29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

36. mál, tollar Efnahagsbandalagsins á saltfiski

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í desember 1984 ákvað ráð Efnahagsbandalags Evrópu að leggja að nýju innflutningstoll á saltfisk, saltfiskflök og skreið, 13% á óverkaðan og þurrkaðan saltfisk svo og skreiðina, en 20% á saltfiskflökin. Sé litið á núverandi lönd bandalagsins og Spán og Portúgal, sem ganga í bandalagið í byrjun næsta árs, sem eina heild sést að tollurinn hefur á árunum 1983-1984 tekið til um 25% af útflutningi Íslands til þessara landa, en á árunum 1981-1982 til tæplega 40% af útflutningnum til sömu landa. Fríverslunarsamningur Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu, sem gekk í gildi fyrir iðnaðarvörur 1973 og fyrir vissar sjávarafurðir 1976, tók ekki til þessara sjávarafurða. EBE hafði veitt undanþágu frá tolli á þessum vörum frá árinu 1971 og kom fram í viðræðum vegna gerðar fríverslunarsamningsins að mjög ólíklegt væri að tollur yrði tekinn upp á ný. Lagalegan rétt hafði bandalagið þó til þess.

Á seinni hluta síðasta áratugs var fyrirsjáanlegt að bandalagið mundi stækka vegna áhuga Grikkja, Portúgala og Spánverja á inngöngu í það. Af Íslands hálfu var fljótlega og ítrekað vakin athygli á því, m.a. í sameiginlegri nefnd Íslands og EBE á grundvelli fríverslunarsamningsins, að innganga þessara ríkja gæti skapað vandamál í viðskiptum Íslands við bandalagið og var lögð á það áhersla að EBE beitti áfram tollaundanþágu sinni á þessum vörum. Þetta var m.a. gert vegna inngöngu Grikklands í bandalagið 1981 og hélst tollundanþágan þá.

Fyrrv. viðskrh. tók málið upp á Lúxemborgarfundinum og ráðherrafundi EFTA. Í bréfi er hann skrifaði þáverandi varaforseta framkvæmdanefndar EBE í nóvember 1984 vísaði hann til viðræðna á ráðherrafundi EFTA og varaði við því að tillaga framkvæmdanefndar bandalagsins til ráðs bandalagsins um að leggja innflutningstollinn á yrði framkvæmd og lagði til að hún yrði afturkölluð. Í því sambandi voru hinir mikilvægu hagsmunir Íslands í málinu undirstrikaðir. Á ofangreindan hátt var m.a. reynt að koma í veg fyrir endurupptöku tollsins.

Eftir að ráð EBE, skipað sjávarútvegsráðherrum. samþykkti í desember 1984 að leggja að nýju tolla á saltfiskinn, saltfiskflökin og skreiðina hefur á ýmsan hátt verið reynt að fá bandalagið til þess að endurskoða ákvörðun sína. M.a. tók Matthías Á. Mathiesen viðskrh. mál þetta upp í viðræðum sínum við ráðamenn í framkvæmdanefnd EBE í Brussel í maí s.l. Þar gerði hann ítarlega grein fyrir málinu, m.a. í viðræðum við framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála og framkvæmdastjóra utanríkismála. Tilgangur þeirra viðræðna var að fá EBE til að falla frá ákvörðun sinni, en til vara að tollur bandalagsins yrði ekki tekinn upp að fullu, heldur lægri tollprósenta og þá jafnframt að tollfrjáls kvóti fyrir saltfisk og skreið, sem er um 25 þús. tonn, yrði stækkaður til muna með tilliti til verulegrar aukningar á innflutningsþörf Efnahagsbandalagsins við aðild Portúgals og Spánar. Var bent á að þörf Íslendinga einna fyrir tollfrjálsan kvóta væri 50-60 þús. tonn á ári. Útflutningur okkar á kvótavörunum 1981-1984 var að meðaltali 49 þús. tonn á ári.

Þessu til stuðnings var m.a. bent á að nánast hefði verið gengið út frá tollfrelsi í viðræðunum um fríverslunarsamninginn við EBE á sínum tíma. Ísland væri mjög háð útflutningi á þessum vörum til EBE-landanna, Portúgals og Spánar. Ákvörðunin hefði hamlandi áhrif á viðskipti og væri ekki í samræmi við ýmsar yfirlýsingar EBE, m.a. um óbreytt ástand varðandi tolla o.fl. í tengslum við fyrirhugaðar viðskiptaviðræður á vettvangi alþjóðlegu tolla- og viðskiptastofnunarinnar, GATT. Auk þess var bent á að fremur væri þörf á að halda tollfrelsinu og jafnvel auka kvótann en að fella það niður þegar þörf væri á auknum innflutningi saltfisks við inngöngu Portúgals og Spánar í bandalagið.

Fram hafði komið áður en viðræðurnar hófust að endurálagning tollsins ætti rætur sínar að rekja til óskar portúgalskra stjórnvalda í aðildarviðræðunum við bandalagið. Hafi Portúgalar viljað skapa sér betri samningsstöðu til að fá fiskveiðiréttindi í skiptum fyrir aðgang að mörkuðum og hefði fiskimáladeild EBE tekið málið upp á sína arma án tregðu. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei getað fallist á slík tengsl milli viðskiptafríðinda og fiskveiðiréttinda. Hafa þau rök m.a. verið færð fram að slík tengsl byggðust ekki á texta hafréttarsamningsins og væru vafasöm með tilliti til GATT-samningsins.

Af hálfu framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála í bandalaginu var haldið fram í viðræðunum við viðskrh. að bréf framkvæmdanefndarinar til íslenskra stjórnvalda árið 1976 við gildistöku bókunar nr. 6 tengdi saman viðskiptafríðindi fyrir sjávarafurðir skv. samningnum og fiskveiðiréttindi fyrir bandalagið. Af Íslands hálfu var þessu mótmælt og það ekki í fyrsta skipti. Bandalagið hefði á sínum tíma ekki gert neinn fyrirvara, heldur einungis lýst þeirri von sinni að samningaviðræður bandalagsins og Íslands um vandamál almennara eðlis viðvíkjandi fiskveiðimörkum gætu hafist í náinni framtíð og jafnframt að varanlegir samningar tækjust sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Í þessu sambandi var bent á að Finn Gunderlach í framkvæmdastjórn EBE hefði í viðræðum um fiskveiðimál við Íslendinga síðar á sama ári lýst því skýrt og skorinort yfir að bandalagið hygðist ekki tengja saman viðskiptafríðindi og fiskveiðifríðindi.

Áfram verður reynt með ýmsum hætti að fá Efnahagsbandalag Evrópu til að fella niður áform sín um tollinn, lækka hann og/eða hækka tollkvótann. Fyrst og fremst verður málið reifað beint gagnvart bandalaginu, t.d. mjög bráðlega vegna viðræðna um breytingu á fríverslunarsamningi Íslands og bandalagsins vegna inngöngu Portúgals og Spánar. Þá verður málið tekið upp við fulltrúa portúgölsku stjórnarinnar á EFTA-ráðherrafundinum sem byrjar í Genf nú í byrjun nóvember. Af hálfu íslenskra stjórnvalda verður haldið áfram að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fá saltfisktollinn felldan niður eða tollfrjálsan kvóta hækkaðan svo að eðlileg saltfisksviðskipti geti haldið áfram.