30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja hér örfá orð vegna fsp. frá hv. 2. landsk. þm. Ég vil byrja á því að lýsa því yfir að lögin um húsnæðissparnaðarreikninga, sem sett voru á síðasta þingi, eru vissulega mjög mikilvæg löggjöf og ég lagði mikla áherslu á það í ríkisstj. að sú löggjöf næði fram að ganga.

Hins vegar reiknaði ég aldrei með því að ástæða væri til að ætla að þessi lög yrðu túlkuð svo þröngt sem úrskurður fjmrn. ber með sér. Ég tel því að vinna þurfi að því að fá þar fram lagfæringar. Mín skoðun er einfaldlega sú að hvers konar sparnaður fólks í bankakerfinu á Íslandi, sem miðar að því að spara fé sem nota skal til að tryggja sér húsnæði, sé jákvæð aðgerð sem löggjafanum beri að styðja.

Hins vegar er það alveg hárrétt, sem hér hefur komið fram, að enn vantar í íslenska löggjöf ákvæði um búseturétt og leigukauparétt í sambandi við íbúðarhúsnæði og að því er verið að vinna. Ég staðfesti það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að reiknað er með því að frv. í þessu efni verði lagt fram á þessu þingi.

Ég ætla ekki að fara út í frekari umræður um þetta mál. Ég vil endurtaka að ég tel að þarna þurfi að gera á lagfæringu. Ég hef í höndum lagaskýringar frá lögfræðingum, m.á. lögfræðingum í félmrn., sem ganga nokkuð á misvíxl við það sem kemur fram í lögskýringu frá fjmrn. Ég ætla ekki að fjalla um það hér. Við notum það við frekari athugun á þessu máli og ég geri ráð fyrir að það verði gert heyrinkunnugt mjög fljótlega.

En ég vil aðeins lýsa því hér yfir að ég tel að hér þurfi að gera lagfæringu því að það eru fleiri en húsnæðissamvinnufélagið Búseti sem þarna geta komið til greina.

Það eru ýmsir aðrir aðilar í þjóðfélaginu sem þurfa á því að halda að eignast húsnæði með sparnaði og allt sem miðar að því að örva slíkan sparnað er jákvæð þróun sem við þurfum að efla.