27.02.1986
Efri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2862 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. 1. minni hl. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjárlögum árið 1986. Nefndin hefur haft skamman tíma til umráða en á þeim skamma tíma hafa fjh.- og viðskn. beggja deilda haldið fund sameiginlega þar sem fjallað hefur verið um frv. Eftirtaldir aðilar voru kallaðir til að útskýra efni og forsendur þess: aðilar vinnumarkaðarins eða fulltrúar frá ASÍ, VSÍ og Samtökum kvenna á vinnumarkaðinum, starfsmenn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og fjmrn., fulltrúar frá Háskóla Íslands, Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun.

1. minni hl. nefndarinnar mælir með samþykkt frv. með brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. Það er rétt að ég geri nánari grein fyrir í hverju þær brtt. eru fólgnar þó að það komi fram í nál.

Samkomulag aðila vinnumarkaðarins um húsnæðismál gerði ráð fyrir 925 millj. kr. auknum skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna umfram þau sem gert var ráð fyrir í lánsfjáráætlun sem veitt yrði í húsnæðiskerfið. Í frv. er gert ráð fyrir að 300 millj. kr. renni til aðstoðar húsbyggjendum sem eigi í greiðsluerfiðleikum og komi til aukningar á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins. Jafnframt er við það miðað að á móti auknum skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna af húsnæðislánakerfinu komi lækkun á framlagi í ríkissjóð um 625 millj. kr.

Þær breytingar, sem 1. minni hl. nefndarinnar leggur fram, eru einkum þær að í frv. er gert ráð fyrir að 925 millj. kr. viðbótarfjármagn, sem lífeyrissjóðirnir leggja til skuldabréfakaupa, renni allt til Byggingarsjóðs ríkisins. Á móti var ráðgert að lækka framlag ríkissjóðs til sjóðsins um 625 millj. kr. 1. minni hl. leggur til að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins haldist óbreytt. Þess í stað skiptist 925 millj. kr. viðbótarkaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum þannig að 625 millj. verði keyptar af ríkissjóði og 300 millj. kr. af Byggingarsjóði ríkisins. Till. felur jafnframt í sér að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins skerðist ekki miðað við ákvæði laga.

Þá fjalla þessar brtt. um breytingu á tollskrárnúmerum og vil ég gera grein fyrir þeim sérstaklega. Þessar breytingar á tollskrárnúmerum eru gerðar til að samræmi sé í verði hinna ýmsu tegunda af heimilistækjum sem gert er ráð fyrir að tollur lækki á. Þessar breytingar eru aðeins til leiðréttingar og samræmis en eru ekki stórvægilegar.

Þessar brtt. breyta tölulega niðurstöðum frv. þegar búið er að taka tillit til breytinganna og reikna þær inn. Með þessum breytingum er gert ráð fyrir að tekjuliðir frv. verði 35 344 millj. kr., gjöld 36 831 millj. og gjöld umfram tekjur verði 1487 millj. Afborganir lána verði 3469 millj., nettóútstreymi á viðskiptareikningi 1150 millj. og lánsfjárþörf verði 6106 millj. Innlendar lántökur verða 3575 millj., erlendar 2550 millj.

Þessar brtt. fela það í sér að rekstrarhalli ríkissjóðs eykst um 625 millj. kr. og flyst lánsfjáröflunin vegna þess frá Byggingarsjóði ríkisins yfir á ríkissjóð. Þessi ráðstöfun breytir ekki heildarlántökum opinberra aðila, húsbyggingarsjóða, lánastofnana og atvinnufyrirtækja frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Heildarlántökur þessara aðila eru áætlaðar 13 427 millj. kr. árið 1986. Þar af er ráðgert að afla 5985 millj. kr. innanlands og 7442 millj. kr. með erlendum lántökum. Frekari sundurliðun kemur fram í fskj. með nál.

Þær brtt., sem hér um ræðir, eru að töluliðir 1. gr. frv. breytast. Í stað 1485 millj. komi 860 millj.

Í öðru lagi kemur nýtt tollskrárnúmer inn í e-lið 10. gr. Það er leiðrétting vegna prentvillu í frv.

Í þriðja lagi bætast fimm tollskrárnúmer við c-lið 10. gr. Ég hef gert grein fyrir því að það er til samræmingar á tollum á heimilistækjum til þess að ekki skapist misræmi í verði þeirra. Þetta eru í raun aðeins leiðréttingar sem mönnum þótti rétt að gera strax í upphafi til að koma í veg fyrir rugling í því sambandi síðar.

