétt að koma þaki yfir höfuð sér ásamt því að geta framfleytt sér og sínum á u.þ.b. hálfri ævinni. Lengra er nú ekki gengið í þeim kröfum sem fram koma í þessu frv.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.