20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er ekki fyrst og fremst verið að tala um niðurskurð eða samdrátt í menntakerfi þjóðarinnar. Það er verið að tala um að gæta hagkvæmni og að öll kennaramenntun á háskólastigi verði á vegum einnar og sömu skólastofnunar. Það er ekki verið að tala um að draga úr eða gera minni kröfur. (Menntmrh.: Hvað með Hvanneyri?) Já, Hvanneyri gæti auðvitað komið undir þetta líka. Það er kannske mál sem væri vert að ræða betur í öðru samhengi, þ.e. framhaldsmenntun í búvísindum, það menntakerfi sem er við lýði og þan ríkisbú sem nú keppa við bændur um framleiðslukvóta, nauman kvóta. Það væri hægt að ræða það hér undir öðrum dagskrárlið væntanlega síðar.

En það sem ég vildi minnast á við þessa umræðu og raunar hefur aðeins komið fram hér í máli hv 5. þm. Austurl. er sú staðreynd að í lögunum um Kennaraháskóla Íslands frá 1971 segir, með leyfi forseta, í 25. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi numin lög nr. 23/1963, um Kennaraskóla Íslands, sbr. þó 24. gr. þessara laga. Lög þessi skulu endurskoðuð eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildistöku þeirra.“

Þessi endurskoðun hefur aldrei farið fram. Það er ekki vansalaust af hálfu allra þeirra hæstv. menntmrh., sem setið hafa síðan tvö ár voru liðin frá gildistöku þessara laga, að þessi endurskoðun skuli ekki hafa farið fram. Ég spyr hæstv. núv. menntmrh.: Ætlar hann að beita sér fyrir því að þessi endurskoðun fari fram og fram verði þá lagt nýtt frv. til laga um Kennaraháskóla Íslands? Við þá endurskoðun hlýtur sú till., sem hér er nú til umræðu, mjög að koma til athugunar.

Ég hef vissar efasemdir um það að 250 000 manna þjóð eigi að vera með mjög marga háskóla. Í þessum umræðum hefur verið minnst á að Fósturskóli ætti að vera háskóli líka. Allir vilja vera háskóli. Er ekki rétt að íhuga hvort það sé bara ekki best að setja allt framhaldsnám á háskólastig? Af hverju ætti frekar að þurfa háskólapróf til að gæta lítilla barna - það er vissulega vandaverk og ábyrgðarstarf - en að stýra 1000 tonna fiskiskipi eða að stýra stóru búi?

Ég held að við þurfum svolítið að gæta okkar í þessari umræðu. Það má ekki verða svo að það verði launaspursmál hvort einhver fræðsla fer fram á háskólastigi eða ekki. Ég held að það liggi ærið oft á bak við í þessari umræðu að menn telja sig geta krafist hærri launa ef hægt er að veifa háskólaskírteini og skiptir þá litlu eðli starfsins. Af hverju er ekki skipstjórnarmenntun t.d. á háskólastigi? Ef þeir sem gæta barna á dagheimilum eru með háskólapróf fyndist mér ekki síður ástæða til að þeir, sem afla þess gjaldeyris sem þessi þjóð lifir á, séu menn með háskólapróf ef það er talið slíkt sáluhjálparatriði sem mér virðist sumum vera. Ég held að þessi umræða sé öll komin út á vitlausar brautir og því voru kannske þessi dæmi nefnd.