27.02.1986
Efri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Frv. sem hér er nú til umræðu, þ.e. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum 1986, hefur ekki verið mjög lengi á borðum þm. Ég fékk það reyndar í hendur nákvæmlega þegar ég gekk í þingsalinn. Menn eru því auðvitað ekki í stakk búnir að ræða það ítarlega, en að nokkru leyti hafa menn þó getað gert sér grein fyrir innihaldi frv. án þess þó að þekkja til orðalags þess þar sem það er í stærstum dráttum samþykkt ríkisstj. á tillögum og hugmyndum sem settar voru fram í samningum aðila vinnumarkaðarins og undirritaðir að hluta til í gær.

Í fskj. 2 með frv., en þetta fskj. er bréf frá ríkisstj. til aðila vinnumarkaðarins, dags. í dag, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ljóst virðist að þessir samningar og það sem þeim fylgir muni valda því að útgjöld þjóðarinnar í heild fari nokkuð fram úr því sem ríkisstj. hefur stefnt að til þessa og að halli myndist á ríkisbúskapnum, en með tilliti til þess hversu mikilvægt það er að nú náist ótvíræður og verulegur árangur í viðureigninni við verðbólguna er ríkisstj. reiðubúin að taka nokkra áhættu í þessu máli. Þessi afstaða er á því byggð að ekki verði verulegar breytingar til hins verra á viðskiptakjörum eða öðrum ytri aðstæðum þjóðarbúsins.“

Nú er þar til að taka að þegar ríkisstjórn á Íslandi tekur áhættu ber hún ekki mikla ábyrgð á þessari áhættu, hvorki fjárhagslega né gagnvart kjósendum, því að það eru endanlega einstaklingar þessa lands, þjóðin, sem taka skellinn af að þessi tilraun ekki tekst. Kjósendurnir eiga, eins og alþekkt er orðið, ekki ýkja mikla möguleika á því að kalla nákvæmlega þessa ríkisstj. til ábyrgðar vegna sinna verka hafi þau ekki tekist. Það þarf ekki annað en að benda á að almennt eru menn sammála um að seinustu ríkisstjórn hafi mistekist allhrapallega við sína vinnu. Samt sem áður er einn af ráðherrum þeirrar ríkisstj.forsrh. þessarar ríkisstj.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum lagði stjórnarandstaðan til að fresta afgreiðslu fjárlaga til þess að taka fjárlögin upp og endurskoða þau, einfaldlega vegna þess að það reikningsdæmi sem þar blasti við gekk ekki upp í fyrsta lagi og í öðru lagi þótti mönnum það þannig saman sett að þeir vildu ekki taka ábyrgð á því. Þessari uppástungu stjórnarandstöðunnar var hafnað með öllu og talið fráleitt að taka upp þau fjárlög sem þá höfðu verið lögð fram. Núna, tveimur mánuðum síðar, þykir það ekki tiltökumál að taka þessi fjárlög upp nokkurn veginn nákvæmlega á sömu forsendum og þá voru fyrir hendi, fyrir jól, og leiðrétta þó nokkuð af þeim hlutum sem þá voru gagnrýndir í fjárlögunum, en samt sem áður með þeim hætti að auka enn lántökur ríkissjóðs, auka enn halla ríkissjóðs og það þó að fyrirsjáanlegt sé að viðskiptahalli verður mjög mikill á þessu ári.

Ég ætla mér ekki að fara, frú forseti, um frv. sjálft mörgum orðum því eins og ég sagði áðan er það enn þá ekki langur tími sem maður hefur haft til að skoða það og skilja. Aftur á móti get ég ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um hvernig þetta frv. er orðið til, einfaldlega vegna þess að þau vinnubrögð sem hér eru stunduð falla ekki að mínum skilningi um hvernig stjórnvöld eigi að vinna.

