29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

48. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Mér hefði verið ljúft að skipta þessu niður á þskj. ef ég hefði áttað mig á að það mundi taka svona langan tíma að svara þessu. Satt að segja hélt ég að a.m.k. 1. liðurinn mundi ekki taka langan tíma. Ég áttaði mig ekki fyllilega á því sem kom fram í svari hæstv. ráðh. sem ég þakka hér með. Ég hélt reyndar að þessi nefnd hefði ekki starfað og ég fengi það einfalda svar. Ég get alla vega upplýst að einn af nm. hefur ekki verið boðaður til fundar þannig að það svar sem ég fékk áðan getur varla átt við nefndina sem slíka sem ég var að spyrja um.

Ég get heldur ekki sagt að önnur svör gefi tilefni til bjartsýni. Átakið sem verið var að leita eftir með spurningu nr. 2 er ekki stórt að mínu mati.

Ég vil einnig lýsa vonbrigðum með svarið við 3. lið fsp. Hann er einn af þeim liðum sem hafa þótt vænlegir til úrbóta í þessum efnum, enda segir svo í 5. gr. laga nr. 25 frá 1975: „Unnið skal að því að auðvelda almenningi útvegun getnaðarvarna, m.a. með því að sjúkrasamlög taki þátt í kostnaði þeirra.“

Og svarið við 4. lið fsp. sýnir það, sem ég raunar vissi, að sú fjárupphæð sem varið er til þessa liðar á fjárlögum fer ekki til fræðslumála eins og margir hafa haldið.

Þar sem svo stuttur tími fer til þessara þingmála get ég ekki haft mörg um þetta frekar. Ég hefði gjarnan viljað kynna ögn og lesa upp úr skýrslunni sem komin er út, þeirri sem hæstv. heilbrmrh. minntist á hér áðan. Ég vil aðeins taka síðustu setningarnar til áréttingar þessu máli, en þær hljóða svo með leyfi forseta:

„Þá kemur og fram að mikið vanti á að ákvæðum laganna um fræðslu og ráðgjöf hafi verið framfylgt sem skyldi. Barneignir og fóstureyðingar eru vart einkamál kvenna og því ber að hafa í huga að fyrirbyggjandi starf nái ekki síður til karla en kvenna. Verði átak gert í þessum efnum ætti að vera hægt að snúa þróuninni við svipað og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum þar sem tíðni fóstureyðinga fer nú lækkandi.“

Með því að vekja máls á þessu hef ég viljað vekja athygli þm. á þessu máli og vona að það veki til umhugsunar.