11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

124. mál, bann við framleiðslu hergagna

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það efast enginn um vilja eða ásetning flm. þessarar till. en ég vil aðeins vekja athygli á því að þegar talað er um að lýsa yfir andstöðu við hugmyndir um að íslenskt hugvit verði nýtt til hátækniiðnaðar sem tengist vígbúnaði, þá gæti slíkt hugvit verið nýtt til hátækniiðnaðar sem tengdist einhverju öðru er gæti nýst til annars en vígbúnaðar. Hér eru mörkin á milli þess að hugvit sé nýtt til góðra hluta og svo til hluta, sem við erum andvíg, ákaflega nákvæm. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu hér, þannig að slík tillaga til samþykktar sé ekki þannig úr garði gerð að við séum að lýsa andstöðu við þróun, við séum að lýsa andstöðu við nýtingu íslensks hugvits til hluta sem við viljum svo mjög gjarnan að fái tækifæri til þess að þróast mannkyninu til góðs, hvort heldur það er fyrir okkur hér eða aðra sem þess gætu notið.

Ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram. Eins og ég sagði áðan efast enginn um góðan vilja og ásetning þeirra sem þessa till. flytja. En mörkin hér á milli eru svo nákvæm að áður en slík till. yrði samþykkt yrði Alþingi að gera sér virkilega grein fyrir því hvar það stæði í sambandi við slíka hluti.