Í fyrsta lagi tel ég atburðarásina ólýðræðislega og þannig séð, ef við horfum til þeirrar stjórnskipunar sem við höfum, líka mjög í andstöðu við þingræðið. Ekki það að ég ætli mér að koma hér fram sem sérstakur verjandi þingræðisins. En þegar stjórnarandstaðan er búin að rembast eins og rjúpan við staurinn í tæp þrjú ár við að reyna að koma vitinu fyrir þessa ríkisstj. án þess að votti fyrir því að á hana sé hlustað og menn standa hér m.a.s. digurbarkalegir í ræðustól og tala um það hvað stjórnarandstaðan sé slöpp, þá eru einhverjir menn í einhverju félagi úti í bæ sem taka upp þessar hugmyndir stjórnarandstöðu, gera um þær samning sem skuldbindur þá ekki ýkja mikið, en skuldbindur þriðja aðilann, þ.e. ríkisstj., algjörlega. Þeir ota þessum samningi að ríkisstj. u.þ.b. með orðunum „Hana, éttu nú“ og minnast þess í framhjáhlaupi að nauðsynlegt sé að ræða þetta í ríkisstj. áður en það verði samþykkt. Þar með fara hjólin að snúast. Ef maður horfir á þetta allt saman í rökréttu samhengi getur maður sagt si svona fyrir sjálfan sig: Ég er í alveg bandvitlausu félagi. Ég á ekkert að vera inni á þingi. Ég á bara að vera í einhverju félagi úti í bæ. Síðan geri ég þar samning við annað félag sem skuldbindur nánast hvorki mig né það félag. Það eina sem er ákveðið í þessum samningi er að ríkisstj. verður að samþykkja hann og fjármagna hann. Þá er allt í lagi. - Ef þetta eru vélar lýðræðisins eins og menn vilja skilja þær og láta þær vinna í þessu landi verð ég einfaldlega að lýsa forundran minni og fyrirlitningu á þessum vinnubrögðum.

Ekkert af þeim aðgerðum sem hér á að fara að setja lög um er þess eðlis að frjálsir menn, sem boðið hafa sig fram til þess að bæta lífskjör í þessu landi, því að til þess buðu menn sig fram, að þeir hafi ekki getað tekið þetta upp hjá sjálfum sér, sett þetta fram, barist fyrir því og fengið það samþykkt, ekki hvað síst þegar maður horfir til þess að núna allt í einu skiptir það nákvæmlega ekki nokkru máli að gera grein fyrir því hvernig á að fjármagna þetta. Jú, jú, það er stefnt að því að lækka þetta og lækka hitt, fella þetta niður og fella hitt niður. Allt eru þetta ágætis hlutir í raun og veru. En um fjáröflunina sjálfa stendur eiginlega lítið annað en að það á að taka fyrir henni lán. Mér er sem ég hefði séð framan í hæstv. fjmrh. hefði einhver aumur þm. hér komið með svona frv. inn á borð: Það á að lækka þetta og lækka hitt. Svo lækkum við þetta líka, sleppum þessu og afnemum þetta og til þess ætlum við bara að taka lán. - Ég er ansi hræddur um að það hefðu ekki verið talin ýkja ábyrg vinnubrögð hjá stjórnarandstöðuþingmanni að standa þannig fyrir sínu máli. Ekki það að þetta hafi ekki verið reynt. Bandalag jafnaðarmanna lagði til fyrir tveimur árum ýmsar brtt. um fjárlög. Þessar brtt. voru teknar upp aftur að mestu leyti í lítið breyttri mynd af Alþfl. og fluttar núna fyrir jól við fjárlög og hlutu nokkurn veginn sama umtal þá og þegar við fluttum þær: Strákar mínir. Svona fer maður ekki að því að breyta þjóðfélaginu. Þjóðfélaginu verður ekki breytt með því að breyta fjárlögum. - En hvað er verið að gera hér núna? Nú á allt í einu að stórbæta þetta þjóðfélag með því að breyta fjárlögum. Það er allt í einu hægt að gera það sem ekki var hægt að gera fyrir afskaplega stuttu.

Þjóðarinnar vegna held ég að okkur þm. sé líklega einna hollast að rifja upp eitthvað af okkar barnafræðslu og leggjast á bæn og vona að þessi tilraun heppnist. Þeir sem taka áhættuna eru ekki ráðherrarnir tíu uppi í stjórnarráði heldur þeir sem greiða skatta í þessu landi. Þar sem augljóst er að þessir samningar hafa raunverulega ekki breytt launum, þeir hafa tryggt og fryst þá launalækkun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, þeir eru ákveðin trygging þess að þessi launalækkun haldi ekki áfram - það þýðir að þetta fólk er ekkert frekar megnugt að greiða skatta þetta árið en það var í fyrra, hvað þá næsta ár þegar holskeflan af kostnaðinum af þessu dæmi skellur yfir það - þá skulum við vona og biðja að þessi tilraun takist.