06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3000 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Hér hefur vissulega verið hreyft við stóru máli. Ég verð að taka undir það, sem sumir hv. þm. hafa sagt, að menn skyldu ræða þessi mál með gætni því að hér er raunverulega verið að hreyfa við bæði miklu hagsmunamáli og einnig tilfinningamáli sem er þess eðlis að það er ekki rétt að vekja upp of miklar vonir, a.m.k. ekki vonir sem ekki er unnt að standa við.

Ég hef átt þess kost í rúma tvo áratugi að standa í samningum úti á hinum almenna vinnumarkaði og hef samið þar m.a. um atriði sem þessi þáltill. kemur mjög sterkt inn á fyrir aftur á móti mjög takmarkaðan hóp manna, vil ég segja. Ég held að ekki sé hægt að fjalla um þetta mál með þeim hætti að það sé ekki litið á það í heild, þ.e. horft til þjóðarinnar í heild þannig að allir sem til greina koma komi inn í þá mynd sem um er fjallað í þáltill.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti að mér finnst þáltill. vera of þröng. Eins og fram hefur komið í ræðum nokkurra þm. og kemur einnig fram í þáltill. er raunverulega aðeins tekin afstaða til þeirra sem koma til starfa hjá hinu opinbera. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna bæði hjá mér og öðrum: Hvað um þær tugþúsundir sem eru úti á hinum almenna vinnumarkaði? Þáltill. tekur ekki beina afstöðu til þess. Þess vegna tel ég að það eigi að fjalla um þetta mál á mun víðtækari grundvelli með miklu stærra markmið í huga en kemur fram í þessari þáltill.

Einnig vil ég segja það að hér er verið að fjalla um þrjú atriði sem öll eru mjög mikið matsatriði. Í fyrsta lagi er það mikið matsatriði hvað er heimilisstarf. Það er einnig mikið matsatriði hvernig menn koma út á vinnumarkaðinn - nú tala ég um vinnumarkaðinn í hinni víðtækustu merkingu þess orðs. Í öðru lagi er það mikið atriði hvernig þetta snertir svið hinna svokölluðu frjálsu samninga, þ.e. aðila vinnumarkaðarins eins og fram hefur komið. Síðast en ekki síst snertir þetta eilífðarmál hv. alþm., þ.e. hver eigi að vera afskipti Alþingis af kjaramálum. Það er rétt, sem fram hefur komið í ræðum hér, að Alþingi hefur orðið að taka og tekur afstöðu til kjaramála á hverjum tíma en það hefur verið grundvallarstefna hv. Alþingis í gegnum tíðina að gera það ekki nema í nauðir reki og Alþingi verði að grípa í taumana vegna þjóðarheillar. Þess vegna hlýtur það að vera meginreglan eftir sem áður að Alþingi eigi sem minnst að gefa fyrirmæli í þá veru sem um er fjallað í þáltill. Ég hef þess vegna ásamt hv. 4. þm. Reykn., Salome Þorkelsdóttur, leyft mér bera fram svohljóðandi brtt. við þessa þáltill., með leyfi forseta, sem ég mun afhenda eftir að ég hef kynnt tillöguna:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að láta kanna með hvaða hætti unnt væri að meta starfsreynslu við ólaunuð heimilisstörf inn kjarasamningum þannig að þau störf veittu sambærileg kjör og aðrir hafa á almennum vinnumarkaði.“

Flutningsmenn eru Guðmundur H. Garðarsson og Salome Þorkelsdóttir. Með þessu erum við að færa þessa umræðu inn á það svið að það nái til allra sem þetta mál snertir.