Við 16. gr. kemur leiðrétting vegna fjáröflunar byggingarsjóðanna, í stað 850 millj. komi 1475 millj. kr. Það er innlend lántaka.

Við 22. gr. komi 300 millj. kr. í stað 925 millj. Þetta er til samræmis. 23. gr. fellur þar af leiðandi niður og breytast aðrar greinar í samræmi við það.

Ég hef gert grein fyrir þeim brtt. sem við leggjum til að verði samþykktar við frv. Þessar brtt. fela ekki í sér neinar efnisbreytingar á frv. í sjálfu sér. Eins og fram hefur komið breytast ekki lántökur opinberra aðila og hér er um innlenda lántöku að ræða.

Á fundi fjh.- og viðskn. í morgun komu fram upplýsingar um lauslega endurskoðun á þjóðhagsspá árið 1986 með hliðsjón af þessum aðgerðum. Mér þykir rétt að drepa á örfá atriði í sambandi við þær horfur. Þó að hér sé ekki um endanlega niðurstöðu að ræða eru þessar horfur miðaðar við núverandi aðstæður. Í drögum að þjóðhagsspá, sem nefndin fékk í morgun til upplýsinga, segir svo í upphafi, með leyfi forseta:

„Á fyrstu vikum ársins hafa orðið snögg umskipti í íslenskum þjóðarbúskap. Ytri skilyrði hafa batnað með lækkun olíuverðs og hækkun fiskverðs á erlendum markaði þó að fallandi gengi bandaríkjadollars síðustu viku veiki viðskiptakjörin. Á innlendum vettvangi hafa verið undirritaðir nýir kjarasamningar og nýtt fiskverð ákveðið. Ríkisstjórnin hefur í tengslum við kjarasamninga heitið umfangsmiklum efnahagsaðgerðum til að draga úr hækkun verðlags, bæta kjör launafólks og efla samkeppnisaðstöðu atvinnuvega.

Þessir atburðir innanlands og utan hafa margvísleg áhrif á þjóðarbúskapinn. Vegna þess hve fjölþætt þessi áhrif eru og umfangsmikil og raunar um sumt ekki fullráðin enn er ekki auðvelt að meta þau á þessari stundu. Með þessum fyrirvara fer hér á eftir örstutt yfirlit yfir þær breytingar á helstu þjóðhagsstærðum á árinu 1986, sem nú virðast í vændum, ásamt samanburði við fyrri spá sem gerð var um mánaðamótin nóvemberdesember í fyrra og lá m.a. til grundvallar í fjárlagagerð.

Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því að þjóðartekjur muni vaxa um 4% á árinu samanborið við 11/2 í fyrri spá. Hún gerir ráð fyrir að atvinnutekjur á mann verði 2425% hærri en fyrri spár gerðu ráð fyrir og kaupmáttur atvinnutekna á mann aukist að meðaltali um 3-4% frá í fyrra. Frá upphafi til loka þessa árs er gert ráð fyrir kaupmáttaraukningu sem nemur 6% á mælikvarða kauptaxta.

Hinar nýju kjaraákvarðanir telur Þjóðhagsstofnun geta falið í sér 4-5% aukningu einkaneyslu og um 21/2-3% aukningu þjóðarútgjalda.

Miðað við óbreytta útflutningsspá, bætt viðskiptakjör en verulega aukinn innflutning í kjölfar vaxandi þjóðarútgjalda virðast nú horfur á að viðskiptahalli 1986 verði 31/2-4 milljarðar króna, eða 21/2-3% af vergri landsframleiðslu.

