20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa gagnlegu umræðu mikið. Mér fannst seinni ræða hv. talsmanns þessarar þál. betri en hin fyrri, einkum að því er varðaði gildi kennaramenntunar og nauðsynina að efla hana og búa betur að kennarastarfinu og þeim sem því sinna. Það var greinilega dregið í land frá þeim áherslum sem lesa mátti út úr grg. með þessari till. að þessu leyti.

Ég tók það fram í fyrri ræðu minni um þetta efni að ég teldi engan veginn einsýnt að þessu markmiði væri náð með þeirri sameiningu sem hér er gert ráð fyrir. Ég tel að sú ábending, sem hér kom fram frá hv. 11. þm. Reykv., um hagkvæmni stærðarinnar og það sem mælir gegn því að hafa skóla allt of stóra, eigi að koma inn í þá skoðun mála og eins geti alveg komið til greina að sameiningin yrði þannig að færa kennaranám út úr Háskóla Íslands að athuguðu máli inn í Kennaraháskóla. En þetta er mál sem þarf vandlegrar athugunar við og vonandi verður gerð gangskör að því í framhaldi af því starfi sem fram fór hér fyrr á árum og ég minnti á.

Á sama hátt er gott að heyra um ásetning hæstv. menntmrh. um að endurskoða ákveðna þætti í löggjöf og raunar varðandi skólakerfið í heild. Þar eru tveir þættir alveg sérstaklega sem setið hafa eftir af hálfu löggjafans, þ.e. framhaldsskólastigið og háskólastigið. Full þörf er á í fyrsta lagi samræmdri löggjöf um framhaldsskóla og endurmati á háskólastiginu í heild sinni, vissulega með tilliti til mögulegrar og æskilegrar dreifingar á einstökum þáttum háskólamenntunar.

Ég vil taka það skýrt fram í sambandi við háskólastigið að þó að ég telji að við eigum að skoða það mjög jákvætt að stofna til háskólamenntunar utan Reykjavíkur er ég ekki þar með að leggja til mikla dreifingu á þessu stigi máls. Sú hugmynd sem mest hefur verið rædd, um háskólamenntun á Akureyri, er mjög eðlilegt framhald af þróun þessara mála. Menn ætla sér ekki þar með að taka einstaka þætti háskólamenntunar upp víðar um landið að svo komnu þótt að því kunni að draga.

Ég held að það séu ákveðnir þættir sem menn þurfa hins vegar að skoða vel í þessu samhengi. Í þessari umræðu og nýlega í umræðum á þinginu hefur verið vikið að fjarmenntun. Það er tiltölulega auðvelt að færa endurmenntun sem næst vettvangi úti í landshlutunum, að færa hana til þeirra sem á henni þurfa að halda, og mun kostnaðarminna en að smala fólki saman eða ætla fólki að taka sér alveg leyfi frá störfum til að sækja endurmenntun. Fari hún fram nálægt vettvangi eiga menn að geta rækt hana að nokkru samhliða starfi án þess að fá sérstakt leyfi frá störfum og leita langt burt frá heimilum sínum og heimaslóðum.

Það er eitt atriði sem ég vildi árétta hér í lokin, herra forseti, vegna þess að hér barst inn í umræðuna af hálfu hæstv. ráðherra spurningin um fræðsluskyldu og skólaskyldu, mál sem rætt var nokkuð hér og af nokkrum hita seint á síðasta þingi vegna brtt. um grunnskólalögin frá hv. varaþm. Páli Dagbjartssyni. Sú umræða endaði með því að brtt. við það frv. frá hv. 5. þm. Vestf. hlaut hér samþykki í hv. Nd. með naumum mun atkvæða, 18 atkvæðum gegn 16, að 6 þm. fjarstöddum. Síðan dagaði málið uppi á síðasta degi þings í hv. Ed. þingsins. Menn greindi mjög skarpt á um þetta efni.

Ég vakti athygli á því við umræðuna um þetta í Nd. í hvaða flokk menn ætluðu að setja Ísland með því að færa skólaskyldu kannske niður í 7 ár í landinu og setja á fræðsluskyldu í staðinn. Þá værum við að taka okkur út úr hópi annarra Norðurlanda sem öll hafa 9 ára skólaskyldu. Nokkur lönd hafa raunar lengri skólaskyldu, eða 10 ára, jafnvel 11 ára, eins og Bretland mun hafa skv. þeim upplýsingum sem mér voru aðgengilegar. En við værum aðallega að setja okkur á bekk með Miðjarðarhafslöndum, sem eru tiltölulega skammt komin í félagslegu tilliti, ef við færum að lækka hér skólaskylduna. En það er mál sem auðvitað verður tekist á um ef hæstv. ráðherra fer að koma hér inn í þingið með það hugðarefni sitt að lækka skólaskylduna, eins og hann nefndi.

Hæstv. ráðherra gat um úttekt, sem nú væri hafin á vegum OECD, á íslenska skólakerfinu. Það er ekkert nema gott um það að segja að fá álit sérfróðra útlendra manna á slíku efni. Ég er viss um að það getur verið gagnlegt. En meira máli skiptir þó að við beinum kröftum okkar að því að bæta það hér heima fyrir og taka á þessum málum því að það er það sem stjórnvöld og Alþingi hafa vikið sér undan allt of lengi, að taka á augljósum vanköntum í okkar skólakerfi. Þó að menn greini þar á er það skylda manna að leiða málið til lykta á lýðræðislegan hátt í þessum efnum en ekki láta doða og deyfð draga þennan grundvallarþátt í okkar starfi niður, fræðsluna í landinu, menntamálin í landinu. Um það þyrftum við hér að sameinast á hinu háa Alþingi.