29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

36. mál, tollar Efnahagsbandalagsins á saltfiski

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Ég tek eftir því að það kom fram í svari hans að hér sé á leiðinni, að líkindum, tilraun til þess að fá fiskveiðiréttindi í skiptum fyrir það að falla aftur frá þessum tolli sem aldrei átti á að leggja.

Þetta er hörmuleg frammistaða af hálfu Efnahagsbandalagsins vegna þess, eins og ég gat um áðan, að við gerðum samninga á þeim grundvelli að þessi tollur væri ekki. Sá samningur var í jafnvægi. Nú er verið að biðja okkur um að borga tvisvar, að borga aftur fyrir aðgang að Efnahagsbandalagslöndunum.

Í annan stað er ótækt og óhæfa, eins og kom fram hjá ráðherra, að tengja saman aðgang að náttúruauðlindum og tollafríðindi. Því munum við ævinlega neita og það er í andstöðu við anda GATT-samkomulagsins.

Ég tel að Efnahagsbandalagið sé að níðast á okkur. Ég tel að Efnahagsbandalagið sé að brjóta eigin markmið og ég tel að Efnahagsbandalagið hafi í rauninni verið að kippa grundvellinum undan þeim samningi sem við gerðum við það. Við gengum út frá tollfrelsi í þessari grein, eins og kom líka fram í svari ráðherrans.

Ég hef líka orðið þess var að það er auðvelt að tala þessu máli á erlendum vettvangi. Ég hef gert það á vettvangi EFTA. Ég hef gert það á vettvangi Evrópuráðsins. Og málstaður okkar vekur skilning.

Ég tel ekki að við eigum að snúa okkur fyrst og fremst að því að fá hækkaðan kvóta. Við eigum að halda okkur við prinsipið í þessu máli, við grundvallaratriðin, við þau markmið sem Efnahagsbandalagið hefur, við þann grundvöll sem var að samningum við okkur á sínum tíma.

Ég hreyfði því í blaðagrein í sumar, og ég vil beina því aftur til ráðherra, að við eigum að gera út sendinefndir til einstakra ríkisstjórna Efnahagsbandalagsins, til hvers einstaks ríkis Efnahagsbandalagsins, til þess að tala okkar máli. Málinu hefur verið talað, eins og kom fram í svari ráðherra, á vettvanginum í Brussel, á vettvangi framkvæmdanefndar Efnahagsbandalagsins og við aðra aðila sem þar er við að ræða. Ég tel að málstaður okkar sé svo góður að við eigum að sækja fram í þessu máli, en ég tel líka, og byggi það á reynslu minni af því að reifa þetta mál á erlendum vettvangi, að við eigum að snúa okkur til ríkisstjórna hvers einstaks ríkis innan Efnahagsbandalagsins með okkar málaleitan og gera út sérstaka sendinefnd til þess.

Þessu vildi ég, herra forseti, koma á framfæri við hæstv. viðskrh. varðandi áframhaldandi meðferð málsins og vænti þess að hann taki undir það.