Verðlagsspár breytast mikið í kjölfar síðustu atburða. Gengi krónunnar verður haldið sem stöðugustu út árið. Þetta ásamt nýjum kjarasamningum og fylgiaðgerðum þeirra gefur vonir um að verðhækkun hér á landi frá upphafi til loka árs verði um eða innan við 8% á mælikvarða framfærsluvísitölu en 10-11% á aðra verðmælikvarða. Í þessu efni ríkir óneitanlega óvissa en engu að síður er búist við mikilli breytingu frá síðustu þjóðhagsspá sem miðaði við 20-22% verðhækkun frá upphafi til loka þessa árs. Þess má geta að spár ýmissa fyrirtækja og samtaka þeirra, gerðar í árslok 1985, voru enn hærri, eða 30-40%.“

Í þessum drögum Þjóðhagsstofnunar er fjallað um ríkisfjármál sem eru mikilli óvissu háð vegna lækkunar á sköttum og útgjaldaauka til að hamla gegn verðhækkunum. Ríkissjóður hefur tekið á sig miklar skuldbindingar til að greiða fyrir kjarasamningum. Nokkur halli er fyrirsjáanlegur á ríkisbúskapnum á árinu. Hver áhrif þessi halli hefur á þjóðarbúskapinn fer fyrst og fremst eftir því hvernig hann verður fjármagnaður. Ríkisstj. hefur ákveðið að afla aukins fjár með lántöku innanlands sem mun draga úr útgjöldum annarra aðila í hagkerfinu en jafnframt ýta undir hækkun raunvaxta.

Að lokum skal þess getið að að mati Þjóðhagsstofnunar munu erlendar skuldir og vaxtabyrði af þeim verða heldur léttbærari á árinu 1986 í hlutfalli við útflutnings- og þjóðartekjur en áður var spáð.

Ég vildi ekki láta hjá líða að víkja að þessum upplýsingum um leið og ég hef framsögu fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. En ég vil geta þess að í viðtölum við aðila vinnumarkaðarins kom fram að þeir telja það frv., sem hér liggur fyrir, vera í meginatriðum í samræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstj. hefur gefið þessum aðilum. Blæbrigðamunur var varðandi 3. gr. á því hvaða leiðir annars vegar aðilar vinnumarkaðarins og hins vegar ríkisstj. vildu fara í skattamálum. En úr því mun ekki verða gert stórmál, svo að notuð séu þeirra eigin orð.

Á fund fjh.- og viðskn. mætti fulltrúi frá Seðlabanka Íslands og skýrði frá því sem er að gerast í vaxtamálum í tengslum við þær aðgerðir sem hér er um að ræða. Unnið er að því að lækka nafnvexti nú þegar, hinn 1. mars. Þá mun Seðlabankinn lækka vexti almennra skuldabréfa úr 32 í 20% og vexti afurðalána úr 28,5% í 19,25%. Ársávöxtun verður þá af þessum lánaflokkum um 21%. Þá verða vanskilavextir lækkaðir úr 45 í 33% á ári.

Einnig kemur fram í yfirlýsingu þeirra að verði hjöðnun verðbólgu svo mikil og hröð sem nú lítur út fyrir má búast við frekari lækkun nafnvaxta á næstunni. Það er enn stefnt að því sem fyrr að raunvextir verði jákvæðir en geta má þess samt að hinar einstöku innlánsstofnanir hafa ekki enn þá samræmt sínar vaxtaákvarðanir. Þegar þær liggja fyrir kunna því niðurstöður að breytast örlítið í þessum málum en það verður ekki umtalsverð breyting. Unnið er að samræmingu hjá hinum einstöku lánastofnunum nú þessa dagana en tíminn hefur verið naumur eins og þarf ekki að rekja.

Það kom einnig fram að stjórn Félags ísl. iðnrekenda hefur sent félagsmönnum sínum erindi þar sem hún lýsir þeirri skoðun sinni að nýgerðir kjarasamningar og aðgerðir ríkisstj. gefi ekki tilefni til almennrar hækkunar á framleiðsluverði innlendrar iðnaðarvöru. Stjórn Félags ísl. iðnrekenda beinir þeim eindregnu tilmælum til sinna félagsmanna að þeir endurskoði rekstraráætlanir sínar fyrir árið 1986 í skjóli gjörbreyttra aðstæðna og nýti öll færi sem kunna að vera til þess að lækka vöruverð. Fulltrúi Félags ísl. iðnrekenda kynnti þetta erindi til sinna félagsmanna á fundi fjh.- og viðskn. í morgun.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ég hafi miklu fleiri orð um þetta nál. Það skýrir sig að nokkru leyti sjálft vegna þess að það eru ekki miklar breytingar sem hér eru lagðar til. Nefndin klofnaði í málinu og munu minni hl. nefndarinnar skila séráliti. En 1. minni hl. leggur til, eins og ég gat um hér í upphafi, að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem ég hef nú kynnt og liggja fyrir.