19.02.1986
Neðri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

238. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við ítarlega ræðu hv. síðasta ræðumanns, 3. þm. Norðurl. e. og formanns samgn. deildarinnar, að bæta. Ég vil þó láta það koma fram við 1. umr. málsins að ég deili með honum að mörgu leyti efasemdum um réttmæti þess að leggja niður rannsóknarnefnd sjóslysa. Þar með er ekki sagt að ég telji þær breytingar að öðru leyti sem hér eiga að fara fram á lögum um Siglingamálastofnun þarfar. Ég fagna reyndar því ákvæði sem til stendur að setja inn í lögin um umdæmisskrifstofur. Það er mjög í þeim anda sem ég hef sjálfur talað fyrir og barist fyrir um að dreifa starfsemi og færa út starfsemi eftir því sem kostur er frá höfuðstöðvum eða miðstjórnarvaldi, sem er oftast hér á Reykjavíkursvæðinu, og út um landið. Ég held að það liggi einnig veigamikil skipulagsleg rök fyrir því að framkvæma þessar breytingar. En efasemdir mínar beinast fyrst og fremst að því að leggja niður sjálfstæða rannsóknarnefnd sjóslysa og færa hennar verkefni undir svonefnt siglingamálaráð sem setja á á fót samkvæmt frv. þessu og fjallað er um í 5., 6. og 7. gr. frv.

Efasemdir mínar lúta að því að það virðast eiga að vera mjög náin tengsl milli annars vegar samgrn. og Siglingamálastofnunar og hins vegar þessa siglingamálaráðs. Þessari nýju stofnun, siglingamálaráði, er ætlað miklu víðara verksvið en rannsóknarnefnd sjóslysa hefur haft. Ráðið á að vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og siglingamálastjóra og það á að fylgjast með tækniþróun, gera tillögur um breytingar á lögum og reglum varðandi verkefni Siglingamálastofnunar ríkisins o.s.frv.

Í 4. lið er síðan vikið að því að þetta ráð skuli fjalla um niðurstöður úr rannsóknum sjóslysa og sjá um birtingu þeirra árlega. Ég tel, herra forseti, að hér sé blandað saman ólíkum verkefnum, mjög ólíkum verkefnum. Það er ekkert við því að segja og ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, vilji Siglingamálastofnun og/eða samgrn. eftir atvikum hafa sér til ráðuneytis í þessum málum siglingamálaráð, þá er ekkert sjálfsagðara og eðlilegra en að það komi því á fót. En mér er stórlega til efs að þessi 4. liður, undirliður í 5. gr. frv., eigi rétt á sér í þessu samhengi. Ég teldi eðlilegra að þetta siglingamálaráð væri þá eingöngu faglegt ráð til ráðuneytis og ráðgjafar og til að fylgjast með þróun og hafa eftirlit með framförum á þessu sviði, en hefði engu hlutverki að gegna sem rannsóknaraðili. Ég tel óheppilegt að blanda slíkum mismunandi verkefnum saman og langeðlilegast að til sé einhver sjálfstæður, óháður aðili í landinu sem hafi eingöngu það hlutverk að rannsaka slys og koma upplýsingum á framfæri í framhaldi af því.

Ég vil einnig mótmæla því sem sagt er í athugasemdum við frv., að ákvæði 230. gr. um sérstaka rannsóknarnefnd í lögum um Siglingamálastofnunina, sem samþykkt voru s.l. vor, sé á nokkurn hátt rökstuðningur fyrir því að leggja rannsóknarnefnd sjóslysa niður. Þvert á móti gengu allar umræður í samgn. Nd., þar sem ég á sæti, út á það að til viðbótar við sjálfstæða og óháða rannsóknarnefnd sjóslysa gæti verið eðlilegt að hafa í lögum ákvæði um alveg sérstaka rannsókn þegar sérstakar ástæður mæltu með. Ég tel eðlilegt að hæstv. menntmrh. fái hér orðið á eftir og tali úr ræðustól en ekki annars staðar í þingsalnum ef hann hefur áhuga á að leggja eitthvað til málsins. (SvH: Er strákurinn farinn að stjórna líka, herra forseti?) Hæstv. menntmrh. hefur nú sýnt hv. deild þann sóma að yfirgefa þingsalinn og þá þurfum við ekki að vænta meiri truflana af hans hálfu hér í þessari umræðu, vonandi.

Ég vildi koma þessum athugasemdum mínum á framfæri, herra forseti, og ég mótmæli þeim skilningi sem fram kemur í athugasemdum við frv. að lögin um Siglingamálastofnun frá því í vor, um sérstaka rannsóknarnefnd í einstökum tilfellum, sé á nokkurn hátt rökstuðningur fyrir því að leggja rannsóknarnefnd sjóslysa niður eða að hafa aðra hliðstæða stofnun starfandi í landinu. Eins og hv. síðasti ræðumaður réttilega benti á þá gengu umræður í samgn. hv. deildar frekar út á hitt, að ástæða væri til áð breyta valdsviði og verksviði rannsóknarnefndarinnar á þann hátt að færa það meir til þess fyrirkomulags sem er á um rannsóknir flugslysa. Það má öllum ljóst vera að þá eru menn ekki að tala um það að leggja þessa stofnun eða aðra hliðstæða niður, heldur þvert á móti að gera starf hennar markvissara og auka árangur þess.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri að sinni, herra forseti. Ég vildi koma þessum athugasemdum á framfæri. En ég tel óhjákvæmilegt að samgn. þessarar deildar fari mjög vandlega ofan í saumana á því frv. sem hér er til umræðu og athugi mjög vandlega rök bæði með og á móti þeim breytingum sem frv. að þessu leyti fjallar um. Hér eru slík alvörumál á ferðinni að það er óhjákvæmilegt að íhuga mjög vandlega hvort þessar breytingar eiga rétt á sér.