25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

255. mál, kostnaður af starfsemi Krabbameinsfélags Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hennar. Ég náði nú ekki niður öllum þessum tölum sem hún las upp, en ég mun gaumgæfa þær betur síðar. En ég vil benda á uppgjör Krabbameinsfélagsins frá 1984 sem trúlega er mjög áþekkt.

Mér reiknast til að þær tölur sem hæstv. ráðh. taldi upp, það voru 1-2 millj. frá ríkissjóði, 10 millj. vegna útseldrar þjónustu, 3,4 frá frumurannsóknastofu og 2,1 frá röntgendeild, væru tekjur. Var það ekki rétt tekið eftir hjá mér? Mér reiknast líka að það séu samtals 27 millj., en tekjur voru taldar 34 millj. Þannig munar 7 millj. Er það ekki rétt reiknað hjá mér?

Í uppgjöri frá 1984 þar sem reiknaðar eru í prósentum þær tekjur sem Krabbameinsfélag Íslands fær er framlag ríkissjóðs ekki nema 23% af heildartekjum félagsins, en gjafir og áheit ásamt happdrætti eru 60%. Spurning mín var einmitt borin fram ekki síst vegna þess að Krabbameinsfélagið hefur lagt til mjög mikilvæga frumheilsugæslu sem í raun er hlutverk ríkisins að bjóða þegnum sínum og það er mikilvægt fyrir Krabbameinsfélag Íslands að geta snúið sér frá frumheilsugæslu fyrir landsmenn að öðrum jafnvel brýnari verkefnum fyrir slíkt áhugafélag. Mér finnst óeðlilegt að frumheilsugæsla landsmanna sé rekin með happdrætti. Þetta hlutfall sem ég fæ með tölum sem hæstv. ráðh. gaf samsvarar ekki alveg hlutfalli fyrir 1984 þannig að ég þarf að gaumgæfa það betur. En við getum kannske vikið að næstu spurningu sem ég mun bera fram að loknu máli mínu nú.