10.03.1986
Neðri deild: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3026 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

321. mál, tollskrá

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 3/1986, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum, voru gerðar ýmsar ráðstafanir í ríkisfjármálum til að greiða fyrir gerð kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Einn þáttur í þessum ráðstöfunum var veruleg lækkun á aðflutningsgjöldum bifreiða sem framkvæmd var með almennri tollalækkun og afnámi og lækkun að hluta til á sérstöku innflutningsgjaldi á bifreiðum. Í ljós hefur komið að við framkvæmd þessa lagaákvæðis hefur ekki náðst það markmið um lækkun verðlags sem stefnt var að með samkomulagi ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins, en ætlunin var að með aðgerðum af þessu tagi mætti færa niður framfærslukostnað sem samsvaraði 1,5% í framfærsluvísitölu. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að upplýsingar um innflutning á bifreiðum 1eiddu af sér á grundvelli þeirra meðaltalsútreikninga sem fram fóru að innflutningsgjaldið, sérstaka innflutningsgjaldið af bifreiðum væri allmiklu hærra en raun varð á. Staðreyndin er sú að sú breyting hefur orðið á innflutningi bifreiða að nú er flutt inn miklu meira af minni bifreiðum en áður. Láta mun nærri að um það bil 90% af öllum bifreiðainnflutningi séu bifreiðar sem eru minni en sem samsvarar 2000 cm3 sprengirými í vélarstærð. Þetta er meginástæðan fyrir því að framkvæmd þessa lagaákvæðis skilaði ekki þeim árangri í verðlagslækkunum sem að var stefnt.

Ríkisstj. vill fyrir sitt leyti stuðla að því að það samkomulag sem varð á milli aðila vinnumarkaðarins og hennar um þetta atriði nái fram að ganga og hefur því flutt frv. til breytinga á tollalöggjöfinni að þessu leyti. Það miðar að því að lækka bifreiðatollinn niður í 10%, en samhliða verður sérstaka gjaldinu á innfluttum bifreiðum breytt á nýjan leik og það lagt á í sjö flokkum eftir vélastærðum, frá því að vera 5% í 2. flokki upp í 32%, en bifreiðar sem eru 1000 cm3 að sprengirými eða minni eru undanþegnar þessu gjaldi. Þessar ráðstafanir munu tryggja að það markmið í verðlagsmálum náist sem að var stefnt.

Hér er fyrst og fremst um það að ræða að verið er að lækka minni bifreiðar í verði meira en fyrri tillögur höfðu í för með sér til að ná þessu markmiði. Innflutningur á stærri bifreiðum er, eins og hér hefur komið fram, orðinn tiltölulega lítill og aðflutningsgjöld á þeim bifreiðum hafa því ekki veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs að þessu leyti.

Hv. Ed. hefur þegar í dag samþykkt frv. fyrir sitt leyti og ég vænti þess að samstaða geti orðið um skjóta afgreiðslu málsins hér í hv. Nd. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.